Heilagi faðir, þú sýndir öllum heimi kærleika þinn og gerðist þátttakandi í þjáningu heimsins þegar sonur þinn Drottinn Jesús Kristur gaf sjálfan sig til dauða á krossi Við biðjum þig: Opna þú augu okkar að við sjáum leyndardóminn bak við þjáningu hans og dauða. Gef okkur kraft til að fylgja honum í hlýðni og í kærleika. Og til að þjónusta þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti og eftir lausn í sínu daglega lífi. Ég bið þig að gefa mér orðin og fylla mig anda þínum. Fyrir Jesú, bróður okkar og frelsara. Amen.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ég sá myndband þar sem ung stúlka segir sögu sína á samfélags- og fjölmiðlum eftir að hafa reynt að taka eigið líf. Stúlkan lýsir vanlíðan sinni, höfnunarkennd og þeirri tilfinningu að vera utanveltu. Þessi unga kona hafði nokkrar sjúkdómsgreiningar og hafði orðið fyrir einelti í skóla. Hún lýsti erfiðum átökum við móður sína, kynferðislegu ofbeldi og samfélagi sem hefur brugðist henni. Þetta er átakanleg saga sem allt of margir þekkja með einhverjum hætti enda hefur myndbandinu verið deilt yfir 700 sinnum.
Stúlkan sjálf er vel gerð, greind og setur sögu sína fallega fram. Ung kona sem ætti að eiga alla von til þess að eiga gott og fallegt líf. Í fyrirsögn viðtalsins kemur fram að það sé ekki spurning hvort hún taki eigið líf heldur hvenær.
Mér varð hugsað til þess þegar Jesús, fyrirmynd okkar, gekk um hér á jörðu sem maður, þá kunnu ekki allir að meta hann, margir fyrirlitu hann, hæddu hann, hræktu á hann og gerðu lítið úr honum.
Af hverju gerum við mannfólkið þetta?
Þegar fullorðið fólk talar um afleiðingar eineltis við börn á grunnskólaaldri og hvetur þau til þess að taka ekki þátt í slíku þá bregðast börnin yfirleitt við með svipuðum hætti og segja af sannfæringu að þau myndu aldrei gera það. Og þau meina það.
Þegar umræðan er tekin á meðal fullorðinna þá vill fólk almennt vera góð fyrirmynd barna sinna og telur það af og frá að það ýti með einhverjum hætti undir þátttöku eineltis hjá sínum börnum. Líklega erum við eins og lærisveinarnir í guðspjallinu, við skiljum ekki eða tengjum illa við það sem sagt er.
Það er staðreynd að ef fullorðnir væru skýr og óaðfinnanleg fyrirmynd hvað varðar samskipti og umtal um aðra og ef börn skildu og meðtækju skilaboð hinna fullorðnu þá væri ekki um neitt einelti að ræða.
Stúlkan sem ég talaði um hér í byrjun hefur þjáðst vegna eineltis meira og minna alla sína ævi. Ég held að þetta hafi með viðhorf okkar að gera. Viðhorfið sem hún mætti var að hún væri vandamálið, hún væri erfið og því var hún tekin úr umhverfi sínu og send í sveit til vandalausra.
Ef viðhorf okkar allra er það að við séum öll jöfn. Sama hvaðan við komum, hvað við eigum, hverra manna við erum, hvaða menntun við höfum. Sama hvaða veikindi plaga okkur eða hvaða kyn við erum, ef við myndum stoppa þessa flokkun og hætta að leita af því sem aðgreinir okkur. Þá myndum við hafa rými til þess að horfa til þess sem við eigum sameiginlegt. Það að við erum öll dýrmæt sköpun Guðs.
Öll fæðumst við nakin, dýrmæt lítil kríli sem erum mikils verð fyrir það eitt að vera til. Hvert með sínum eiginleikum og hæfileikum. Sjáið fyrir ykkur lítið nýfætt barn. Það skiptir ekki máli hvort það eru okkar eigin börn, systkini okkar eða bara ókunnug lítil börn. Þegar við sjáum þau fyrir okkur þá vitum við hvað þau eru mikils virði. Við vitum að þau þarfnast umönnunar og verndar. Og okkur finnst þau eigi aðeins skilið að fá allt það besta.
En hvað gerist á leiðinni? Hvað breytir þessari dýrmætu veru? Eða öllu heldur hvað fær okkur til þess að líta á þessa dýrmætu veru og flokka hana, vega hana og meta og setja svo fram dóm um það hvort hún sé mikils verð, einhvers verð eða einskins verð? Litla barnið vex og verður krakki, unglingur, ung manneskja, fullorðin og svo öldruð og einhversstaðar á leiðinni gerist eitthvað sem veldur því að okkur finnst hún ekki lengur eins verðmæt.
Ég trúi því að Guð hafi skapað okkur öll og horfi til okkar allra með óskilyrtum kærleik. Guð elskar okkur hvert og eitt og fer ekki í manngreinarálit. Elska Guðs kemur skýrt fram í viðmóti Jesú og krossdauða hans. Jesús tók á móti öllum, hann varði fólkið sem aðrir dæmdu og dvaldi meðal þeirra sem enginn vildi umgangast.
Eðlilega þurfum við mannverur að setja okkur viðmið og mörk, við höfum t.d. boðorðin og landslög til þess að vernda okkur og til þess að passa upp á að við séum ekki að ganga yfir aðra, skaða aðra.
