Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans. Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.
Og hann sagði við þau: Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns? En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum. Lúk. 2. 41-52
Þegar við göngum inn í nýtt ár tökum við upp að nýju leit okkar að Jesú. Já, við erum öll sífellt að leita að Kristi og við komum Jósef og Maríu til hjálpar þar sem þau leita drengsins síns. Hér í kirkjunni er í dag leitarflokkur og leitar hér í miðbænum og hver heima hjá sér og meðal ættingja, vina og kunningja, hvarvetna sem við förum, í öllu sem við sjáum og heyrum. Mikið held ég þau foreldrar hans væru fegin ef þau vissu þetta.
Áhyggjur þeirra getur enginn skilið nema sá sem hefur sjalfur týnt barni sínu og það er þó undarlegt að verða þess var með sjálfum sér að manni finnist það einhvern veginn mikilvægara að finna þeirra barn en sitt eigið, eins og ef Jesús finnst þá hljóti maður líka að finna sitt barn. Leitin er því áköf hjá ýmsum og þannig jafnvel brýnna erindi en nokkuð annað í lífinu, og Jósef og María mega vita það að við munum ekki hætta leitinni þar til við finnum son þeirra.
Leitin að Jesú er leitin að jólabarninu. Það hefur ekki fyrr komið í fang okkar en við höfum týnt því aftur. Leiðin sem stjarnan vísaði á jólanótt er vandrötuð eftir að ský áramótaflugeldanna hefur birgt okkur himins sýn. Gnýr Gróttakvarnarinnar kemur í veg fyrir að við heyrum grát þess eða hjal. Flókin gatnamót örtraðarinnar leiða okkur á villustigu og úr öllum áttum kalla gjallarhorn fjölmiðlanna: Það er hér! Komdu heldur hingað og sjáðu þetta! Vertu kyrr, hlauptu, stökktu, núna er tækifæri! - Var einhver að leita að barni!? - Hvaða vitleysa er þetta!
Jólabarnið sem fór svo vel í fangi þessa litlu kvöldstund sem það hvíldi við barminn er horfið og tók með sér friðinn og við söknum þess sárt. En áttum við ekki að vera að leita að 12 ára strák? Þá gagnast ekki að kíkja ofan í vöggur og barnavagna. - Eða er hann kannski orðinn fullorðinn núna? - Að hverju erum við að leita eiginlega?
Ég held - að við kunnum að vera að leita að sjálfum okkur, eða jafnvel hinni sönnu mennsku til að hafa að fyrirmynd. Það er brýn leit hvort fyrir sig og jafnvel ekki síður í sameiningu. Hin sanna mennska er sá spegill sem við speglum okkur sjálfi í og helst er von að gefi lífi okkar merkingu.
Sumir eru þeirrar skoðunar að við höfum einhverja eðlisávsíun til þess að finna hina sönnu mennsku. Samviskan eða okkar innri skilningur, eðlisávísun, muni vísa okkur á hann, eða segja okkur að þetta sé hann þegar við höfum fundið hann. Kærleikskross hans einn nægi til þess að veita okkur það leiðarljós sem við þörfnumst.
Ég held að þetta geti ekki verið svona. Ég held að við séum ekki að leita að goðsögn, heldur að ákveðnum manni sem var uppi fyrir nákvæmlega tvöþúsund árum og þá næstum tólf ára. Jesús er eilífur og í vissum skilningi tímalaus eða sígildur og en hann er líka sögulegur. Jólin og dagurinn í dag fjalla um opinberun. Opinberun Guðs á sér og vilja sínum. Þannig er leitin alltaf leitin að hinum sögulega Jesú, þeim manni sem borið er vitni af spámönnum, guðspjallamönnum og postulum.
Ég trúi því jafnframt að það sem liggur fyrir sérhverri tíð sé nóg til þess að þeir sem gá að honum og hlusta eftir honum í samtíma sínum fái fundið hann. Sérhver kynslóð getur eignast persónulegt samfélag við hann í anda og heyrt hann tala til sín í orði sínu. Þess vegna gef ég gaum að öllum orðum Jesú, túlka þau í ljósi kross hans en ekki síður upprisunnar sem sannar mátt hans, kraftinn í orðum hans til þess að endurskapa ásjónu Jarðar.
Af þessari ástæðu höfum við búið til trúarbrögð. - Nei, það er ekki alveg rétt að segja að Jesús hafi búið til trúarbrögð. Hann bjó til lífsveg og lífsaðferð, en við lærisveinar hans bjuggum til trúarbrögð, kristni. Kristur bjó til kirkju, samfélag þeirra sem á hann trúa, en við trúarkerfi og kirkjuskipan fyrir okkur og áhangendur okkar. Af þessum ástæðum getum við þurft að breyta okkar ákvörðunum en við breytum ekki vilja hans né gerum skoðanir okkar að hans, því á að vera öfugt farið.
* * *
Þetta finnst mér liggja til grundvallar umræðunni um vígslu samkynhneigðra sem biskup okkar gerði með öðru að umtalsefni hér í kirkjunni á nýársdag og er enda mikið rædd í samfélaginu í dag. Sú umræða hefur gengið nærri systurkirkjum okkar ýmsum svo legið hefur við klofningi svo við skulum ekki undrast þó enn verði nokkur hiti í okkur þegar við ræðum þessi mál.
