Lúther pönk

Lúther pönk

Hugmyndir Lúthers skiptu máli og höfðu áhrif. Þínar hugmyndir skipta líka máli og þú getur haft áhrif. En það eru til fleiri leiðir til þess að hafa áhrif en að negla mótmælin á kirkjudyr. Við þurfum ekki öll að nota sömu aðferðirnar.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
31. október 2016
Meðhöfundar:
Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir

Lúther pönkari Hugsið ykkur ef ég færi nú hérna út fyrir og myndi negla á útudyrahurðina hér í kirkjunni allt sem mér finnst vera óréttlátt og vont í kirkjunni. Eða kannski allt sem mér finnst vera óréttlátt á Íslandi, sem er alveg þó nokkuð. Ég hefði t.d. getað gert það fyrir kosningar.

Þú gætir líka gert þetta. Þú gætir t.d. farið og neglt upp á útidyrnar í skólanum þínum allt sem þú villt breyta vegna þess að þér finnst það vera ranglátt.

Haldið þið að þetta myndi vekja athygli? Væri kannski sniðugra að skrifa facebookfærslu eða henda í nokkur tweet? Eða mögulega að skrifa pistil og setja á heimasíðu eða láta birta grein í blöðunum? Hvað með leikna auglýsingu í sjónvarpinu?

Í dag eru margar leiðir til þess að tjá skoðun sína, í það minnsta í okkar heimshluta þar sem málfrelsi ríkir. Og við sem kusum í gær vorum einmitt að segja skoðun okkar á því hvernig við viljum að samfélagið okkar sé og hvaða fólk við viljum að stjórni því fyrir okkur næstu árin. Reyndar getum við ekki kosið nákvæmlega það fólk og þær stefnur sem við vlijum í öllum málum en við getum kosið flokka sem eru búin að setja sér stefnu sem kemst næst því sem við viljum og svo er bara að vona að þetta gangi upp.

Á mánudaginn er siðbótardagurinn en það er dagurinn þegar við minnumst þess og þökkum fyrir að Lúther skrifaði 95 ástæður fyrir þvi að hann taldi að kaþólska kirkjan, sem hann tilheyrði, væri spillt og kom fram með nýja guðfræði að mörgu leyti.

Þetta var svolítið pönkuð aðferð hjá Lúther og vakti mikla athygli og deilur innan kirkjunnar sem síðan urðu til þess að lúterska kirkjan varð til. Það er reyndar nokkuð algengt að kirkjur eða trúfélög klofni vegna guðfræðihugmynda eða praktískra hluta en það sem gerðist þarna var að klofningurinn varð svo stór og lúterska kirkjan óx mjög hratt um allan heim og nú tilheyra yfir 72 milljónir fólks einhverri lúterskri kirkju í 98 löndum víðsvegar í heiminum.

Eins og þið getið ímyndað ykkur þá var kaþólska kirkjan ekki sátt við Lúther og lútersku kirkjuna enda var hans guðfræði róttæk og óþægileg fyrir margt fólk. Auk þess fólst stærsti hluti gagnrýni hans í því hvernig kirkjan nýtti sér trúarótta fólks til þess að afla tekna.

Í grófum dráttum fór það fram með þeim hætti að fólk gat keypt sér svokölluð aflátsbréf og þannig greitt fyrir syndaaflausn eða fyrirgefningu synda sinna. Það var líka hægt að vinna fyrir fyrirgefningunni en ef þú áttir pening var þetta fljótlegra og þægilegra. Fólk þurfti bara að eiga pening til þess að kaupa sér vist í himnaríki. Fyrir þetta aflátsfé var m.a. Péturskirkjan í Róm reist.

Lúther setti einnig fram nýja og róttæka guðfræði eftir miklar og nákvæmar Biblíurannsóknir þar sem hann m.a. lagði áherslu á að manneskjan geti aðeins orðið réttlætt (elskuð af Guði/frelsuð) fyrir trú á Guð en ekki fyrir öll sín góðu verk. Þ.e. manneskjan er elskuð fyrir náð Guðs eins og hún er, bæði það góða og vonda í manneskjunni, en ekki aðeins þau sem vinna bestu verkin. Þessi elska Guðs leiðir síðan af sér að manneskjan vill vinna góð verk og þannig spegla kærleika Guðs í heiminum.

Þetta var kallað réttlæting af trú í staðinn fyrir réttlæting fyrir verk sem hafði einkennt kaþólska guðfræði. Og ég held að þessi guðfræði sé alls ekki síður mikilvæg í dag, því að enn þann dag í dag virðumst við falla í þá gryfju að gera því fólki hærra undir höfði í samfélaginu sem á peninga, fólki sem getur keypt sér aðgang að ýmsu sem við hin getum ekki leyft okkur, og við verðum sífellt meðvitaðri um spillinguna sem leynist víða á þessu landi sem okkur þykir annars svo vænt um. Kosningarnar í gær fjölluðu m.a. um hvernig við viljum taka á slíkum málum, og hvernig við viljum að allar manneskjur eigi sama rétt og sömu möguleika, óháð efnahag eða stöðu.

Þú getur valið bæði Í sögunni sem við heyrðum áðan sameinast tveir hópar gegn Jesú. Þessir hópar, sem annars eru ósammála um allt, vilja báðir losna við hann.

