Miðnæturmessa á jólanótt í Dómkirkjunni 2007
Ó, Jesúbarn þú kemur nú í nótt Og nálægð þína ég í hjarta finn, Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt Í kotin jafnt sem hallir fer þú inn.Guð gefi þér gleðileg jól! Enn höfum við fengið að ganga inn í helgi og hátíð helgrar jólanætur. Ungar, tærar raddir hafa fyllt helgidóminn yndisleika og fegurð. Enn einu sinni hefur hún Þorgerður Ingólfsdóttir safnað saman unga fólkinu sínu til að bera englasöng og helga hljóma til okkar, enn ein jólin. Það eru reyndar rétt fjörutíu ár nú síðan hún var fyrst með kór hér við biskupsmessu á jólanótt. Það var barnakór og börnin stóðu hvítklædd hér í kórnum og héldu á logandi kertum. Ógleymanlegt. Þökk fyrir jólin öll fyrr og síðar. Guð launi það og blessi ykkur og allt sem að ykkur stendur og ykkur fylgir. Gleðileg jól! Margar eru persónur hinnar helgu sögu jólaguðspjallsins. Ágústus keisari, María, Guðsmóðir, hirðarnir, englarnir, gistihúseigendur og hótelhaldararnir í Betlehem...Já, og hann Jósef.“Þú kemur enn til þjáðra í heimi hér með huggun kærleiks þíns og æðsta von. Í gluggaleysið geisla inn þú ber því guðdómsljóminn skín um mannsins son.
Sem ljós og hlýja´í hreysi dimmt og kalt Þitt heilagt orð burt máir sekt og synd Þín heilög návist helgar mannlegt allt Í hverju barni sé ég þína mynd. Amen
Mér er hann Jósef eitthvað svo hugstæður í seinni tíð. Sumir segja að hann sé litlaus og daufur karakter. Ég er ekki sammála. Hann er maður sem lætur verkin tala. Og þau segja heilmikið um hvern mann hann hafði að geyma, blessaður.
Margar eru myndirnar af Guðs móður, Maríu. Yndislegar, hrífandi myndir. Hún heldur á barni sínu og eins og lyftir því fram, móðir Guðs á jörð, verður eins og móðir alls lífs sem réttir barnið fram sem gjöf til heimsins, mannkynsins, lífsins, - barnið sem er frelsari og endurlausnari alls.
Fæðing Jesú, holdtekja Guðs sonar, að orðið varð hold, Guð varð maður, það setur móður hans, Maríu, sannarlega í forgrunn. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það að Jósef, sem tekst á hendur það hlutverk að vera jarðneskur faðir Jesú, er settur til hliðar í helgimyndum jólanætur. Á velflestum jólamyndum er hann í bakgrunninum, í skugganum. Það er ekki skrítið, við karlarnir erum alla vega eins og illa gerðir hlutir andspænis þeim leyndardómi sem barnsfæðing er, og allt sem henni tengist, það sem á sér stað í og með og kringum konuna og barnið sem hún ber og fæðir.
Ég tilheyri þeirri kynslóð feðra sem með semingi var leyft að vera viðstaddir fæðingu barns síns. Ég man enn hnútinn í maganum, lamandi máttleysistilfinningu við hjartaræturnar og þurrkinn í kverkunum þegar mér var ýtt inn á fæðingastofuna á Landspítalanum snemma ársins 1971 og fæðingin var í fullum gangi, og mig sundlaði, allt gekk í bylgjum og snarræði djarfhuga hjúkrunarnema bjargaði mér frá því að skella kylliflatur á gólfið og síðan var móðirin, að því ég hef einatt ímyndað mér, skilin eftir nánast eftirlitslaus meðan mér var bjargað fram og ég var lífgaður við!
Ég gleymi heldur ekki þeirri höfugu upplifun að líta barnið litla nýfætt og fá það í fangið. Það var eiginlega svona upplifun utan líkamans. það að vera algjörlega til staðar, en um leið í einskonar leiðsluástandi sem skapar undarlega fjarlægðartilfinningu. Þetta var einhvern veginn allt of mikið og yfirþyrmandi, stórt og undursamlegt, gleði, fögnuður, þakklæti og auðmýkt andspænis þessum leyndardómi.
Skyldi það hafa verið reynsla Jósefs þarna í fjárhúsinu? Hann varð alla vega að standa sig. Það var engum öðrum til að dreifa. Ég efast um að himneskir englar hafi gegnt hlutverki ljósmóður þarna. Það var bara hann Jósef, með sitt titrandi karlmannshjarta, og sigggrónu smiðshendur.