Þó það sé mín sýn að við eigum að umbera það sem er ólíkt með okkur og það sem við þekkjum ekki, að við eigum að elska hvert annað og virða þá er ég líka þeirrar skoðunar að við eigum að hafa skýr mörk og passa upp á okkur sjálf og aðra. Við eigum ekki að samþykkja allt. Líkt og Jesú sýndi okkur í musterinu þegar hann reiddist og velti við borðum.
Höfnun og niðurtal eru ekki mörk heldur særindi orð eða athafnir, sem eru oftast sett fram í vanmætti. Það er vel hægt að setja fram heilbrigð mörk með kærleika. Við þurfum aðeins að muna eftir því að vanda okkur og temja okkur að vera með sama hugarfar og Jesús Kristur var.
Núna ætla ég ekki að tala um mörk heldur aðra hluti, ég er að tala um þörfina til þess að flokka náunga okkar, dæma fólkið í kringum okkur og setja það niður. Þetta getur gerst með frekar einföldum hætti, til dæmis þegar fjölskyldan er í bílnum fyrir utan búðina, pabbinn er kannski pirraður eða þreyttur og einhver gengur framhjá sem klæðir sig ekki eða greiðir sér ekki eftir smekk pabbans og hann missir út úr sér leiðinlegar athugasemdir og segir með hæðni í röddinni: „Hvað er að sjá þetta, hvers lags útgangur er þetta, hver gengur í svona skóm?“ Börnin sitja aftur í og byrja að vega og meta manneskjuna og á sama tíma fara þau að vega og meta sig. Við þetta litla atvik verður til einhvers konar mælistika sem er ekki bara notuð á aðra. Mælistika sem getur orðið að stífum ramma sem sviptir fólk frelsi og skapar bæði óöryggi og minnimáttarkennd. Minnimáttarkenndin ýtir síðar undir þörfina að setja aðra niður til þess að lyfta sjálfum sér eða sjálfri sér upp. Þannig getur hringrásin myndast.
Að hve miklu leyti þarf stúlkan, sem ég talaði um áðan, að vera steypt í staðalímynd eða viðmiðunarramma til þess að eiga skilið betri framkomu og losna undan umtalinu og eineltinu?
Það er Guð einn sem getur dæmt okkur. Hann skapaði okkur, nákvæmlega eins og við erum. Við erum ekki mistök. Við erum einstök. Í lestri dagsins kemur fram að Jesús segir lærisveinum sínum áætlun Guðs, áætlun sem þeir skildu ekki og var þeim hulin. Á sama hátt trúi ég því að Guð hafi áætlun fyrir hvert og eitt okkar. Áætlun til heilla.
Til þess að áætlun Guðs fyrir mig, gangi eftir, þarf ég að vera sú sem ég er. Ef ég fer að rembast við að vera önnur en ég er, líkjast einhverjum sem mér finnst „hipp og kúl“ eða ef ég fer að eltast við að þóknast gildum annarra, þá get ég ekki uppfyllt mitt hlutverk í þessari góðu áætlun.
Ég ætti því stöðugt að leita Guðs, biðja Guð að sýna mér hvaða áætlun hann hefur fyrir mig. Ég ætti að keppa eftir því að vera sönn, vera sú sem ég er, sú sem Guð skapaði mig til þess að vera. Eins ætti ég að horfa á aðra með því hugarfari að Guð hafi skapað þau og sé með sérstakt hlutverk fyrir þau, hlutverk sem er ólíkt mínu og því eru þau ólík mér. Það myndi ekki henta samfélaginu vel ef allir væru smiðir eða ef allir væru ræstitæknar.
Annað fólk er ekki minna en ég, ekki meira en ég, þau hafa bara annað hlutverk. Ég trúi því að með þessa sýn geti ég sýnt sjálfri mér og öðrum virðingu.
Ég er ekki að segja þetta til þess að við förum að dæma okkur sjálf fyrir að hafa dæmt aðra og tekið þátt í baktali eða slíku. Mig langar einfaldlega til þess að benda á að slíkt getur haft erfiðar og slæmar afleiðingar. Áður en ég varð meðvituð um hvað orð mín og viðhorf höfðu mikil áhrif á fólkið í kringum mig þá hugsaði ég ekkert um þetta og lét ýmislegt falla. Nú veit ég að ég birti viðhorf mín í þeim orðum sem ég set fram. Ég vil hafa hrein og falleg viðhorf. Ég vil til dæmis meta sköpun Guðs, elska Guð með því að elska sköpun hans. Þannig að ef ég heyri mig setja aðra niður, setja út á fólk eða dæma það, þá staldra ég við og skoða viðhorf mín. Skoða hvað það er hjá mér sem þarfnast endurmats.
Þegar við heyrum sögur eins og þá sem ég sagði ykkur frá, um stúlkuna sem í raun segist bíða þess að taka eigið líf, þá kviknar hjá okkur flestum löngun til þess að gera eitthvað. Löngun til þess að hjálpa fólki í þessari stöðu. Löngun til þess að skapa þannig umhverfi að manneskjan þurfi ekki að lenda á þessum stað vanlíðunar.
Mig langar því að enda þessa predikun og skilja ykkur eftir með þá hugsun að orð okkar og viðhorf hafa áhrif, líka til góðs! Þess vegna vil ég hvetja ykkur til þess að segja fólkinu ykkar hvað það skiptir ykkur miklu máli, segið börnum ykkar hversu dýrmæt þau eru ykkur, tjáið elsku ykkar og þakkið þeim sem hafa snert líf ykkar með einhverjum hætti. Og umfram allt þökkum Guði, fyrir sköpun hans, fólkið okkar, náttúruna og fyrir það hver við erum.