50 ára vígsluafmæli Prestsbakkakirkju, 4. nóvember 2007 Textar kirkjudags (Jóh 4.14, 23-24).
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
50 ára kirkjuafmæli er gleði- og þakkarefni. Það er þakkarefni að Guðsorð hefur átt í þessu húsi traust og öruggt athvarf og fengið að skjóta rótum í hjörtum safnaðar Krists. Það er líka gleði og þakkarefni að þeir sem fyrir fimmtíu árum lögðu á sig erfiði og gáfu tíma og krafta sína til að þetta hús mætti rísa, gerðu það ekki til einskis, því húsið verið kristni og samfélaginu til eflingar. Það vill svo til að í dag er líka haldið upp á allra heilagra messu, minningardagur látinna, og við þau sem látist hafa á árinu verða sérstaklega nefnd í og þeirra minnst í bæninni hér á eftir.
Fimmtíu ára Guðs hús. Til hamingju. Í fyrra var ég spurður spurningar á barnasamveru, einlæg og opinská spurning, sem hefur orðið mér minnistæð. Spurningin var einföld: Hvar á Guð heima?
Við erum stödd í kirkju, og kannski svara einhverjir að kirkjan sé Guðs hús, þar eigi Guð því heima. Aðrir segja kannski að miðað við bænina „Faðir vor“ þá eigi hann auðvitað heima á himnum. Börnin geta kannski teiknað hann, sjá hann með sínum augum, eins og ég get séð hann með mínum innri augum, og hef líka séð teikningu þar sem Guð er á skýi. Og vissulega sjáum við hann hvert með okkar augum, sum efasemdaraugum, önnur full raunsæis eða vísinda-augum nútímans. Við eftirlátum himininn handa englum og fuglum, var eitt sinn sagt, og þar með meint að best væri að halda sig við jörðina og jarðneska hluti. En sumir verða að finna og þurfa að hafa draum, og Guð er þannig draumur. Trú, von og kærleika, þetta þrennt sameinar Kristur.
Guð er andi, segir Jesús. Hann hefur sem sagt ekkert sérstakt úlit. Og við eigum að tilbiðja hann í anda og sannleika. Hvar getum við tilbeðið Guð í anda og sannleika, eins og sagði í guðspjallinu. Hvar býr Guð? Öldum saman hefur fólk farið pílagrímaferðir til hinna og þessara staða, því þar telur það sig geta komist nálægt almættinu. Borgin heilaga, Jerúsalem, er þeirra elst og helst. Síðan komu aðrar borgir, og helgistaðir, og fjöll, helgafell.
Sumir eiga sína eftirlætisstaði, þar sem þeir finna vel nálægð Guðs. En það hinsvegar ber að harma þegar slík tilfinning snýst upp í fordóma og fólk fer að telja sig eiga einkarétt á Guði og fordómarnir snúast upp í ofbeldi og hryðjuverk gegn saklausum borgurum.
Ég óska mér heims án vopna og án trúarbragða, var lýsing eins bloggara á netinu nýverið þegar hann lýsti því hvernig samfélagið gæti orðið lífvænlegra og betra. Og víst væri vopnlaus heimur paradís á jörð. En hann er því miður tálsýn, þegar haft er í hug allt það ofbeldi og þau hryðjuverk sem dreifast eins og faraldur um allan heiminn. Og heimur án trúarbragða er líka jafn óraunverulegur og líka jafn óæskilegur.
Flestir hafa nú látið sannfærast um að trúarbrögðin orsaka ekki stríð, heldur verða stríð til vegna hagsmunaárekstra, ekki trúarskoðana. Þegar hagsmunir og trúarskoðanir hóps fara saman, beitir fólk fyrir sig trúarbrögðum, misnotar þau, á þann hátt sem öllu sanntrúuðu fólki finnst andstyggilegt og rangt, og reynir að koma í veg fyrir með misjöfnum árangri. En trúin er samfélagseflandi og gefur fólki von og traust, skapar ábyrgð og eflir náunga-kærleika. Án trúar eigum getum við ekki vitað hvort dyggðir eins og miskunnsemi, náungakærleikur og virðing fyrir mann-réttindum myndu halda velli.
Því viljum við trúa og vona að sá tími komi, já sé þegar kominn, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Við megum aldrei upphefja einhverja staði, hvort sem það er Jerúsalem, Péturs-kirkjan eða Kaba-steinninn í Mekka sem Islams-trúin safnast til, eins og þessir staðir eigi einkarétt á Guði. Því nálægð Guðs eru engin takmörk sett, hana finnum við þegar andi Guðs snertir okkur þar sem við erum stödd í lífi okkar, hvort sem það er við skírnarlaug eða yfir moldum, við jólaljós eða páskasól, ef við gefum Guði þar rúm í hugsun okkar og breytni og leitum sannleikans í einlægni og af okkar fremsta megni.
Ég veit ekki hve oft þú hefur staðið í þannig sporum í þessari kirkju, en ég vona svo sannarlega að þú eigir þau augnablik sem gera lífið svo óendanlega dýrmætt, og hefur þig upp úr öllu forgengileik og hégóma. Slik augnablik gera mann ekki að verri manneskju. Sá sem hefur fundið snertingu andans með þessum hætti getur eftir það tæpast fundið sannleikann í byssukúlu, né tekið sér einkaleyfi á sannleikanum gagnvart öðrum mönnum. Sannleikurinn verður eitthvað sem maður leitar og getur kannski fundið, að hluta til, einhverntíma, með því að leitast við að sýna heiðarleika og tillitssemi í daglegu lífi. Með hann getum við kannski saman fundið frið í veröld sem verður stöðugt fyrir því að bæði trú og vopnum er beitt til ills, af fólki sem misnotar það í eigin þágu.
Að tilbiðja Guð í anda og sannleika, það felur í sér að maður skilji sjálfan sig og líf sitt og móti það í trausti á lifandi algóðan Guð sem er nálgast mig í lífsins óteljandi aðstæðum, og lifa lífinu í lotningu fyrir kærleika hans vegna þess að lífið er svo viðkvæmt og auðvelt að steypa jafnvæginu í samfélagi mannanna.
Að tilbiðja Guð í anda og sannleika merkir ekki að við höfum höndlað sannleikann eða eignast einkarétt á honum. Miklu frekar getum við litið svo á að sannleikurinn hafi höndlað okkur, farið höndum um samvisku okkar svo við skiljum að Guð er í öllu lífi og okkur miklu æðri.
Hvar á Guð heima? Spurning sem börn spyrja, og fullorðnir deila um, en er kannski best svarað með frásögn gyðinglega heimspekingsins Martin Buber, sem svarar henni svona: Guð á heima þar sem maður hleypir honum inn.
Við þökkum fyrir fimmtíu ára samfylgd og samveru í þessu Guðs hús, þar sem við komum til að hleypa Guði inn í hjarta okkar. Við þökkum fyrir þau sem horfin eru frá okkur og komu hér á undan okkur, já, fyrir öll þau sem hjálpuðu okkur að hleypa Guði inn í hjarta okkar, fyrir þau sem við eigum eitthvað fallegt að þakka fyrir og biðjum Guð að blessa minningu þeirra. Guð blessi þennan stað og kirkjuna okkar hér og öll þau sem hingað leita. Guð blessi hjarta mitt og hug og eigi þar ætíð bústað sinn. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen