Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi. Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri. Matt 5.23-26
Gamall maður – Alvin Straight - ferðast á garðsláttuvél 300 kílómetra leið til að hitta Lyle bróður sinn. Hvers vegna? Af því að þeir eiga óuppgerðar sakir og hann finnur og veit að það þarf að klára málin áður en annar þeirra yfirgefur þennan heim. Hann þarf að sættast við bróður sinn.
Sagan af Alvin Straight er sönn og hún er skrásett í kvikmyndinni The Straight Story. Bræðrunum hafði lent saman fyrir fjölda ára og þeir hættu að talast við og eiga samskipti. Og það var ekki fyrr en báðir voru orðnir aldurhnignir og heilsutæpir (og Lyle hafði fengið heilablóðfall) að þeir gengu í sjálfa sig. Ég nefni þetta hér í dag af því að sagan af Alvin Straight geymir að mörgu leyti hliðstæðan lærdóm við frásöguna í lestri dagsins.
* * *
Við söfnumst saman við altarið til að mæta Guði. Og í morgunlestri dagsins er að finna áminningu til okkar sem komum hér saman. Jesús talar til þeirra sem standa á þessum stað – frammi fyrir Guði – og áminnir um að hingað megi ekki koma með hvaða hugarfari sem er. Þetta eru holl orð og góð. Hann segir í raun: Sá sem vill vera sáttur við Guð þarf jafnframt að vera sáttur við náunga sinn – þetta tvennt helst í hendur. Það er með öðrum orðum ekki boðið upp á ódýra náð, ekki upp á ódýra fyrirgefningu. Þegar komið er kallað eftir tilteknu hugarfari, það er kallað eftir - eða jafnvel krafist – hugarfars iðrunar og fyrirgefningar, sáttar og kærleika.
* * *
Alvin Straight ók langan veg á brothættu farartæki, gekk í gegnum ýmisskonar raunir og hitti ólíkt fólk – eins og við gerum almennt í lífinu, en kannski sérstaklega þegar við erum á iðrunargöngu – til að mæta bróður sínum og sættast við hann. Kvikmyndin um þá bræður endar á því að þeir mætast og sættast og áhorfandinn upplifir eins konar himnaríkisminni. Um leið áttar hann sig á því að nú geta bræðurnir báðir mætt Guði (og mönnum), sáttir og sælir.
Þarna er ekki sagt frá ódýrri náð og fyrirgefningin er dýru verði keypt – en um leið verður hún einhvers virði. Og áminningin er holl og á jafnt við okkur í dag og hún á við um bræðurna í frásögn Jesú og í kvikmyndinni sem er svo blátt áfram:
Ef þú ert staddur við altarið – og ætlar að bera fram fórn þína – ætlar að mæta Guði – og minnist þess að þú átt eitthvað óuppgert þá skaltu bíða og gera upp málin og mæta svo Guði. Vissulega sér Guð inn í hjarta þitt og veit hvaða tilfinningar bærast þar, en Guð vill jafnframt – og þetta er áminning dagsins - að þú sjáir inn í eigið hjarta og sért tilbúin/n að mæta því sem þar er að finna og koma þannig fram fyrir sig.
Guð gefi okkur styrk til þess.