Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?Þeir svara: Sá fyrri.
Þá mælti Jesús: Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum. Matt. 21. 28-32
Ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég er sjálfur breyttur, eða hvort veröldin er að breytast. Geri mér hreint ekki grein fyrir því hvort heldur er, en ég verð að játa að mér þykir lífið hafa annan hljóm núna en bara fyrir fáum misserum. Ég upplifi svo mikla ógn. Mér finnst fólkið í kringum mig vera áhyggjufullt og kvíðið með öðrum hætti en áður hefur verið. E.t.v. hef ég rangt fyrir mér. Vonandi. En ég upplifi þetta sterkt, og úr öllum áttum. Náttúran ögrar okkur einhvernvegin meir en hún hefur gert lengi áður. Ég man ekki þær svimandi tölur sem taldar eru upp yfir alla þá jarðarbúa sem hafa látið lífið vegna hamfara náttúrunnar á umliðnu ári. Núna eru það jarðskjálftar í Pakistan og á Indlandi. Hver man dánartölurnar? Ekki ég. Svo er talað um fuglaflensu og hættu á heimsfaraldri. - Langamma mín í móðurætt og einn ömmubróðir dóu einmitt úr spænskuveikinni. Amma var oft að tala um það, þetta sat ferlega í henni. Núna situr fuglaflensan einhversstaðar í sálinni á mér. ElBaradei fékk nóbelinn, og í því mun vera fólgin viðurkenning á alvarleika kjarnorkuvárinnar. Mér er einhvernveginn ógerlegt að fagna með honum. Það er svo margt sem einhvernvegin steðjar að og ógnar núna. Á ég að telja upp fleira? Við sjáum alvarleg andlit frá allskonar greiningardeildum tala um stöðu efnahagsmála og hvað verði um okkur, fjármálaskussana bráðum. Hafið þið ekki líka tekið eftir því hvernig hótanir eru orðnar að einhverju sálfsögðu í samskiptum? Hótun er orðin viðurkenndur gjaldmiðill í samskiptum þjóða og einstaklinga. Kannski hefur það alltaf verið þannig. En þá eru það hryðjuverkin. Hryðjuverkaógnin er svona nýtt lóð á vogarskálar kvíðans í sál okkar. M.a.s. hérna uppi á Íslandi. Svo höfum við DV. Þar er alltaf verið að birta myndir af fólki sem tekið er af lífi á vissan hátt. Myndbirtingar með feitletruðum ásökunum eru bornar fyrir okkur án áskriftar. Og það er svona stemmning eins og var í gamladaga þegar kennarinn gaf öllum börnunum í bekknum volgt lýsi sem tekið var inn með stórri trekt, og bragðið fylgir manni allan daginn. Það er með sannleikann eins og lýsið, það er ekki sama hvernig hann er borin fram. Ég meina það. DV gerir mig hræddan. Ég bara finn það. Þetta ruddalega viðhorf til náungans sem iðulega birtist þar, og raunar víðar, það hræðir mig. En e.t.v. eru þessar forsíður þeirra að segja ákveðinn sannleika. Kannski eru þær einskonar pönk. - tjáning á reiði þess sem lifir í óöruggum heimi.
Það er hálf skrýtið að vera að tala um þetta. Að hluta til lifum við flest mjög þægilegu og vernduðu lífi, og hins vegar erum við einhvernvegin svo skelfing óvarin, líkt og leiki um okkur allir vindar.
Við Íslendingar höfum aldrei verið jafn rík og við erum í dag og svo höfum við sennilega heldur aldrei verið jafn hrædd. Svo erum við líka alveg áreiðanlega ósanngjarnari en nokkru sinni. Og ég held að það sé eðlilegt. Hrætt fólk er ósanngjarnt. Fólk er ekki ósanngjarnt vegna þess að það sé vont. Það er óttinn sem kallar fram grimmdina inní okkur. Þess vegna erum við annarsvegar mjög rík af peningum og svo höfum við fullt af fátæku fólki með í þjóðfélaginu. Það þarf enginn að vera fátækur, en við höfum það bara þannig. Það er svo gott að hafa fátækt fólk með. Það er eitthvað þægilegt við fátækt fólk. Gott að þau tóku bensínstyrkinn af öryrkjum og ellilífeyrisþegum þarna um daginn. Fátækt fólk á ekki að vera á einhverju randi. Það á bara að vera fátækt heima hjá sér. Er það ekki?
