Það er eitthvað svo auðvelt að skyggja á fínlega þræði lífsins með því sem er stórt og þungt, hávaðasamt og flókið. Stór bygging í lágreistri byggð, þriggja tonna jeppi lagður á götuhorni í þröngri miðborgargötu, fortefortissimo í lágstemmdu tónverki, flókið fagorð sem fæstir skilja til að lýsa einföldum veruleika.
Prédikun kristinna kirkna ber gjarnan keim af þessu flókna og þunga sem skyggir á það sem raunverulega skiptir máli. Orð eins og upprisa, von, réttlæting, óendanleiki, sátt, Drottinn … hvað merkja þau? Hverju miðla þau? Þegar við setjum sum þeirra saman, kemur út fagurlega skreytt orðarugl, t.d. “Í Jesú Kristi var Guð að sætta heiminn við sig” eða “Náð Guðs er gjöf gefin til þess að leiða okkur til góðra verka”. Þessar setningar leitast við að miðla kjarna kristinnar trúar. En hvað þýðir svona tal? Hvað skilja menn þegar þeir heyra eða lesa svona? Er það skilningsleysi andspænis svona yrðingum sem fær venjulegt fólk til að frábiðja sér “guðsorðatal” úr athöfnum sem það biður um fyrir sig og sína? Hefur kristin kirkja ekki verið nægilega skýr í boðun sinni undanfarin 50 ár eða svo? Veit hún kannski ekki hverju hún á að trúa og felur það á bakvið klisjukennda ræðu?
„Sjö vikur án“ er föstuverkefni mótmælendakirkjanna í Þýskalandi (EKD). Þetta árið eru það sjö vikur án haldvillna, sjö vikur þar sem menn eru hvattir til að hugsa sjálfir (sjá http://www.7wochenohne.evangelisch.de). Gagnvart prédikurum fékk þetta verkefni sérstaka útgáfu og heitir það “Sjö vikur án stórra orða (http://www.ekd.de/zentrum-predigtkultur). Á þýsku eru stóru orðin ekki montraus heldur lærð orð og heiti sem menn skilja ekki vel. Föstuverkefni þessa árs er því það sama fyrir kennimenn kirkjunnar sem og alla aðra. Hugsa skýrt og fyrir sjálfan sig það sem menn annars taka sem gefið.
Þetta er erfiðara en það virðist í fyrstu. Ef kristin kirkja sleppir orðinu Guð úr boðun sinni, hvaða áhrif hefur það? Hættir hún þá að gera ráð fyrir honum? Ef við sleppum orðið “Kristur”, hættum við þá að vera kristin? Hvað verður um hina látnu, ef orðið “upprisa” og “eilíft lif” hættir að heyrast í jarðarför? Hvað ef við hættum að tala um “frið”, “fyrirgefningu”, “náungakærleika” og “huggun”?
Hugmyndin að baki þess að fasta er að beina huganum til annarra hluta en þeirra sem við erum vanalega upptekin af. Þetta föstuverkefni beinir okkur beint að innsta kjarna mennsku okkar, trúar og menningar. Við erum sem sagt boðin upp í dans í kringum gildi okkar sem væru þau gullkálfur og skurðgoð. Ekki til þess að festa þau í sessi heldur til að skíra þau og hreinsa, skerpa þau og endurskoða.
Bruno Latour bendir á það í bók sinni Jubiler (http://www.bruno-latour.fr/node/496) að trúarleg orðræða merki annað nú en áður þótt orðin sem notuð eru séu þau sömu. Orðið “náð” vekur aðrar kenndir nú en fyrir 500 árum síðan, þegar menn háðu stríð í kjölfar síðbreytingar vegna þess. Orðin “sama eðlis” er ekki lengur fæ um að kljúfa kristna kirkju nú eins og þau gerðu fyrir þúsund árum síðan. Okkur er því hollt að leggja af fargan sögunnar endrum og eins, sérstaklega ef við erum ekki meðvituð um það að við erum föst í vef hennar.
"Ce que l'on conçoit bien s'énonce clairement, Et les mots pour le dire arrivent aisément.”
Það sem maður hugsar vel kynnir sig ljóslega, og orðin til að segja það koma auðveldlega, sagði franska skáldið Nicholas Boileau á 17. öldinni. Fasta á haldvillur og fasta á stóru orðin leiðir okkur til baka til uppruna okkar og innsta kjarna þess sem við erum og gerum. Hún hjálpar okkur til að leggja til hliðar fargan hugmynda og æðubunugang samskipta til þess að hugsa skýrt og tala skýrt, um það sem skiptir máli.
Ánægjulega föstu.