Abba

Abba

Við hugsum til fólksins í hinni stríðshrjáðu Gazaborg, til ófriðarbálsins í Ísrael og Palestínu, til þeirra sem búa við borgarastyrjöld í Sýrlandi, til þeirra sem búa í austurhluta Úkraínu, til trúsystkina okkar og jazída sem ofsótt eru í Írak um þessar mundir. Á hinsegin dögum hugsum við til þeirra sem búa við ofsóknir vegna kynhneigðar og kynverundar.

Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. Róm 8:15

I.

Þegar nafnið Abba er slegið inn í leitarvél á netinu koma fram upplýsingar um sænska poppgrúppu sem naut mikilla vinsælda á sjöunda og áttunda áratugnum. Fyrir þau okkar sem vorum börn, unglingar og ungar manneskjur á þessum tíma kallar nafnið Abba fram myndir af glansgöllum og diskótónlist, þar sem sungið var um ástina í angurværum ballöðum eða með rokkaðri skemmtarasveiflu. Nafnið Abba, í augum okkar af diskókynslóðinni er þannig tengt silkihúfum, útvíðum buxum, pastelaugnskuggum, háum hælum og gerviefnum ásamt grípandi söngtextum á borð við „Thank you for the music“, „Chiquitita“ og „Dancing Queen.“

Þegar við flettum upp í Nýja testamentinu rekumst við líka á orðið Abba. Orðið kemur aðeins þrisvar fyrir í allri Biblíunni, en það hefur sett sterkan svip á tilbeiðslu og guðfræði kirkjunnar í tvö þúsund ár. Í Getsemanegarðinum, þegar Jesús biður til Guðs á móðurmáli sínu arameísku, notar hann orðið Abba, sem þýðir pabbi. Á sinni erfiðustu stund talar hann við Abba. Sama orð kemur fyrir í Pálsbréfum, í ritningarlestri dagsins úr Rómverjabréfinu og síðan Galatabréfinu. Tveimur síðarnefndu textunum ber saman. Þar er okkur sagt að andi Krists sem í okkur býr ávarpi Guð sem Abba.

Við fyrstu sýn er varla hægt að hugsa sér meiri andstæður en þessar tvær merkingar abbaorðsins sem hér hafa verið kynntar, glimmerheimur skandinavíupoppsins og hið lágværa, nána samtal Guðs og barns. Og samt fjölluðu textar Abbagrúppunnar sem ég heillaðist af sem barn flestir um þá tilfinningu að vera elskaður og að tilheyra öðrum. Í kristinni trú, er þessi sterka tilfinning ástarþrárinnar tengd Guði sem skapar, frelsar og elskar. Þetta afl birtir Jesús Kristur. Og hann kallar það með nafni og líkingu sem er nærtæk og innileg. Hann kallar Guð pabba og leitar til Guðs þegar hann er hræddur, kvíðinn og einmana.

Í ritningarlestri dagsins úr áttunda kafla Rómverjabréfsins fjallar Páll postuli um mikilvægi þess að elska aðra og hugsa út fyrir sjálfan sig. „Sjálfshyggjan er dauði en hyggja andans líf og friður,“ segir í kaflanum. Í staðinn fyrir að hugsa bara um sjálfan sig bendir postulinn okkur á líf í andanum, sem er líf í tengslum við Guð, aðrar manneskjur og lífið allt. Gleðitíðindin sem textinn boðar er sá að við þurfum ekki að standa ein undir öllu sem einstaklingar.

Við þurfum ekki að vera fullkomin, óvinnanleg eða sjálfum okkur nóg um alla hluti. Við erum ekki víggirðing. Við erum manneskjur. Við megum vera veikburða á einhverjum sviðum. Við erum börn Guðs og getum talað við Guð eins og Jesús gerði verið elskuð af Guði þegið styrk af Guði. Andi Guðs talar í okkur þegar við leitum samfélags við Guð og lifum lífi í tengslum í stað þess að hnipra okkur saman í sjálfshyggjunni. Það er hyggja andans, líf og friður.

II. Það er fermingardagur og í dag mun ung stúlka ganga upp að altari Drottins og gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Fermingarheitið fjallar í raun um það sama og ritningarlesturinn, að eiga Krist að vini, að leitast við að lifa í tengslum við Guð og í elsku til náungans. Heitið markar þannig ákveðna stefnu sem þú hefur valið, kæra fermingarbarn, stefnu út fyrir þig sjálfa og yfir til alls lífs sem þér er tengt. Veröldin er stór og þú ert á leiðinni út í hana. Og þetta er spennandi veröld sem er full af spennandi tækifærum til þroska og uppátækja. Vonandi átt þú eftir að grípa þau sem flest. Hafðu það hugfast að þú ert barn Guðs, mundu það þegar þeir tímar koma að þú vantreystir þér og öðrum. Megir þú hafa bænarorð Jesú Krists á vörunum, vegna þess að Abba mun sjá um þig, hjálpa þér að finna rétta vegu í lífinu og leiðbeina þér upp úr vandanum, þegar þú gerir mistök.

En Abba er engin einkaeign. Við eigum Guð, en við eigum Guð ekki ein, heldur með heiminum öllum. Guð kallar okkur til lífs í samfélagi, og okkur er ætlað að gera heiminn eins góðan og við mögulega getum.