* * *
Hér trúi ég að sé komin ástæðan fyrir því að Jesús var alltaf að tala um kvíða. Hann var alltaf að hvetja fólk til að vera ekki hrætt og skelfingu lostið. Hann talaði um allt þetta sem ég hef verið að telja upp. Hann talaði um náttúruhamfarir, drepsóttir, styrjaldaógn og líka þetta, ‘þegar kærleikur alls þorra manna kólnar og lögleysi magnast’, og svo sagði hann: “Þegar þetta tekur að koma fram þá réttið úr ykkur og lyftið upp höfðum ykkar, því að lausn ykkar er í nánd.” (Lúk. 21.28)
Hann gaf lítið fyrir pönkið, en talaði því meir um raunverulegt óttaleysi. “Í heiminum hafið þið þrenging, en verið hughraustir, ég hef sigrað heiminn!” (Jóh. 16.33) Þetta sagði hann. Og svo lagði hann til við fylgjendur sína að þeir hættu að reyna í sífellu að vera að bjarga lífi sínu. “Hver sem ætlar að bjarga lífi sínu mun týna því” sagði hann. “En hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann finnur það.” (Matt. 8.35) Skrýtið.
* * *
Sagan af Rut, sem lesið var úr hér áðan, er saga sem fjallar um þetta. Þar voru þrjár konur í ferlegum aðstæðum. Naomí var orðin ekkja og tveir synir hennar voru líka dánir, en eftir stóðu þær Rut og Orpa, tengdadætur Naomí, orðnar ekkjur eins og hún. Og Naomí segir ungu konunum að nú skuli þær reyna að bjarga lífi sínu, því hún hafi ekkert að bjóða, en þær séu ungar og geti byrjað nýtt líf. Og hún hvetur þær til að yfirgefa sig og fara heim til fólksins síns, en þær voru ættaðar úr nágrannalandi. Orpa kveður tengdamóður sína með tárum og fer til að bjarga lífi sínu, en Rut segir við Naomí: “Leggðu eigi að mér um það að yfirgef þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Hvar sem þú deyr, þar dey ég, og þar vil ég vera grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig.” (Rut. 1.16ff)
Ég skil vel það val sem Orpa gerði. Við skiljum það öll. Við gerum öll meira og minna eins og hún í eigin lífi. Orpa kvaddi gömlu tengdamóður sína, axlaði lífsangistina og hélt af stað til að bjarga sér eftir bestu getu. Þetta kunnum við. En Rut fór öfugt að. Hún lagði frá sér angistina, hætti að bjarga sér og byrjaði að treysta og elska.
