Við lifum spennandi tíma en um leið sára og erfiða. Flest ef ekki allt er véfengt og mörgum steinum velt um í umræðu daganna í leit að einhverju misjöfnu. Fjölmiðlar gegna ekki hvað síst mikilvægu hlutverki í umræðunni og því endurmati sem þjóðin stendur nú frammi fyrir. En fjölmiðlar eru ekki óskeikulir eða yfir gagnrýni hafnir.
Til fjölmiðla teljast m.a. prentmiðlar, útvarp og sjónvarp og svo hefur Netið bæst við sem nýr vettvangur þar einstaklingar geta tjáð sig án mikils aðhalds eða afskipta ritstjórnar. Hefðbundnir fjölmiðlar nýta sér einnig Netið.
Í svonefndum bloggheimum afhjúpa margir sálarlíf sitt og láta hjartað blæða fyrir allra augum. Sumt af því – og reyndar býsna margt – virðist sett fram í lítt yfirvegaðri gremju og annað í stjórnlausri reiði. Annað er græskulaust gaman og glettni. Mikilvægt er að til sé vettvangur þar sem fólki gefst tækifæri til að létta af sér íþyngjandi byrðum sem þjaka og ræna það gleði og lífshamingju. Um leið vaknar spurningin um það hvort bloggið sanni það sem löngum hefur verið haft á orði um Íslendinga að þeir kunni illa að halda uppi samræðum á vitrænum og röklegum nótum en falli þessi í stað oftar en ekki í gryfju skítkast og skætings.
Umræðan í þjóðfélaginu er oft yfirborðskennd og grunn. Að hluta kann það að stafa af mannfæð á fréttamiðlum og fjárskorti. En við megum samt ekki – hvort sem það er gert í hefðbundnum fjölmiðlum eða bloggheimum – fella stóra dóma um menn og málefni sem eru illa ígrundaðir og óvandaðir að allri gerð.
Fjölmiðlar gagnrýna og fjalla um allt milli himins og jarðar enda er hlutverk þeirra m.a. fólgið í því að varpa ljósi á samtímann og stuðla að réttlæti og sannleika í samskiptum manna. Fjölmiðlar eiga að vera salt og ljós í heiminum á sama hátt og allir kristnir menn eru kallaðir til hins sama hlutverks. En enginn sem stundar gagnrýni má samt hafa þá stöðu að vera yfir gagnrýni hafinn. Ég spurði mann á dögunum sem starfar á vettvangi fjölmiðla: Er til einhver stofnun, nefnd eða einstaklingur í þjóðfélaginu sem hefur það hlutverk að veita fjölmiðlum aðhald og gagnrýna þá á reglubundinn hátt? Nei, svaraði hann, enginn! Svo bætti hann við og sagði eitthvað á þessa leið: Fjölmiðlamenn margir hverjir telja sig vita allt og sjá allt og vera hafna yfir gagnrýni.
Oft eru fjölmiðlar nefndir fjórða valdið. Ekkert vald í þjóðfélaginu má vera yfir gagnrýni hafið. Við þurfum öll að efla okkur í fjölmiðlalæsi þ.e.a.s. að þroska skilning okkar á eðli fjölmiðla og vinnubrögðum þannig að við tökum öllu sem sagt er með gagnrýnum huga og gerum okkur jafnan ljóst að hvert orð á prenti er sett fram í einhverju samhengi sem ritarinn velur, túlkar og ræður. Hvert einasta myndskeið sem sýnt er í sjónvarpi er tekið úr tiltekinni átt. Hvernig myndavélinni er beitt segir meira en milljón orð. Sjónvarpsfrétt verður ekki til án þess að hún fari fyrst um hug þess sem hana semur og sá hugur er ekki hlutlaus. Enginn hugur er hlutlaus um eitt né neitt. Og svo er það þögnin sem líka segir margt. Fjölmiðlar velja oft að þegja um atburði og segja þess í stað ekki-fréttir í tíma og ótíma.
Gerum okkur grein fyrir að fjölmiðlar hafa mikið vald og þegar aðhald vantar og gagnrýnin er lítil sem engin, þá eru þeir í aðstöðu til að hanna sannleikann og hagræða honum að eigin vild.
Fjölmiðlar mega aldrei vera ósnertanlegir og yfir gagnrýni hafnir. Þess vegna þarf að setja á fót sérstakt vald sem veitir þeim aðhald.