Tíminn læknar engin sár

Tíminn læknar engin sár

Hann valdi legstaðinn út frá sama viðmiði og þegar hann valdi stað fyrir heimilið: út frá útsýninu. Ég man að hann sagði eitthvað á þessa leið þegar við ræddum þetta: Ég er viss um að það er gott að vakna upp á upprisudeginum með svona útsýni.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
03. nóvember 2013
Flokkar

„Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helvítis lygi.“

Sagði pabbinn. Þá voru liðin níu eða kannski tíu ár frá því litli strákurinn hans dó. Það varð slys og aðkoman var hræðileg og brenndi sig inn í augun hans og hugann og hjartað. Sárin voru enn til staðar. Sársaukinn var til staðar. Kannski ekki alltaf, en hann bjó þarna. Stundum í leynum. Stundum augljós.

„Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er ... lygi.“

Hann hefur alveg rétt fyrir sér.

Pabbinn.

Tíminn læknar engin sár. Tíminn deyfir. Hann virkar svipað og kælikremið sem er sett á vöðva sem hefur tognað. Tíminn léttir af þrýstingi og hjálpar til við að setja í samhengi og gefur fjarlægð. Og það leiðir smátt og smátt til þess að sársaukinn verður minna áberandi - minna nærverandi - í lífinu. En hann læknar ekki. Og sá sem heldur öðru fram, hann segir ekki allan sannleikann.

* * *

Hvað er sársauki annars?

Skilaboð.

Leið líkamans til að láta vita að eitthvað er ekki að. Til að láta vita að eitthvað sé að bresta, að eitthvað gæti brotnað.

Þegar við æfum íþróttir þá er alla jafna mælt með því að við hlustum vel á líkamann. Þegar þú finnur sársauka skaltu stoppa. Til að skemma ekki.

Kannski er það eins er með sorgina. Sársaukinn sem fylgir henni minnir okkur á missinn. Hann minnir á gatið sem í lífinu miðju. Á framtíðina sem aldrei fær að verða veruleiki.

Sársaukinn er þá eins og vegvísir eða skilti, eins og hróp í gjallarhorn:

Hann er ekki hér. Hún er ekki hér. Það vantar eitthvað í lífið mitt. Og það er svo vont!

* * *

Nú höldum við allra heilagra messu. Og hún er eins konar sársaukadagur sorgarinnar. Dagur til að staldra við. Leyfa sér að finna til og ekki hlaupa burt. Það eru fleiri svona dagar á árinu. Hátíðirnar eins og jól og páskar. Afmæli. Jafnvel dánardagarnir.

Flestir eru dagarnir þegar nándin var meiri og samfélagið innilegra. Þegar við vorum saman. Og á svona dögum - í dag - leyfum við okkur að syrgja. Hvort sem það er stutt eða langt síðan við kvöddumst.

Því sorgin varir.

Við getum líka upplifað sorgarsársaukann við annars konar aðstæður í lífinu. Þegar við lesum ljóð eða skáldsögur eða sjáum bíómyndir. Ég sá eina slíka í vikunni. Hún heitir Málmhaus og er eftir Ragnar Bragason og ég held að hún sé besta íslenska sorgarmyndin sem hefur verið gerð.

Hún ýfði sorgarsárin mín og ég var eiginlega klökkur mest alla myndina. Ekki af því að reynsla sögupersónanna sé reynslan mín. Heldur vegna þess að ég þekki veruleika sorgarinnar. Hef reynt hann á eigin skinni og hjarta. Og sorg eins getur ert og kallað fram sorg annars.

Það er pabbinn í Málmhausi sem segir orðin sönnu sem ég vitnaði til í upphafi máls míns:

„Þeir segja að tíminn lækni öll sár. Það er helvítis lygi.“

Það reynist vera hluti af úrvinnslunni hans að gera upp við þau öll sem segja að nú sé liðið svo og svo langt og þá sé nú kannski óþarfi að vera að velta sér upp úr sorginni.

Gera upp við „er-þetta-ekki-bara-búið“ fólkið.

* * *

Gott og vel. Tíminn læknar ekki. En hvað læknar sorgarsárin?

Ekkert er eitt svarið.

Við lærum bara að lifa með þeim.

En kannski er það ekki alveg satt.

Því kannski lækna nándin, samtalið, kannski lækna hlýjan og umhyggjan.

En það gerist hægt.

Samtalið um hinn eða hina látnu er af hinu góða. Ekki af því að sárin hverfi heldur af því að innileg samtöl og raunveruleg nánd í samskiptum eru forsenda góðs lífs. Og það sem gerir lífið okkar almennt gott og innihaldsríkt er líka gagnlegt og mikilvægt eftir missi. Það gerir okkur mögulegt að lifa með sorg og sárum.

Þá getur það líka gerst smátt og smátt að í stað þess að dvelja við sorgina og sársaukann þegar hann hellist yfir verður sársaukinn áminning um og tilvísun á lífið sem var lifað, á þakklætið fyrir góðu stundirnar.

Við finnum til og grátum og líður engan veginn nógu vel, en skiljum samt ekki við upplifunina með þá tilfinningu í hjartanu heldur stígum skrefið frá því, jafnvel alla leið til þakklætisins og gleðinnnar yfir því sem við áttum.

Svona dagar - eins og allra heilagra messa - eiga að minna okkur á það.

* * *

Nú ætla ég að gerast persónulegur. Þessi staður hefur nefnilega heilmikið gildi fyrir mig.

Þetta er ekki mín kirkja - þetta er kirkjan ykkar sem tilheyrið söfnuðinum og þetta er kirkja prestanna og djáknans sem þjóna ykkur. En þetta er minn kirkjugarður. Því hér fylgdi ég foreldrum mínum til grafar. Og hér gróf ég ömmu mína og afa minn.

Það var pabbi sem valdi legstaðinn og hann gerði það með sömu viðmið í huga og þegar hann valdi hús og íbúðir til að búa í: út frá útsýninu. Ég man að hann sagði eitthvað á þessa leið þegar við ræddum um þetta: Ég er viss um að það er gott að vakna upp á upprisudeginum með svona útsýni.

Í þeirri trú og von lifði hann og dó. Í þeirri trú og í þeirri von lifum við öll og deyjum.

* * *

Kæri söfnuður. Tíminn læknar ekki sorgarsárin. Fólk læknar þau ekki heldur. En við lærum að lifa með þeim. Og smátt og smátt gerist það kannski að sársaukinn hættir að móta lífið okkar. Þakklætið og gleðin taka aftur yfir.

Þakklæti og gleði yfir hversdeginum okkar og yfir lífinu sem við áttum með þeim sem skiptu okkur miklu, og lögðu sitt af mörkum til að við yrðum þau sem við erum, en hafa nú kvatt þennan heim.

Guð blessi þau öll. Guð blessi ykkur öll. Guð helgi sorgina ykkar og minningarnar um þau sem hafa kvatt og Guð sé með ykkur á gleðidögum og á sorgardögum.

Í lífi og í dauða.

Amen.