Þær fara til ættlands Naomí, en hún var Ísraeli, og koma inn á akurlendi sem var í eigu fjarskylds ættingja gömlu konunnar. Sá hét Bóas. Það var kornskurðartími og það var siður meðal gyðinga að fátækt fólk hafði rétt á að ganga á eftir kornskurðarmönnum og tína upp það sem þeir leifðu í akrinum. Þá gerist það að Bóas kemur auga á Rut þar sem hún er í akrinum og spyr sveina sína hver hún sé þessi útlenska kona, og þeir segja honum sitthvað sem þeir höfðu heyrt um Rut og Naomí og þá tryggð sem sú yngri hafi sýnt gömlu konunni. “þá sagði Bóas við Rut: “Heyr þú dóttir mín! Far þú ekki á annan akur til þess að tína, og far þú heldur ekki héðan, en haltu þig hér hjá stúlkum mínum. ... Ég hefi boðið piltunum að amast ekki við þér. Og ef þig þyrstir, þá gakk að ílátunum og drekk af því, sem piltarnir ausa.” (Rut. 2.8-9) Og þegar Rut spyr Bóas hvernig á því standi að hann víki góðu að henni, útlendingnum. Þá segir hann henni allt af létta, að honum sé kunnugt um tryggð hennar við Naomí tengdamóður sína, hvernig hún hafi ekki yfirgefið gömlu konuna heldur fylgt henni alla leið án minnstu tryggingar, og svo lætur hann mjög mikilvæg orð falla: “Drottinn umbuni verk þitt, og laun þín verði fullkomin, er þú hlýtur af Drottni, Ísraels Guði, þar sem þú ert komin að leita skjóls undir vængjum hans.” (v. 12) Það var lóðið! Rut leitaði ekki ásjár manna, heldur Guðs, og það sá Bóas. Og þar eð hann var réttlátur maður og leit ekki á akur sinn sem eign, heldur þekkti hann gjafara lífsins og vissi hver það líka er sem hefur dauðann á valdi sínu, þá var sjálfsagt að Rut fengi það sem þær tengdamæðgur þyrftu til lífsviðurværis. Lífið var ekki lotterí í huga Bóasar. Lífið var ekki gróði eða gjaldþrot, ekki viðskipti fyrst og fremst heldur samskipti, samleið, samlíðan.
“Leggðu eigi að mér um það að yfirgef þig” hafði Rut sagt við Naomí “ ... því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Hvar sem þú deyr, þar dey ég...”
“Dóttir mín!” hafði Bóas ávarpað Rut. “Far þú ekki á annan akur til þess að tína, og far þú heldur ekki héðan... Og ef þig þyrstir, þá gakk að ílátunum og drekk...”
* * *
Hverskonar saga er hér á ferð? Hverskonar lífsviðhorf er verið að túlka hérna?
Hér eru manneskjur í háska, en þær eru ekki hræddar. Hér er ríkur fjármagnseigandi en hann metur ekki fólk eftir hagnaði.
Rut hafði margfalda ástæðu á við flest okkar til þess að óttast um hag sinn. Hún hefði litið á það sem lúxus að geta talað um yfirvofandi faraldra og hernaðarógnir. Hún hefði hlegið að öllu því sem ég hef talið upp í þessari prédikun og ekki skilið hvað við erum að pæla. Lífsháskin í hennar lífi var bein aðsteðjandi ógn. Hver dagur var barátta upp á líf og dauða, eins og lífið er hjá svo mörgu fólki í veröldinni og hefur alltaf verið. Hún var ekki hrædd við það sem kynni að verða, heldur var líf hennar ein stöðug glíma við ógnandi aðstæður. Og m.a.s. í þessum aðstæðum gat hún sagt “Hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Hvar sem þú deyr, þar dey ég...”
* * *
Ógnir og hótanir eru ekki nýjar af nálinni í þessari veröld. Vitiði – það er ekkert nýtt að gerast. Náttúran hefur alltaf farið hamförum. Drepsóttir hafa alltaf komið og farið. Styrjaldir hafa á öllum tímum vofað yfir. Við lifum ekki verri tíma en aðrar kynslóðir. Munurinn er e.t.v. sá að við höfum meira val, meiri vitneskju og það virðast meiri völd og meiri auður safnast á færri hendur en áður. En eðli lífsháskans er það sama nú og ætíð.
Sagan um Rut varðveittist ekki vegna þess að hér væri verið að lýsa dyggðum sem fólkið í gamla daga taldi sjálfsagðar, heldur varðveittist hún vegna þess að hún felur í sér von sem alltaf hefur verið veik í þessum heimi. Sagan af Rut er frásögn af því hvernig fólk getur deilt kjörum með náunganum. Og hún sýnir hvernig vitundin um gjafara lífsins breytir sýn manns á veraldleg gæði. Bóas leit ekki á akur sinn sem eign. Rut var ekki komin á akurinn hans, heldur var hún komin að leita skjóls undir vængjum Guðs. Þess vegna bað hann hana að fara ekki, heldur þiggja það sem Guð vildi gefa henni af akrinum, rétt eins og hann sjálfur þáði lífsviðurværi sitt.