Og hann gerði það sem hann þurfti. María hefur sagt honum til, konur kunna á þetta yfirleitt, þetta er í þeim, alveg frá byrjun, þetta sem lífið krefst af þeim, við karlarnir þurfum að láta segja okkur það, og Jósef hefur hlýtt, vafalaust eins og í leiðslu, eða roti, en hlýddi samt. Og svo þegar allt er af staðið þá stendur hann þarna í skugganum og þorir varla að horfa á Maríu þar sem hún leggur barnið sér á brjóst og hugsanirnar þyrlast um í huga hans.
Frásögnin af boðun Maríu er flestum kunn, af því eru ótal myndir og ódauðleg listaverk, af englinum og meynni Maríu. En Matteus guðspjallamaður segir líka sögu af boðun Jósefs. Ég man ekki til að nein mynd sé til af því. Engill vitjaði Jósefs í draumi og sagði honum að taka að sér Maríu, vegna þess að: „barnið sem hún gengur með er af heilögum anda. Þú skalt láta hann heita Jesú, því hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“
Og hvernig átti hann að geta skilið þetta, hann Jósef? Það var sagt um prest einn á síðustu öld að hann var spurður einhvers um hinstu rök og svaraði: „Guð veit það ekki, - ég veit það varla sjálfur“! En þetta sem er kjarni okkar kristnu trúar, þetta sem jólin eru að segja og Jósef horfði á, það er svo óskiljanlegur, en undursamlegur leyndardómur, að mannleg hugsun nær ekki að fanga hann með neinu móti, - nema með trú og kærleika, umhyggju og tryggð.
Þetta er nefnilega ekki trúfræðiformúla, né skilgreining. Guð er bókstaflega hér. Svona vill Guð frelsa heiminn, með því sem mannlegt er, með veikleika, varnaleysi, með því að vekja okkur af svefni með gráti barns og að afvopna okkur með að teygja ungbarns arma í átt til okkar.
Almáttugur Guð frelsar lýð sinn frá syndum hans með því að elska sig inn í þennan heim.
Á einn eða annan hátt stöndum við öll í skugganum, eins og Jósef. Við vitum ekki gjörla til hvers er ætlast, eða hverju við eigum að trúa. Og þessi leyndardómur jólanna, að Guð varð maður í heiminum okkar, hér á jörð oss nær, það er ofar öllum skilningi. Samt liggur dýpsta og innsta merking lífs og tilveru í því að við lútum þessu undri og tökum á móti því. Leggjum trúna að hjarta okkar, eins og lítið ungbarn. - Líka við karlmennirnir, munum eftir honum Jósef! Ekki síst andspænis þeim tíðaranda sem leitast við að ræna karlmanninn karlmennsku sinni, og virðing sem maður, sem faðir, ábyrgur fyrir lífi sínu og afkvæma sinna, lífi og heill, andlegri og líkamlegri.
Hann brást ekki köllun sinni, hann Jósef! Hann tók Maríu að sér, verndaði hana, virti, elskaði hana og barnið hennar. Flýði með þau til Egyptalands undan morðhundum Heródesar. Bjó þeim svo heimili heima í Nasaret. Það er áreiðanlega umfram allt vegna Jósefs, að Jesús lærði að sjá Guð sem föður, svo hann gat kennt heiminum að treysta, elska, virða Guð sem föður. Góðan, umhyggjusaman föður, sem með hlýju og ástúð, styrk og festu leiðir, vakir yfir, verndar og styður börnin sín öll.
Barnið sem hann Jósef tók að sér og gaf nafnið Jesús, bar á örmum, leiddi síðar við hönd sér, verndaði, hlúði, það var frelsari hans frá syndum, - og frelsari minn. Frelsari heimsins, frelsari þinn. Barnið sem Jósef tók á móti í fjárhúsinu í Betlehem og lagði í faðm móðurinnar, - líf þess var í hans höndum þá, - er frelsarinn, Drottinn Jesús. Þá þurfti hann vernd Jósefs. Og þarfnast nú verndar og umhyggju, trúar og kærleika okkar allra hér, kvenna og karla, ungra sem aldraðra, já, okkar allra. Eigi boðskapur hans, líf og von að eiga framtíð í heiminum okkar, já og þau dýrmætu gildi sem af því spretta í menningu og samfélagi.
Flest okkar sem hér erum inni höfum fengið boð sem þetta barn varðar, þetta fagnaðarerindi. Þennan leyndardóm. Nafn okkar hefur verið nefnt allt frá móðurlífi vegna þessa barns. Barnsins þeirra Maríu og Jósefs. Leggjum það nú okkur að hjarta, og heitum því að bregðast því ekki. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.