Það er ákveðin nálgun í guðspjalli dagsins sem er svo óvenjuleg og ósamþykkt í samskiptum manna að við hreinlega verðum að staldra við hana. “Ef bróðir þinn syndgar gegn þér skaltu fara og tala um fyrir honum og sé það ykkar einna í milli.” Hérna er talað um frumkvæði fórnarlambsins til sátta. Hvað lærðum við sem börn varðandi misklíð og sættir? Lærðum við ekki að fara og biðjast fyrirgefningar, gerðum við eitthvað á hlut annars, var það ekki okkar hlutverk þá að rétta fram sáttarhönd og bíða með skeifu á vörum eftir því að fórnarlambið sýndi okkur miskunn? Hefur þetta samskiptaform ekki haldið velli fram á fullorðinsárin? Er þetta ekki einmitt gangurinn í samskiptum hjóna, sá sem brýtur af sér, skal eiga frumkvæði að sáttum, leita eftir sáttum. En í guðspjallinu í dag er allt annað upp á teningnum, þar er er ekki einungis lagt til að þú leitir eftir sáttum við þann er syndgaði gegn þér, heldur skaltu ganga eftir því með stuðningi meðbræðra þinna að sú sátt náist fram. Í raun er ekki bara verið að tala um fyrirgefningu heldur miskunnsemi það er nefnilega ekki alveg sami hluturinn. Miskunnsemi felur í raun í sér virkari framgöngu þar sem sá sem veitir hana er ekki einungis að fyrirgefa heldur veita gerandanum annað tækifæri. Í raun má segja að fyrirgefningin sé forstig miskunnseminnar. Við getum nefnilega ákveðið að fyrirgefa bara í hjarta okkar oft sjálfra okkar vegna, af því að það er hreinlega erfitt að lifa í eilífri reiði en miskunnsemin kallar á virkni, hún er ekki bara huglægur og tilfinningalegur veruleiki heldur skref sem þú þarft að taka í beinum samskiptum við náunga þinn.
Afstaða Guðs til okkar er alltaf grundvölluð á miskunnsemi, já alltaf, vegna þess að ef þau lögmál ríktu í samskiptum Guðs og manna sem við höfum alið kynslóðirnar upp í frá örófi alda, að gerandi eigi frumkvæði að fyrirgefningu, nú þá væri löngu búið að slökkva á sólinni og draga fyrir himininn. Líf okkar er með öðrum orðum háð miskunn Guðs vegna þess að við brjótum gegn honum hvern einasta dag , hverja einustu stund, já á hverri mínútu deyr ein manneskja í veröldinni af völdum skotvopna, líf okkar er svo sannarlega háð miskunn Guðs, við munum aldrei geta snúið þeirri staðreynd við en hins vegar á sú staðreynd að vera okkur hvatning til að bæta mannlífið. Sú afstaða sem að Guð boðar okkur í guðspjalli dagsins hefur keðjuverkandi áhrif sem leiðir til minni þjáningar í veröldinni, þetta hljómar nánast eins og reikningsdæmi en miskunnarleysi er uppspretta þjáningar. Ég mun aldrei trúa því að manneskjur fæðist vondar, en ég trúi því að einhver hafi einhvern tímann verið vondur við vonda manneskju, vondir hlutir gerast vegna skorts á miskunnsemi.
Þegar ég var barn að aldri varð alvarlegt bílslys í sveitinni heima, rúmlega tvítugur maður sem var farþegi í bíl á leið heim eftir dansleik lést þegar bíllinn fór út af , ökumaðurinn var jafnframt sveitungi okkar, 17 ára gamall og nýkominn með bílpróf, pabbi var prestur í sveitinni svo það kom eðlilega í hans hlut að tilkynna móður hins látna frá staðreyndum málsins. Gamla konan bjó þá ein með þessum syni sínum, eiginmaðurinn var látinn, hafði raunar orðið bráðkvaddur við orgelið í Laufáskirkju í miðri fermingarmessu, en hún sagði prestinum að ljúka messunni, barnanna vegna. Samfélagið var slegið, allir þekktu alla og meira en það allir voru eiginlega skyldir öllum þannig að svona slys lagðist eins og dökkt ský yfir sveitina. Í miðju ferli þessa áfalls gerðist síðan nokkuð sem mun aldrei líða mér úr minni og varð þess valdandi að alltaf þegar ég sá þessa gömlu konu fylltist ég lotningu þess sem sér einhvern miklu miklu stærri. Hún kallaði nefnilega ökumanninn unga á sinn fund fljótlega eftir slysið, til þess að gera honum grein fyrir því að hún ásakaði hann ekki, því að slys væri slys og þó að lífi sonar hennar væri lokið mætti hans lífi, hans framtíðardraumum ekki ljúka, það var ekki bara það að hún fyrirgæfi honum heldur veitti hún honum lausn svo að hann hefði frelsi til að gera gott úr lífi sínu. Gamla konan reisti drenginn við við, Það eru svona prédikanir sem maður gleymir aldrei, þetta heitir miskunnsemi, já “hvað sem þér leysið á jörðu mun leyst á himni.”
