Á morgun, fimmtudaginn 18. febrúar, heldur Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar sinn árlega aðalfund í Neskirkju við Hagatorg.
Aðalfundur ÆSKÞ er merkilegur viðburður fyrir margra hluta sakir, þó hann láti ekki mikið yfir sér. ÆSKÞ eru frjáls félagasamtök æskulýðsfélaga í söfnuðum Þjóðkirkjunnar og á aðalfund mæta fulltrúar hvers aðildarfélags, jafnt ungmenni sem fagfólk og prestar. Á jafningjagrundvelli gefa allir sem starfa í ÆSKÞ vinnu sína, kjósa sér stjórn og stjórnin ræður starfsmann sér til stuðnings.
Uppbygging ÆSKÞ er ekki flóknari og á aðalfundi kynnist unga fólkið jafningjalýðræði, fundarstörfum og ábyrgð í samstarfi við fagfólk í kirkjunni. Með þessari lágreistu og lýðræðislegu uppbyggingu er tryggt að starf samtakanna er ætíð í beinum tengslum við unga fólkið. Þar sem allir starfa af hugsjón leysist úr læðingi sá kraftur sjálfboðaliða sem knýr starf ÆSKÞ áfram.
Verkefni ÆSKÞ eru einföld en viðamikil. Annarsvegar hafa samtökin það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og öryggi barna í söfnuðum Þjóðkirkjunnar og hinsvegar að skipuleggja fræðslu og viðburði á landsvísu. Stjórn ÆSKÞ hefur á undanförnum árum haft afskipti af störfum innan kirkjunnar þar sem siðareglur í kristilegu æskulýðsstarfi hafa verið brotnar og rætt við söfnuði um mikilvægi þess að einungis lögráða einstaklingar séu í forsvari fyrir æskulýðsstarf.
Mikið starf hefur verið unnið til að tryggja öryggi barna í starfi kirkjunnar og óhætt er að fullyrða að ÆSKÞ er í fararbroddi þegar kemur að skimun og skráningu leiðtoga og þátttakenda á viðburðum sambandsins. Stærsta verkefni ársins er Landsmót ÆSKÞ en sá viðburður hefur margfaldast að stærð á undanförnum árum og er nú stærsti einstaki viðburður kirkjuársins.
Landsmót ÆSKÞ 2015 var það fjölmennasta hingað til. Á mótinu komu saman rétt yfir 700 ungmenni og leiðtogar til þess að gleðjast í Kristi, fræðast um mikilvægi geðheilbrigðis og safna fé til styrktar innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar. Alls söfnuðust 500.000 krónur í verkefni sem miða að því að rjúfa félagslega einangrun ungmenna og styðja við tómstundastarf barna á Íslandi. Ekkert verkefni er mikilvægara og það er óhætt að fullyrða að framtíð íslensku Þjóðkirkjunnar muni ráðast af því hvernig að til tekst.
Kirkja sem ekki ávinnur sér traust og þátttöku ungs fólks, mun á einni kynslóð hverfa. Ef litið er til þeirra ungmenna, sem tekið hafa þátt í starfi ÆSKÞ á liðnu ári og eru að taka sér stöðu sem leiðtogar í söfnuðum landsins af eldmóð, er auðséð að framtíð kirkjunnar er björt. Ég vil hvetja presta og forystufólk í kirkjunni að leggja málstað ÆSKÞ lið og fjölmenna á aðalfund sem hefst kl. 17.00.