Hjónabandinu svipar á vissan hátt til þess verkefnis að ala upp barn já eða hund, ef út í það er farið, í raun er alveg ótrúlega margt líkt með því ferli svona ef við gefum okkur tíma til að skoða það nánar. Ég er nefnilega að ala upp Golden Retriever hvolp þessa dagana og er mjög upptekin af því að sjá það verkefni í einhverju vitrænu samhengi, svona fyrst ég er að flækja líf mitt á annað borð .
Þegar ég fékk þennan hvíta litla hnoðra í hendurnar fyrir tæpum þremur mánuðum hefði mér verið nokk sama þó hann hefði hreinlega gert stykkin sín í rúmið mitt, sem hefði þá ekki lengur verið mjög hreinlegt, hann var svo óstjórnlega sætur og framandi í krúttleika sínum að ég stóð hugfanginn og horfði á hann naga svörtu Asics hlaupaskóna mína með ástarglampa í augum, ég segið það ekki að ef hann hefði komist í spariskóna þá hefði ég líklega þurft að grípa til róttækari aðgerða en þarna stóð ég og hló að tilburðum nýburans sem heitir Kári og ætlar að vera hluti af þessari líka heimakæru fjölskyldu. Nú er Kári farinn að stækka og eflast og finna sig í kraftmikilli verkefnastjórnun, um daginn vakti hann mig með örvæntingarfullu gelti og gaf sig hvergi fyrr en ég elti hann samankrumpuð með reyttan hnakka fram í stofu og viti menn, þar hafði honum tekist að rífa heila klósettrúllu í sundur og búa til litlar tæjur þannig að stofugólfið leit út eins og klósettgólfið í Sjallanum, um það leyti sem staðnum lokar.
En Kári er samt yndislegur og mikill gleðigjafi á okkar heimili það er bara ýmislegt sem tekur við þegar hveitibrauðsdögunumm lýkur og nýjabrums víman rennur af, og maður áttar sig á lífið er ein stór fyrirhöfn. Ef einhver spyr þig hvað lífið sé og þig langar að kjarna það í eina setningu en vera um leið heiðarlegur, þá skaltu svara, að það sé fyrirhöfn. Tíðarandinn er ekki besti túlkandi lífsins, vegna þess að tíðarandinn elskar tvennt, það er annars vegar nýjabrum og hins vegar þægindi. Skoðaðu bara auglýsingar ef þú trúir mér ekki, hvenær hefurðu t.d. séð stóran slefandi labradorhund í klósettpappírsauglýsingu eltast krúttlega og klaufalega við dúnmjúka rúlluna sem er viðkomu eins og Kári litli þegar við fengum hann fyrst í hendur? Og hvenær hefurðu séð þreytuleg og þéttholda hjón í kókauglýsingu leiðast ástfangin eftir götu stórborgar og taka síðan nokkur vel valin spor í takti við töff tónlist? Og hversu margar rómantískar bíómyndir fjalla um hjón sem hafa verið gift í 15 ár , eiga þrjú börn, böns af skuldum, flókin fjölskyldutengsl en eru samt bara ánægð með hvort annað? Nei tíðarandinn er ekki hrifinn af fyrirhöfn og veseni, í augum tíðarandans er lífið annað hvort fullkomið eða fánýtt, og við sem höldum að við séum svo upplýst freistumst stundum til að gæla við þá hugmynd að viðmið tíðarandans séu þau sem maður á að vænta. Og ef maður festist í þeirri gömlu gildru þá er svo hætt við því að maður gefist upp án þess að sjá fegurðina í lífsbarningnum og í voninni um að sá barningur fæði eitthvað dásamlegt, djúpt og heilt af sér. Hugmyndin um fullkomið hjónaband er fullkomlega fáránleg, fegurð hjónabandsins er ekki fólgin í sléttri áferð heldur öllum þessu skeiðum sem það býr yfir og reyna mismunandi á okkur. Þið vitið hvernig þetta er með ungviðið, það er alltaf að taka þroskakippi og stundum án þess að við séum með öllu viðbúin, allt í einu er litli hvítvoðungurinn sem svaf daginn út og inn farinn að snúa sér á skiptiborðinu og gera okkur bilt við með framförum sem við náðum ekki að fylgja og skyndilega hjalar barnið, skríður, stendur upp, tekur fyrsta skrefið, hleypur á eftir bolta, hjólar með hjálpardekkjum, hjólar án hjálpardekkja, rífur kjaft, litar á sér hárið, fær sér tattoo, kemur heim með kærustu og loks ber þér þær fregnir að þú sért að verða amma. Er eitthvað af þessu sem þú myndir vilja fara á mis við sem foreldri? Nei ég held ekki. En svona á hjónbandið líka að vera, og í því er fegurð þess fólgin, ekki bara í tilhugalífinu allri spennunni og fiðringnum sem því fylgir heldur í öllum þessum skeiðum þar sem við tökum nýtt skref saman inn í framtíðina og eflumst í þroska okkar og lífsreynslu. Það er í raun jafn skrýtið að festast í eilífu tilhugalífi eins og að ganga í magabol á elliheimili (eða bara ganga yfirhöfuð í magabol). Allt hefur sinn tíma segir Prédikarinn í Gamla testamentinu og það er mikið rétt, að hlæja hefur sinn tíma og að gráta hefur sínn tíma, að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma, að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma, að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma. Já allt hefur sinn tíma og sú vitneskja, sá sannleikur er grundvöllur þess að eiga farsælt hjónaband og takið eftir að ég segi ekki fullkomið hjónaband, heldur farsælt, því farsældin felst í því að hafa fyrir lífinu og gera ráð fyrir góðu veseni af og til.
Kæru brúðhjón sumarið 2012. Guð gefi ykkur æðruleysi og trú til að rækta með ykkur farsælt hjóna og fjölskyldulíf. Amen.
Ávarp til brúðhjóna
Flokkar