Við erum alltaf að velta fyrir okkur hvers vegna ekkert gerist í efnahagsmálum þjóðarinnar þessa dagana, hvers vegna við hlýðum alltaf á sömu fréttirnar dag eftir dag eins og um eilíft deja vu sé að ræða, hvers vegna ekkert samkomulag náist um Icesave, hvers vegna hjólum atvinnulífsins sé ekki komið af stað, hvers vegna fjárhag heimilanna er ekki komið í einhvern farsælan farveg. Ég held að svarið við þessari spurningu liggi miklu dýpra heldur niður á Austurvelli, ég held að það liggi í miskunnarleysi okkar Við viljum sjá sökudólgana fá makleg málagjöld jafnvel þó það muni engu breyta um ástand efnahagslífsins við vitum vel að þeir sem fóru geyst í útrásarölæðinu hafa ekki bolmagn til að rétta við íslenskt efnahagslíf, við vitum það mætavel. Ákallið um refsingu þeim til handa byggist einvörðungu á hinni frumstæðu þörf að sökudólgar fái makleg málagjöld. En hver græðir á því, hver græðir á refsingum? Hvorki gerandinn né fórnarlambið. Í dag er það viðurkennd og áhrifarík uppeldisaðferð að öskra ekki á börn þegar þau gera eitthvað af sér, heldur sýna þeim hvernig maður breytir rétt, það er besta leiðin til að koma í veg fyrir endurtekin mistök. Þegar bróðir þinn syndgar gegn þér þarftu að skoða hvernig hægt er að leysa málin þannig að allir geti haldið áfram að lifa. Það er það sem skiptir máli, það skiptir ekki máli hvor leysir hlutina, sá sem gerir eða sá sem verður fyrir. Og þá er ekki verið að horfa framhjá ábyrgð gerandans, sem er svo sannarlega mikil heldur er verið að tileinka sér aðferð Jesú Krists sem hafði það að markmiði að bæta manneskjur. Nú hristir einhver raunsæismaðurinn sjálfsagt hausinn um leið og hann hugsar, “já já gott að kirkjan boði betri heim, en svona virka hlutirnir ekki í veruleikanum, menn verða að standa undir ábyrgð” og það er alveg satt, það síðasta sem kristin trú firrir manninn, er ábyrgð, en ábyrgð er hægt að axla án refsinga því í raun er mesta refsingin fólgin í eigin mistökum, refsingin sem samfélagið kallar eftir og felur í sér að menn séu teknir úr umferð er aðeins frysting á aðstæðum, en ekki breyting á gjörðum. Með þessu er ég ekki að segja að fangelsi séu í alla staði óþörf en mörg fangelsi víða um heim bjóða upp á allt annað en betrunarvist. Þetta er umhugsunarefni, veruleikinn er auðvitað sá að sumir menn eru umhverfi sínu hættulegir en sú hætta líður ekki hjá ,með því að einhverjir aðrir verði vondir við þá. Maður heyrir stundum mjög skrýtinn málflutning hérna í samfélagsumræðunni sem snýr að erlendum brotamönnum, þar sem menn halda því blákalt fram að þeir komi til landsins til að brjóta hér af sér af því að það sé svo gott að vera í íslenskum fangelsum, að íslensk fangelsi séu bara að fyllast af erlendum ógæfumönnum sem vilja vera á Hótel Hrauni, nú ef það er raunin þá erum við a.m.k. að gera eitthvað rétt þessa dagana, ég held að Margrét Frímannsdóttir eigi þá hrós skilið fyrir að byggja upp mannvænlegt en ekki miskunnarlaust samfélag, það mun örugglega skila sér um síðir.
“Vakið, standið stöðug í trúnni, verið hugdjörf og styrk. Auðsýnið kærleika í öllu sem þið gerið.”, segir postulinn í pistli dagsins, já auðsýnum kærleika í öllu sem við gerum, þetta er verðug áskorun fyrir íslenska þjóð, það er áskorun um að sýna miskunn þeim sem hafa brotið gegn himninum og samfélaginu því meðan sólin heldur áfram að skína og manneskjur draga andann er vert að gefa því gaum. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.