Fyrir nokkrum árum fullyrti þáverandi forsætisráðherra að hér væri engin fátækt og spurði um leið: „Hver mundi ekki vilja fá ókeypis mat ef það stæði til boða?“ Svona segir enginn eftir hrun. Nú er augljóst að margir eru efnalitlir og á leið í fátækt.
Fólk sem þekkir hjálparstarf bæði fyrir og eftir hrun veit að það var til fátækt áður en bankarnir hrundu. Það var gjá á milli ríkra og fátækra sem óx ört í góðærinu. Sú gjá hefur ekki lokast. Það er tvenns konar fátækt í samfélaginu í dag, ný fátækt og gömul viðvarandi fátækt. Það sorglega er að jafnvel í góðærinu var ekki reynt að útrýma viðvarandi fátækt.
Fátækt er alltaf afstæð en er yfirleitt miðuð við þær aðstæður sem ríkja í nærumhverfi fólks. Það þarf að vera til lágmarks framfærsluviðmið en það er ekki til hér á landi. Á Evrópuári gegn fátækt og félagslegri útskúfun eru það væntingar Þjóðkirkjunnar að sett verði slíkt viðmið. Þar er átt við viðmið sem gefur fólki tækifæri til sómasamlegs lífs, ekki viðmið sem miðar að því að halda rétt lífi í fólki.
Peningar skapa vald en fátækt skapar valdaleysi. Í áratugi hafa mótmæli, undirskriftalistar og fundir verið baráttutæki samtaka sem berjast gegn viðvarnandi fátækt. En nú hefur nýfátækt fólk slegist í hópinn. Það varð hrun, það er kreppa, það eru versnandi lífskjör og þau sem lenda verst í þessum vanda sjá fram á viðvarandi fátækt. Fátækt er valdaleysi, útskúfun og niðurbrot.
Atvinnuleysi er ein birting valdaleysis. Að missa atvinnu er ekki bara fjárhagslegt áfall heldur einnig andlegt áfall. Kirkjan hefur veitt neyðaraðstoð og sálgæslu til að mæta fólki í þessum erfiðu aðstæðum. Neyðarhjálp er þó aldrei lausn til frambúðar.
Allt hefur sinn tíma. Það hefur reiði, vonleysi og depurð einnig. En þar megum við ekki festast heldur vinna að uppbyggingu og krefjast þess að sá andi sundurlyndis sem hér ríkir hjá ráðmönnum verði rofinn.
Engin ein leið er best og ekkert verður gert í einu stóru skrefi. Markmiðið verður að vera að hægt sé að búa áfram í þessu landi og hafa allt sem heitir daglegt brauð, fæði, húsnæði og framfærslumöguleika. Við biðjum: Gef oss í dag vort daglegt brauð!