Tvær helgar í röð fjallaði RÚV um prédikanir presta í útvarpsmessum. Í báðum tilfellum tel ég að fréttamenn RÚV hafi bjagað boðskapinn. Þetta gerðist í hádegisfréttum á RÚV 29. ágúst 2010 þegar greint var frá prédikun sr. Guðbjargar Jóhannesdóttur, formanns Prestafélag Íslands, sem hún flutti í Hafnarfjarðarkirkju sama dag. Í prédikuninni ræddi hún m.a. úrsagnir úr Þjóðkirkjunni og hafði auðvitað ýmislegt við þær að athuga en hennar skoðanir komu hins vegar ekki fram í hádegisfréttum, heldur bara hitt, að fólk vildi segja sig úr kirkjunni. Ég hringdi í fréttastofu RÚV strax í hádeginu og gerði athugasemd við skakkan fréttaflutning.
Viku síðar, 5. september, prédikaði ég sjálfur í útvarpi og kom víða við. Í hádegisfréttum RÚV var getið um það að ég hefði talað um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég hvatt til aðskilnaðar og það á forsendum kirkjunnar. Að prestur hvetji til slíks gerist ekki daglega á Íslandi og það í beinni útsendingu! Einnig var þess getið í sömu frétt að ég hefði gagnrýnt fjölmiðla. Reyndar var margt annað í ræðunni sem hefði mátt ræða í fjölmiðlum.
Í Sjónvarpsfréttum um kvöldið var sýnt myndskeið úr messunni. Þar var bara sýnt það sem sagt var um fjölmiðla en ekkert annað (bara hið sjálfhverfa sjónarhorn sjónvarpsmanna) og þegar myndskeiði lauk sást fréttalesarinn, sjálfur útvarpsstjórinn, glottandi á skjánum. Ég tel mig ekki haldinn neinum ofsóknarkvillum en ég hugsaði með mér: Hvaða skilaboð voru fólgin í þessum svipbrigðum?
Miðvikudaginn 15. september var tvennt í sjónvarpi sem vakti sérstaklega athygli mína. Hið fyrra var viðtal í Kastljósi við Úlfar Þormóðsson, sem Helgi Seljan stýrði. Samtalið snerist um bók Úlfars um Biblíuna. Úlfar er leikmaður á því sviði og fáfræði hans um málefnið leyndi sér ekki í viðtalinu. Viðtal þeirra tveggja var ágætt sem slíkt en hins vegar var engin fræðileg umfjöllun um illa grundaðar niðurstöður höfundar, bókstafstúlkun hans á flóknu ritverki og fjandsamleg viðhorf til hinnar helgu bókar. Hefði ekki verið hægt að fá einhvern viðmælanda sem hefði getað spurt Úlfar einhverra bitastæðra spurninga? Voru þetta fagleg vinnubrögð? Hefði ekki átt að fá t.d. guðfræðing til að spjalla við Úlfar?
Síðar sama kvöld birtist svo „uppistandarinn“ Bragi Kristjónsson, bóksali, með troðnar nasir af neftóbaki, í þættinum, Kiljan, og lýsti flesta ef ekki alla karlpresta með eldra próf í guðfræði sem afgangstærð. Orðrétt sagði hann:
„Þetta er stétt afganganna – prestastéttin. Í gamla daga fóru þeir í guðfræði sem féllu í læknisfræði, lögfræði og öðrum fögum. Þess vegna er sko eldri kynslóð presta, hún er bara afgangar, en svo eru að koma inn í stéttina núna – konur, fullt af góður og merkilegum konum – eins og maður sér á þessari konu þarna uppi í Grafarholti, sem er andskoti einbeitt og flott kona.“
Ég tek undir það með Braga að það er mikil vigt í henni séra Sigríði.
Þeir fimbulfömbuðu svo áfram félagarnir, þétti á velli og þéttir í lund, brostu og hlógu að eigin bröndurum.
Látum nú vera þetta innslag bóksalans sem gegnir því hlutverki að vera krydd í þátt sem fjallar um bækur. Bragi er skemmtielgur sem slíkur. En ég spyr svona bara í stríðni í garð Braga: Hvaða próf þurfa menn til að selja gamlar bækur? Við erum víst báðir með próf úr Verzlunarskólanum og ég gæti því kannski skipt um starfsvettvang á efri árum!
En hitt er alvarlegra þegar einhver kemur í viðtal í Kastljós og telur sig vera með uppgötvun sem jafnvel breytir sögunni. Þar þarf að vanda betur umfjöllun. Svo undrast fjölmiðlafólk að ég hafi talað um einelti gagnvart kirkjunni. Einelti birtist m.a. í sífelldu klifi um fréttir sem fjölmiðlar vilja ekki afgreiða vegna þess að það vantar fréttir í gúrkutíðinni og svo kalla ég það einelti þegar stöðugt er verið að grafa undan kirkju og kristni í ríkisfjölmiðlum.
Getur hver sem er fengið rúm í RÚV til þess að fjalla þar um hugðarefni sín og/eða fordóma án þess að nokkur geri athugasemdir við uppistandið? Er stofnunin gjörsneydd hæfileikum til að taka faglega á málum sem snúa að kirkju eða kristni? Hvernig væri að kalla til álitsgjafa með þekkingu á efni sem starfsmenn hafa takmarkað vit á?