Þeir leggja fyrir hann hina fullkomnu spurningu um það hvort það sé í lagi að greiða keisaranum skatt. Það var nefnilega alveg sama hvort Jesús svaraði neitandi eða játandi, bæði svörin voru röng og til þess að skapa reiði annars hvors hópsins.

En Jesús vissi nákvæmlega hvað þeir ætluðu sér og honum tókst að koma með hið fullkomna svar: “Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem guðs er”. Það góða vð þetta svar er að það kom spyrjendunum fullkomlega í opna skjöldu og enn í dag eru guðfræðingar ekki sammála um hvað hann átti við með þessum orðum.

Ég skil þessi orð hans þannig að við eigum að nota skynsemina, taka þátt í samfélaginu en einnig að vera trú Guði og góðum gildum. Að, “svart eða hvítt” og “annað hvort eða”, er ekki í boði heldur allir litir og bæði og. Þú þarft ekki að velja annað hvort Guð eða heiminn. Þú getur valið bæði.

Kannski þýðir þetta, þegar upp er staðið, að við eigum að fylgja fagnaðarerindinu, góðu fréttunum um að við erum elskuð af Guði hvernig sem við erum og hvar sem við erum og taka þátt í heiminum út frá þeirri vissu. Sá boðskapur er sannarlega í anda Lúthers.

Sátt, von og hjálparstarf Á morgun er siðbótardagurinn og þá mun heimssögulegur viðburður eiga sér stað í Lundi og Malmö, í Svíþjóð. Þá mun páfinn koma til Svíþjóðar til þess að þjóna í sameiginlegri messu lúterskra og kaþólskra í fyrsta sinn frá því lúterska kirkjan varð til. En það er Lúterska heimssambandið og Vatikanið í Róm sem hafa unnið að þessu í sameininingu. Þessi sameiginlega messa er niðurstaða samtals sem hefur átt sér stað í tugi ára (um 50 ár) milli þessara tveggja stóru kirkjudeilda sem hafa verið ósammála um svo ótal margt og sýnir okkur hvað gott samtal getur gert.

Þetta hefst allt á messu í Lundardómkirkju þar sem um 600 manns komast fyrir en síðan verður risa messa í Malmö arena, íþróttahöllinni þar sem gert er ráð fyrir allt að 10 000 þátttakendum. Svo verða stór tjöld á torgum úti í Malmö og Lundi og væntanlega munu milljónir fólks fylgjast með beinni útsendingu um heim allan. Þar á meðal verður hægt að fylgjast með þessari messu hér á netinu. Við munum setja vefslóðina á síðuna inn á facebooksíðu Grafarvogskirkju fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fygljast með.

Það sem þessi merki viðburður kannski miðlar fyrst og fremst er sátt og von því þetta er einnig upphafið að samstarfi þessara kirkjudeilda um hjálparstarf og aðstoð við flóttafólk og verður samkomulag þess efnis undirritað við þetta tilefni. Það má því segja að afleiðingin af þessari sameiginlegu messu, sem er tákn um sátt, beri með sér von um betra samstarf og samhjálp um að gera heiminn betri með því að hjálpa þeim sem eru í sárri neyð.

Árið 2017 verða 500 ár síðan Lúther negldi upp skjölin með mótmælum sínum á kirkjudyrnar í kirkjunni sinni í heimabæ sínum Wittenberg í Þýskalandi. Við munum halda upp á þessi tímamót í íslensku Þjóðkirkjunni og í lúterskum kirkjum um allan heim. Allar þessar 72 milljónir manneskja sem tilheyra lúthersku kirkjunni munu halda upp á þetta á einhvern hátt.

Þín rödd skiptir máli Hugsaðu þér, Lúther hengdi upp mótmæli sín í 95 liðum á kyrkjudyrnar og kirkjan klofnaði. Það sem hann sagði skipti máli. Rödd hans heyrðist. Samt var hann ekkert sérstakur í sjálfu sér, hann var hvorki ríkur né frægur, heldur venjulegur munkur sem fylgdi sannfæringu sinni og með því breytti hann heiminum.

Það skiptir nefnilega máli það sem við segjum. Þú getur látið í þér heyra. Þú mátt mótmæla þegar þú sérð óréttlæti. Þú mátt setja fram nýjar hugmyndir. Þú mátt stofna stjórnmálaflokk. Þú mátt líka skrifa á facebook eða ræða þessa hluti við eldhúsborðið. En ég trúi því að þú getir látið rödd þína heyrast ef þú virkilega vilt því þín skoðun skiptir máli í samfélagi þar sem málfrelsi er í heiðri haft.

Hugmyndir Lúthers skiptu máli og höfðu áhrif. Þínar hugmyndir skipta líka máli og þú getur haft áhrif. En það eru til fleiri leiðir til þess að hafa áhrif en að negla mótmælin á kirkjudyr. Við þurfum ekki öll að nota sömu aðferðirnar.

Við getum bæði goldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er með því að taka þátt í samfélaginu okkar og láta okkur líf og afkomu fólks varða. Við getum gert það með því að ræða við þau sem við erum ósammála í stað þess að skipta öllu í “annað hvort eða” og “svart eða hvítt”. Við getum gert það með því að sjá alla regnbogans liti í heiminum og reyna eftir fremsta megni að elska náungann eins og við erum elskuð af Guði og taka bæði þátt í samfélaginu okkar og vera trú okkar innri sannfæringu. Amen.