Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans. Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.
Og hann sagði við þau: Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns? En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum. Lúk. 2.41-52
Náð sé með yður ogt friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi.
Þetta var hluti af fermingarundirbúningnum. Pilturinn Jesús átti að fermast á næsta ári. Þar með yrði hann fullgildur og ábyrgur meðlimur trúarsamfélagsissns. Bar mitsva. Til þess þurfti hann m.a. að kynnast helgihaldinu í musterinu og fræðast. En þetta var ekki eina fræðslan sem hann fékk. Á heimilinu fór fram ítarleg fræðsla um trú og sögu þjóðarinnar. Þetta var samofið. Þar var spurt og svarað og endurtekið, dag eftir dag, ár eftir ár. Bænir og bænaatferli var einnig hluti af reglulegri fræðslu og helgihaldi á heimilinu, í samkunduhúsinu og samkunduskólanum. Drengnum Jesú Jesú var ekki ætlað að hlaupa yfir neitt af þessu, síður en svo. Í þessu laut hann sömu venjum og hefðum og aðrir piltar, þrátt fyrir það hver hann var. Og nú var hann á leið til Jerúsalem, til miðstöðvar helgihalds og guðsdýrkunar í landinu. Það hlýtur að hafa verið tilhlökkunarefni. Og þarna gleymdi hann sér, varð viðskila við fólkið sitt og gleymdi sér við að hlusta á fræðarana í musterinu og spyrja þá, ræða við þá. Og þeir undruðust. En hefði hann kunnað að spyrja ef hann hefði ekki hlotið fræðslu? Þekking fæðir af sér spurningar ekki aðeins svör við þeim. Nýjar spurningar og ný svör auka þekkinguna og dýpka skilninginn. Einnig í þessu laut Jesús sömu lögmálum og aðrir. Og undirbúningur þessarar mikilvgægu ferðar hafði ekki verið vanræktur heima. Að þekkja Guð og velgjörðir hans, að þekkja Guð og vilja hans, að þekkja söguna af hlýðni og óhlýðni þjóðarinnar var grundvöllur þess að geta verið fullgildur meðlimur trúarsamfélagsins, sem var reyndar reyndar hið sama og samfélagið í heild sinni. Að iðka trú, læra atferli tilbeiðslunnar, temja sér að nálgast hið heilaga með lotningu, tilheyrði þessum grundvalllaratriðum. Að elska Guð og elska náungann var markmiðið.
* * *
Svo virðist sem Íslendingar hafi vaxandi áhyggjur af ungmennum sínum og uppeldismótun þeirra. Varla líður sá dagur að ekki berist fréttir af þessu eða hinu forvarnarátakinu svo sem gegn agaleysi, gegn fíkniefnaneyslu, gegn klámvæðingu, gegn ótímabæru, afbrigðilegu og niðurlægjandi kynlífi unglinga o. s. frv.
Forvarnarráðstafanir eru góðar svo langt sem þær ná, en oftast er þeim beint að röngum aðilum, þ.e. unglingunum sjálfum. Á þá ekki að tala við unglingana um þetta allt saman? Jú vissulega. En samfélagið, almenn viðhorf í samfélaginu, hið félagslega aðhald skiptir mestu í þessum efnum. Sé svo, sem mig grunar, að stór hluti unglinga umgengst nær eingöngu unglinga, sem setja sér eigin viðmið, sínar eigin reglur, fengnar úr kvikmyndum og tölvuleikjum sem tíndir eru af sorphaugum kvikmyndaiðnaðarins, er ekki von á góðu. Í unglingasamfélaginu ríkir félagslegur þrýstingur. Þrýsti hann til afsiðunar, leiðir það til skaðlegs atferlis og skaðlegra og eyðileggjandi siðgæðisviðhorfa. Miðlun gilda fer fyrst og fremst fram með fordæmi hinna eldri. Þess vegna ættu forvarnarátökin að beinast að okkur hinum eldri. Hvaða siðgæðisviðmið höfum við. Eru þau líkleg til að byggja upp siðferðilega sterka og félagslega heilbrigða einstaklinga? Ef svo, höfum við þrek til að miðla þeim þótt reynt sé að reka á okkur stimpla afturhalds og úreltra viðhorfa? Höfum við burði til að miðla þessum viðhorfum til barnanna okkar og styrkja þau í því að leita sér að fersku vatni til að svamla í, í stað þess að velta sér upp úr skólpræsum sem verða á vegi þeirra. Og fjölmiðlarnir bera hér ábyrgð, bæði myndmiðlar og prentmiðlar, sem margir hvarjir telja sig skuldbundna til að segja sannleikann. Hvaða sannleika? Þess sannleika sem gjarnan snýst um afgbrigðilegra hegðun samborgaranna og þar eru heilu síðurnar fylltar af ástafari og sambandsslitum þotuliðsins. Þetta er ekk sannleiksást, heldur ást á hagnaði. Þekktur féttamaður hefur án þess að blikna látið hafa eftir sér að fjölmiðlun sé fyrst og fremst bisniss. Og hér er gert út á þá áráttu okkar að liggja á skrárgötum nágrannans.