Það er ekki alltaf auðvelt að opna hjarta sitt fyrir lífi heimsins. Heimurinn á svo mikla gleði og sorg og það virðist eitthvað svo sérstaklega órólegt í veröldinni núna. Við hugsum til fólksins í hinni stríðshrjáðu Gazaborg, til ófriðarbálsins í Ísrael og Palestínu, til þeirra sem búa við borgarastyrjöld í Sýrlandi, til þeirra sem búa í austurhluta Úkraínu, til trúsystkina okkar og jazída sem ofsótt eru í Írak um þessar mundir. Við hugsum til þeirra sem búa við óhreint drykkjarvatn og slæma heilbrigðisþjónustu, þeirra sem svelta á Sahel svæðinu, til fólks í fátækrahverfum um veröld víða, til þeirra sem seld eru mansali og eiga hvergi höfði sínu að halla í veröldinni. Um þessa helgi þegar fjölbreytileikanum er fagnað og fjórðungur Íslendinga brá sér niður í bæ til að fylgjast með gleðigöngunni í gær, er líka nærtækt að hugsa til allra þeirra sem búa við ofsóknir vegna kynhneigðar og þeirra sem passa ekki í fyrirframgefin viðmið okkar um það sem talið er venjulegt og sjálfsagt.

Abba, faðir, andvarpaði Jesús í Getsemane garðinum. Og við andvörpum líka þegar við horfumst í augu við böl heimsins. Þegar við köllum Guð hinu innilega nafni, undirstrikum við jafnframt að Guð er Guð allra og alls. Guð vill að við eigum öll húsaskjól og búum við öryggi. Guð vill að við lærum að elska aðrar manneskjur, setja þeim og sjálfum okkur mörk, að við lifum í hyggju andans þar sem er líf og friður. Og þegar við heitum því að gera Jesú Krist að vini og leiðtoga, þá er það loforð sem maður heldur áfram að glíma við ævina á enda. Þessi vinátta, leiðsla og tengsl er ekki aðeins eintal við guðdóminn í kirkju eins og í dag, heldur stefnumót við lífið í fjölbreytileika sínum, gleði, spennu og hættum. Við berum ábyrgð á heiminum, vegna þess að Guðs börn, erfingjar Guðs, samarfar Jesú Krists og systkin okkar búa þar. Þennan skilning á ástinni hefur fermingarbarnið undirstrikað með ritningarversinu sem hún valdi sér úr fyrsta Jóhannesarbréfi: Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.

Ég talaði áðan um poppið og glimmerið sem einkenndi mína uppáhaldshljómsveit sem barn. Abba æsku minnar kallaði fram sveiflu og dans, skemmtilegan takt og grípandi laglínur um ástina og tónlistina. Abbalögin minntu mann á að það er ekki nóg að tala um gleði, maður þarf að dansa hana, syngja hana, hlæja henni til heiðurs og njóta hennar í tengslum við aðra. Hin árvissa helgi hinsegindaganna minnir okkur á þetta. Litskrúðugir fánar blakta við hún í öllum litum regnbogans. Sumum finnst of mikið gert úr þessu hér á Íslandi og að hommarnir og lesbíurnar séu að hertaka allt mannlífið. En röndótti fáninn fjallar um fjölbreytileika, ekki einsleitni. Hann fjallar um að það er rúm og staður fyrir okkur öll í veröldinni, ef við gefum hvert öðru hjartarúm.

Við erum öll í líkama. Við erum börn Guðs og megum kalla Guð Abba.

Boðskapinn um að það er rúm fyrir okkur öll þarf líka að yfirfæra til annarra þeirra sem standa höllum fæti í veröldinni, vegna þess að þau búa við fátækt og fötlun, eru konur í heimi sem er enn að miklu leyti stjórnað af körlum, búa annars staðar en í Evrópu og Norður Ameríku, eru komin af léttasta skeiði, tilheyra framandi menningu og trúarbrögðum eða hafa annan húðlit en þann bleika sem algengastur er á Íslandi.

Það er ótrúleg upplifun að standa niðri í bæ og fylgjast með öllu fólkinu í mannþrönginni sem kemur til að taka þátt í gleði og lifa í tengslum við fólk sem er þeim margt hvert mjög framandi. Ég hygg að það sé einstakt í heiminum að svo almenn þátttaka sé í gleðigöngu á hinsegin dögum og það segir okkur eitthvað mikilvægt um ástina, gleðina, samfélagið, taktinn, lífið og friðinn sem við þráum að búa við í veröldinni.

Abba. Með þessu orði kenndi Jesús okkur að biðja til Guðs. Páll postuli segir okkur í ritningarlestri dagsins að við getum verið vonglöð og hugdjörf, því að við erum erfingjar Guðs og samarfar Krists. Að við megum kalla á Guð og kalla Guð pabba og mömmu. Abba er orð sem mann langar til syngja við og dansa og helst með sænskum hreim.

Og það er ekki síst þess vegna sem við getum horfst í augu við erfiðu hliðar mannlífsins, við styrjaldarógn, ofsóknir og hörmungar heimsins. Það er ekki síst þess vegna sem við getum tekist á við það sem bjátar á í eigin lífi. Nándin við Guð getur hjálpað okkur til að lifa í tengslum, í hyggju andans frekar en sjálfshyggjunni, í lífi og friði, frekar en deyfð og óróa. Abba gefi okkur öllum gæfu til þess.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.