Sorgarfrí

Sorgarfrí

Mætti ekki hugsa sér einhverra vikna eða mánaðar frí (ef frí skyldi kalla) við andlát náins fjölskyldumeðlims? Náðartíma til að jafna sig eftir áfallið og púsla veröldinni aftur saman?
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
03. nóvember 2007

Hvernig búum við að syrgjendum og hver er staða sorgarinnar í samfélaginu? Er hún viðurkennd? Er gefinn nægur tími og nægt rými fyrir hana? Stundum hefur maður á tilfinningunni að við séum dugleg fyrst um sinn. Að fyrstu dagana og jafnvel vikurnar eftir andlát sé mikið hringt og huggað. Syrgjandanum vel sinnt. En svo fækkar símtölunum, færri spyrja hvernig líðanin sé. Og það læðist að manni sá grunur að nú eigi sorgarferlið að hafa runnið sitt skeið á enda.

Hvað með hina opinberu umgjörð? Fær fólk almennt frí frá vinnu við andlát maka, barns eða foreldris? Er það kannski alfarið undir vinnuveitanda eða fyrirtæki komið? Ég spjallaði við stúlku sem starfar í Skotlandi. Hún sagði mér að gert væri ráð fyrir sorginni í kjarasamningum. Þegar afi hennar dó fékk hún vikufrí til að koma heim, vera við útförina, sinna fjölskyldunni, meðtaka áfallið. Sorgarfríið þótti sjálfsagt mál og var hluti af opinberri umgjörð hins vinnandi manns.

Hér á landi búum við prýðilega að foreldrum barna. Fæðingarorlofið okkar er til fyrirmyndar miðað við mörg önnur lönd og við megum sannarlega vera stolt af því. En getum við búið betur að þeim sem verða fyrir missi? Mætti ekki hugsa sér einhverra vikna eða mánaðar frí (ef frí skyldi kalla) við andlát náins fjölskyldumeðlims?

Náðartíma til að jafna sig eftir áfallið og púsla veröldinni aftur saman? Uppbyggingartíma. Sorgin tekur nefnilega tíma og hún klárast ekki á einni viku, einum mánuði eða jafnvel einu ári.

Marjorie Pizer lýsir sorgartímanum og sorgarferlinu vel í ljóði. Hún skrifar:

Ég taldi að dauði þinn væri eyðing og eyðilegging, sársaukafull sorg sem ég fékk vart afborið. Smátt og smátt lærist mér að líf þitt var gjöf og vöxtur og kærleikur sem lifir með mér. Örvænting dauðans réðist að kærleikanum. En þótt dauðinn sé staðreynd fær hann ekki eytt því sem þegar hefur verið gefið. Með tímanum læri ég að líta aftur til lífs þíns í stað dauða þíns og brottfarar.

„Smátt og smátt lærist mér," skrifar hún. Með tímanum lærist okkur að horfa á lífið fremur en dauðann, vera þakklát fyrir það sem þegið var meðan okkur auðnaðist að ganga saman fremur en bitur yfir því sem aldrei varð. Kannski er það stærsta lexía þess sem fetar sig eftir stíg sorgarinnar og í því eygjum við ef til vill takmark þessa ferils.

Þessi pistill er dreginn út úr prédikuninni Sorgarljósadagur sem birtist á trú.is.