Almenningsálitið er ekki sjálfsprottið. Það er smíðað af almenningi. Ef þeir sem láta sér á sama standa um siðferðið eru háværastir, mótar það viðhorfin í þjóðfélaginu, einkum meðal ungs fólks sem enn hefur ekki þroskað með sér heilbrigða dómgreind. Ef þeir sem ekki láta sér á sama standa þegja og láta sér nægja að nöldra ofan í kaffibollana sína eru þeir áhrifalausir. Ég minntist á sunnudaginn var á að menningarátök ættu sér stað í þjóðfélaginu. Þetta er hluti af þeim átökun, nema það verða eingin átök ef ekki er á sérhverjum vettvangi þjóðfélagsins hamlað gegn afsiðuninni. Það er uppgjöf að láta það ógert Þessi barátta byrjar inni á heimilunum, síðan í skólunum og loks á almannavettvangi. Þeir sem vilja siðað samfélag eiga ekki að líða að því sé spillt af þeim sem hafa mesta ánægju af að stappa í drullupollum. Félagslegt taumhald er fólgið í öflugu almenningaáliti.
* * *
Hvað kemur þetta guðspjallinu við, sem segir frá ferð 12 ára drengs til Jerúsalem, til undirbúnings fermingu sinni?
Það kemur því í hæsta máta við. Þetta snýst um að miðla gildum. Þetta snýst um að miðla trúararfinum frá einni kynslóð til annarrar. Þetta snýst um að leiða hinn unga til fundar við Guð og vilja hans, til fundar við hið heilaga. Þetta er liður í því að hinn ungi verði skuldbundinn Guði og vilja hans. Hversu iðin rum við við það?
Páll postuli hvetur til þess í pistli dagsins að kristnir menn, vegna miskunnar Guðs, bjóði fram sjálfa sig að lifandi heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Í köflunum þar á undan kemur skýrt fram hver þessi miskunn Guðs er, þ.e. hjálpræðisverk Guðs og trúin sem Guð gefur. Sú trú sem skuldbindur fæðir af sér löngun til að gefa sig Guði á vald. Drengurinn Jesús, sem fæddist til að vera frelsari heimsins, var skuldbundinn Guði feðra sinna og hlýðni við hann. Hann var skuldbundinn vegna þess að hann hafði verið leiddur til hans með fræðslu, iðkun og uppeldi. Grundvallarforsendur áhrifaríks uppldis hafa ekki beyst. fordæmi, þátttaka og fræðsla eru hér undirstöður, einnig í dag.
Ég minntist hér áðan á almenningsálit og félagslegt taumhald. Það var sterkt í Gyðingalandi. Jesús snerist gegn því, þar sem honum þótti einstaklingar og stjórnvöld á villigötum, vegna þess að hann hafði betra að bjóða. Viljum við feta í fótspor hans og ganga gegn almenningsáliti sem líður niðurrifsöflunum að leika lausum hala. Kirkjan, ég og þú, erum til þess kölluð, hvort sem við erum trésmiðir, prestar eða eitthvað annað. Að skuldbindast Jesú Kristi er að skuldbinda sig til að hafa áhrif, þótt það kunni að kosta átök og niðurlægingu. Þróttinn til þess sækjum við í samfélagið um orð Guðs og borð Guðs, með því að ganga til fundar við hinn heilaga í helgidóminum. Þangað ætti þrá okkar að stefna:
Eins og hindin þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð. Amen.