Guð fer ekki í manngreinarálit og elskar alla menn frá upphafi. Ekkert barn fæðist sem er honum vanþóknanlegt. Þegar við eldumst er viðbúið að ýmislegt í atferli okkar valdi vanþóknun Guðs. Hann missir þó ekki sjónar á barni sínu á bak við torkennileg klæði þess, andlitsfarða og skraut, dulbúning syndar né týnir því í skápum heims.
Samkynhneigð manneskja er þar fyrir ekki Guði vanþóknaleg né fjær honum en gagnkynhneigð. Guð dæmir sérhvern mann af viðleitni hans og markmiðum og lítur á forsendurnar. Gagnkynhneigður maður sem misþyrmir konunni sinni er Guði ekki þóknanlegri en samkynhneigð kona sem gerir hið sama. Á sama hátt metur Guð ást manns til konu á sömu vogarskál og ást konu til konu.
Hins vegar er óhugsandi að hann geti ætlað báðum sama hlutverk. Fyrir því skortir líffræðilegar forsendur og af því hefur kirkjan ályktað að hjónaband sé í grundvallaratriðum fyrir einn karl og eina konu. Nærfellt öll kirkjan, alltaf. Það þarf því ný og sterk rök að breyta þessari ætlan þó mannasetning væri.
Nú lifir maðurinn samt undir fjöldanum öllum af neyðaráætlunum sem hann hefur orðið að koma sér upp því ekki fer allt eftir formi og mörkuðum brautum. Börn fæðast utan hjónabands, missa foreldri, lenda í skilnaði, eru afrækt. Blessaður er því sérhver sú manneskja er kemur til hjálpar í þvílíkum aðstæðum og veitir slíku barni vernd, skjól og uppeldi. Sérhver manneskja er einstæðingur sem á engan að sem tekur hana að sér í kærleika. Sérhver sá sem það gerir á blessun skilið. Þá blessun getur kirkjan farið með til þeirra og á að gera.
Hjónavígsla og hjónaband eru hins vegar sérstæð fyrirbæri með innri merkingu. Það breytir engu þó við höfum gjaldfellt þau stórlega með misbrúki þeirra og vanvirðu. Þó svo við gerðum ekki ráð fyrir að það sé stofnað af Guði heldur mönnum þá trúir kirkjan að það birti guðsviljann og standi fyrir góðri reglu á sama hátt og prestsvígsla og prestembætti. Hvort tveggja hefur nefnilega sama markmið og það er að móta samfélag fyrir guðsbörnin að vaxa að þroska og trú til að geta veit Guði þjónustu í verkum sínum.
Prestsvígslan er ekki opin öllum. Hana þurfa konur og karlar að hafa gert sig makleg til og veldur mestu innstilling og undirbúningur. Einhver þarf svo að viðurkenna forsendur viðkomandi og velja hann sem prest. Á sömu lund er með kristilegt hjónaband. Það þarf innstillingu og undirbúning og einhvern til að vilja mann sem eiginmann eða eiginkonu.
Auðséð er að ýmsa skortir hæfileika til að gegna prestsþjónustu og enginn er svosem nógu góður til þess hlutverks og ekki tel ég að kynhneigð skipti þar máli til né frá. Jafnframt ætti að vera auðséð að ekki hafa allir hæfileika til þess að ganga í hjónaband. Við teljum td að aldur sé einn af þeim eiginleikum sem til þarf, gagnkvæmur vilji er annar.
Höfnun þess að skilyrði séu uppfyllt kann að særa en hún segir ekkert um viðkomandi í öðru tilliti. Hún eða hann geta verið hinar ágætustu manneskjur að öllu leyti þó þetta sé ekki talið vera í pakkanum. Jesús virðist gera ráð fyrir þessu er hann segir eftir umræður um hjónabandið og samlíf lærisveina sinna í sama kafla og innsetningarorð hans um hjónabandið er að finna, Mattheus 19: Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. -12- Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær.
Í leit okkar að Jesú höfum við þannig fundið hann þar sem hann segir þetta! Hann sem tólf ára gekk fram af vitringunum. Hvaða viska er í þessu? Mér virðist við verða að íhuga það vel og ítarlega. Við erum saman í leitinni og kannski eigum við eftir að finna hann á örðum stað þar sem hann segir eitthvað sem gefur okkur að skilja þessi orð í öðru ljósi. Ef til vill verðum við fleiri ásáttari með það.
Ég vil alla vega ekki koma með þann boðskap til þeirra hjóna sem hafa litið á hjónaband sitt sem heilagt hlutverk til þess að annast hvort annað og búa þeim börnum sem Guð gefur þeim uppeldisaðstæður og þannig móta næstu kynslóð guðsríkisins að það sé aukaatriði.
Sá skilji þetta sem skilið fær, ég er ekki viss um að ég geri það en það hvílir á mér sú skylda að reyna að varpa ljósi á málið.