Það var þetta sem stóð á milli Jesú og leiðtoga gyðinga. Og það er þetta sem alltaf stendur á milli Guðs og manna. Fagnaðarerindi kristinnar trúar er sú frétt að lífið er gjöf, en við þorum ekki að trúa því. Við höldum alltaf áfram að líta á líf okkar sem feng. Við höldum alltaf áfram að reyna að bjarga lífi okkar, axla lífsangistina og yfirgefa hvert annað, eins og Orpa yfirgaf Naomí og fór burt grátandi. ‘Ekki yfirgefa hvert annað!’ Segir Jesús. ‘Opnið augun og sjáið að þið eruð samferða. Það er óhætt að vera samferða.’
* * *
Í dæmisögu guðspjallsins voru tveir synir, og pabbi þeirra bað þá að fara og vinna í víngarðinum sínum.
- Og það er nauðsynlegt að vita að víngarður táknar alltaf ríki Guðs í Biblíunni. Víngarður er vettvangur þar sem Guðs vilji fær að ráða, það er bara þannig í Biblíunni. -
Annar sonurinn sagði nei með munninum en já með fótunum. Hinn sagði já með munninum en fór hvergi.
Með þessari dæmisögu var Jesús að sýna valdsmönnum samtíma síns hvernig þeir höfðu á sér yfirskin góðmennsku og trúrækni, en voru bara að þykjast. En lífið er ekki þykjustuleikur. Þjáning meðbróður þíns er ekki sett á svið. Fólkið sem býr í húsinu á móti þér er að lifa raunverulegu lífi, rétt eins og þú.
Jarðskjálftarnir í Pakistan og á Indlandi eru raunverulegir. Það er bara til ein tegund af fólki. Raunverulegt fólk.
Og eitt af því sem við eigum öll sameiginlegt er það að ekkert okkar segir já við Guð og stendur við það. Enginn segir ‘já, faðir ég skal fara og vinna á akri þínum’, og fer svo af stað. Enginn. En það er hægt að sjá sig um hönd. Það er hægt að segja já með fótunum í ríki Guðs. Guð hlustar fremur á fótatakið þitt heldur en orðin þín. Hann lætur einu gilda hvað þú segir um sjálfa(n) þig, en hann vill vita hvert þú ferð. Hann vill vita hvort þú yfirgefur manneskjurnar sem þurfa á þér að halda vegna þess að þú ert hrædd eða hræddur. Eða hvort þú þorir að treysta og elska. Hvort velur þú lífsstíl Orpu eða Rutar? Og sem þjóð á meðal þjóða stöndum við Íslendingar frammi fyrir því nú sem fyrr, og e.t.v. nú fremur en nokkru sinni, hvort við þorum að vera samferða. Samferða hvert öðru sem þjóð, og samferða öðrum þjóðum sem ábyrgt og friðelskandi fólk í veröld þar sem ógnanir eru daglegt brauð. Við þurfum nú, fremur en nokkru sinni, að gera upp við okkur hvort krossinn í þjóðfána okkar er bara þykjustuleikur með tákn, eða hvort hann er raunverulegt merki um það að við kunnum að sjá okkur um hönd. Er krossinn okkar bara þykjustu-já, gráðugrar og skelfdrar þjóðar? Eða er hann tákn þess að við vitum hver gjafari allra hluta er og hver það er í raun sem hefur líf og dauða á valdi sínu?
Við skulum ekki óttast komandi tíð. En við skulum óttast Guð. Við skulum óttast það að missa sjónar á gjafara lífsins svo að við yfirgefum hvert annað og þorum ekki að elska og treysta, þorum ekki að vera samferða og segja:
Hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Hvar sem þú deyr, þar dey ég ...
Rut 2.8-12 - Fil.2.12-18 - Matt. 21.28-32