Veislur og hátíðir eru haldnar í öllum mannlegum samfélögum af tvenns konar tilefni. Annars vegar er miðað við gang náttúrunnar og fögnuðir haldnir þegar ein árstíð leysir aðra af hólmi. Hins vegar eru hátíðir þegar líf einstaklingsins tekur breytingum. Breytingar í lífi okkar vekja stundum gleði og stundum sorg. Þeim tilfinningum finnum við farveg í hátíðunum.
Þegar gleðin ríkir í lífi okkar fögnum við því góða sem lífið veitir og yfir samkenndinni og samstöðu fólksins í kringum okkur. Þegar sorg og neyð knýja dyra verður hátíðin leið til að miðla stuðningi og samúð í garð hvers annars. Hátíð í sorg veitir andstöðu því sem brýtur niður og styður hið góða sem byggir upp.
Guðsþjónustan er hátíð þar sem við fögnum yfir Guði sem skapar, sem frelsar og sem gefur lífsins góðu gjafir. Guðsþjónustan er hátíð sem rúmar bæði gleðina í lífi okkar og harminn sem við berum innra með okkur.
Í guðsþjónustunni er sorgin og missirinn þó ætíð séð í ljósi náðar Guðs og í samhengi við upprisu Krists. Þegar við komum saman til guðsþjónustu fögnum við hinu góða mitt í veröld sem getur verið bæði grimm og ljót.
* * *
Á þessum árstíma eru blóm og laufblöð fölnuð og við siglum inn í svartasta skammdegið. Kirkjuárið leggur á þessum tíma áherslu á alvöru lífsins og fallvaltleika þess. Fyrstu helgina í nóvember minnir hefðin okkur á þá sem á undan okkur eru gengnir og það mikilvæga hlutverk sem fyrirmyndir í lífi og trú gegna í lífi okkar hvers og eins.
Á allra heilagra messu minnumst við þeirra sem gengu á Guðs vegum og auðguðu líf annarra með gleði og kærleika. Við sem nutum þess að eiga sérstakar fyrirmyndir á vegferð okkar getum notað þennan tíma til að íhuga fordæmi þeirra og þakka fyrir leiðsögn þeirra. Við ættum líka að leiða hugann að því hvernig fyrirmyndir við erum í lífi þeirra sem umgangast okkur og hvort við líkjumst helgum vottum í trúnni, voninni og kærleikanum, eins og segir í kollektu allra heilagra messu.
Í kringum þennan tíma hefur minningu látinna verið gefinn æ meiri gaumur og í sumum kirkjum eru haldnar minningarguðsþjónustur fyrir aðstandendur þeirra sem látist hafa á síðast liðnu ári. Þessi þróun hefur hér á landi haldist í hendur við aukna þjónustu kirkjunnar við syrgjendur sem eftir öllum merkjum að dæma virðist vera vel þegin og bráðnauðsynleg.
* * *
Þeir sem leita til kirkjunnar gera það ekki síst vegna breytinga í lífi sínu. Barn er fætt og er borið til skírnar í faðmi stórfjölskyldunnar. Í hjónavígslum vilja elskendur gera með sér sáttmála fyrir augliti Guðs og safnaðar. Við andlát leita aðstandendur huggunar og hvatningar til að geta áfram notið lífsins þrátt fyrir missi og söknuð.
Guðsþjónustan er hátíð bæði í gleði og sorg. Í henni rúmast reynsla okkar í lífi sem tekur sífelldum breytingum. En hún er alltaf haldin í trausti þess að fyrir upprisu Krists munum við fá að sjá augliti til auglitis Guð sem er góður og trúfastur.