Þegar ég vaknaði í morgun byrjaði ég á því að fá mér vatnsglas, svo fór ég í heita sturtu og fékk mér svo gott te hjá henni Jóhönnu hér á Eiðum.
Æ, fyrirgefið þið ég ruglaðist aðeins…..ég ætlaði ekki að byrja hugleiðinguna svona.
Ég byrja upp á nýtt:
Þegar ég vaknaði í morgun byrjaði ég á því að signa mig, bað síðan Guð um vernd og hjálp og styrk fyrir daginn, fór svo á facebook og setti inn mannakornið mitt. Mannakornið mitt finn ég á biblian.is og neðst í hægra horninu stendur mannakorn og það klikkar maður á og þá fæ ég mannakorn sem ég set inn á facebókina mína á hverjum morgni. Mannakornið sem ég fékk í morgun var svona: Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur.
Hvor byrjunin á hugleiðingunni fannst ykkur betri?
Sú fyrri eða sú síðari….já það eru skiptar skoðanir ... heyri ég.
Ég get sagt ykkur að báðar byrjanirnar eru sannar af því að líf með Jesú er mér jafn nauðsynlegt og vatn.
Konan í guðspjallinu sem lesið var áðan þurfti að ganga langa leið á hverjum morgni til að sækja vatn. Enn í dag um 2000 árum síðan þurfa ungar konur að ganga langar leiðir eftir vatni. En einn morguninn var allt einhvern veginn öðruvísi hjá konunni í guðspjallinu. Það var maður við brunninn sem talaði til hennar sérkennileg orð. Hann talaði um vatn á óvenjulegan hátt. Hann talaði líka við hana um líf hennar og vissi allt um hana. Hann vissi að hún hafði átt fimm menn.
Jesús veit líka allt um líf okkar. Hann þekkir okkur öll mjög vel. Hann veit ef við höfum verið misnotuð í æsku og hann veit að við getum talað um það við hann. Hann veit ef við erum að velta því fyrir okkur hvort við erum samkynhneigð eða gagnkynhneigð og við getum líka talað um það við hann. Við getum talað við hann um allt og hann skilur allt.
Þegar við kynnumst Jesú er eins og þegar einhver mjög þyrstur drekkur vatn. Líf okkar er þurrt án Jesú. Líf okkar er innihaldslaust án Jesú. Líf okkar er tilgangslaust án Jesú.
Jesús segir við þig: Ég skal gefa þér að drekka og og frá hjarta þínu munu renna lækir lifandi vatns. Hann segir að vatnið eigi ekki að stoppa hjá okkur. Það á að renna áfram frá okkur. Hvernig eigum við að fara að því? Hvað getum við gert?
Við getum sagt öðrum frá Jesú eins og krakkarnir í hljómsveitinni gerðu áðan. Við getum gert góðverk. Við getum safnað fyrir brunnum eins og við gerðum hér í gær og við getum gert góðverk í nærumhverfi okkar og skoðað hverjir það eru sem þurfa á hjálp okkar að halda.
Guð kallaði ykkur hingað á þetta landsmót. Guð dró ykkur hingað með ósýnilegum þráðum í ákveðnum tilgangi og nú í dag eruð þið ekki þau sömu og þegar þið komuð á föstudaginn. Þið eigið lífsreynslu þessarar helgar, eruð nýtt fólk.
Þið hafið gert heiminn betri þessa helgi og þá hugsun skulið þið láta fylgja ykkur heim. Þið skulið ekki gleyma bæninni því hún er hjálp okkar við að koma kjörorðinu okkar í framkvæmd: að gera heiminn örlítið betri í dag en hann var í gær. Í Jesú nafni Amen.