Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
I.
Fimmtíu ár eru stór hluti af einu mannslífi. Meira en helmingurinn. Meira en helmingur lífsins er liðinn og vel það. Og hvað hafði Oskari afrekað? Var trú hans ennþá fölskvalaus og sterk? Oskari Huuskonen hafði lagt stund á og orðið doktor í guðfræði, verið settur til þjónustu í eigin söfnuði, skipaður í kirkjulegt embætti, átti fjölskyldu og þennan sumarbústað. Það var ekki svo mikið. „En ég á þó minn eigin skógarbjörn!
Bókin Prófasturinn og hans stórundarlegi þjónn eftir finnska skáldið Arto Paasilinna segir frá prófasti einum í hinni finnsk-evangelísk lútersku þjóðkirkju. Aðalsöguhetjan Oskari Huuskonen er doktor í guðfræði og sérfræðingur í trúvörn og ritskýringu Biblíunnar. Sóknarbörnunum þykir hann nokkuð sérkennilegur, ræðurnar eru ekki alltaf út frá texta kirkjuársins og öðru hverju skrifar hann stórundarlegar og kjaftforar greinar í blöðin um guðfræði og pólitík. Snemma í bókinni er Huuskonen prófastur einmitt kallaður á teppið hjá biskupnum eftir að hafa skrifað grein með óhefðbundnum hugmyndum sínum um pólitíska íhlutun og hernaðarbrölt frelsarans. Í greininni kemst Huuskonen að þeirri niðurstöðu að Jesús Kristur hafi verið vinstrisinnaður, ekki vílað fyrir sér ofbeldi, og hefði örugglega aðhyllst marxisma og byltingarkenningar ef hann hefði fæðst á okkar dögum. Biskupinn er ekki par hrifinn yfir skrifum og vangaveltum prófastsins, enda eiga prestar að dómi hans helst að vera meðalmenn, sem skera sig ekki úr fjöldanum eða skrifa umdeildar greinar um mögulega hernaðaríhlutun Drottins í nútímanum.
Stuttu eftir að prófasturinn setti fram kenningar sínar í héraðsfréttablaðinu vildi svo til í Nummenpaa sókn að konfektgerðarmeistari bæjarins og veislukokkur rakst á skógarbirnu með tvo húna í eldhúsinu hjá sér. Konditorimeistarinn reynir að fá skógarbirnuna út úr eldhúsinu með því að pota í hana priki,og hefur það eitt upp úr krafsinu að lenda á harðahlaupum út á götu með birnuna á hælum sér og taka loks á það ráð að klifra upp í rafmagnsstaur með birnuna hangandi í buxnaskálminni. Þegar hún grípur um rafmagnslínuna eru dagar hennar taldir: Þetta olli miklu skammhlaupi, segir Paasiliina. Konugreyið var fyrst steikt eins og roast beef, meyrnaði síðan eins og langsteikt lambalæri og varð loks hörð og seig eins og grillkótiletta. Ekki fór betur fyrir birnunni sem hafði læst sig í fótlegg konfektmeistarans. Hún fékk í sig heiftarlegt stuð og feldurinn fuðraði upp eins og kyndill.
Þetta þóttu vitaskuld mikil tíðindi í Nummenpaa sókn sem nú stóð uppi með tvo móðurlausa skógarbjarnarhúna og konfektmeistaralausan bæ. Birnuhúninum var fljótlega komið fyrir í dýragarði, en verra gekk að koma út bjarnarhúninum. Nú brá svo við að prófasturinn Huuskonen átti fimmtíu ára afmæli og brá sóknarnefndin á það ráð að gefa honum skógarbjarnarhúninn í afmælisgjöf. Eitthvað þurfti að gera við björninn, þessi gjöf kostaði ekki neitt og ýmsum passíf agressífum sóknarnefndarmönnum þótti það mátulegt á prófastfrúna frú Söru að þrífa upp eftir skógarbjörninn vegna þess að hún væri alltaf svo merkileg með sig. Þannig fór að þegar prófastur Huuskonen hélt upp á fimmtíu ára afmælið fékk hann skógarbjörninn Dára sem sleikti hann í framan og slefaði á prestakragann hans. Og skömmu síðar þegar Astrid konfektmeistari var jarðsungin í kirkjunni lagði prófasturinn út frá því að maðurinn lifði ekki á einu saman brauði, heldur hefði veislukokkurinn sálugi jafnframt verið einkar leikin í að matreiða kjötrétti.
II. Ég er brauð lífsins, segir Jesús í guðspjalli dagsins. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.
Ritningarversið talar um Guð sem er brauð og líkami og sendur frá himni heiminum til lífs. Brauð sem tákn stendur í flestum trúarbrögðum fyrir grunnþarfir okkar hvers og eins sem lífvera, það sem við þurfum til að lifa af og lifa góðu lífi. Brauðið vísar aftur til þeirrar tæknibyltingar í árdaga sem föst búseta, akuryrkja og eldur höfðu í för með sér fyrir botni Miðjarðarhafs. Hér á Íslandi var korn lengstum af skornum skammti og fólk fékk magafylli sína af harðfiski, sölum í brauðs stað. Til að tengja brauðið og grunnþarfir til lífs sem brauðið táknar við aðstæður fyrri tíðar á Íslandi hefðu íslenskar biblíuþýðingar eiginlega átt að lýsa Jesú sem «harðfisk lífsins» eða «söl lífsins».
Brauð kemur víða fyrir í Biblíunni. Ein mikilvægasta tilvísunin í biblíulega brauðið kom fram í fyrri ritningarlestri dagsins úr annarri Mósebók þegar Ísraelsmennirnir voru svangir og Guð sendi þeim eitthvað dögg af himnum. Og þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt á jörðinni, sem reyndist vera korn og Ísraelsmenn kölluðu það manna. Móseritin segja að Ísraelsmenn hafi etið manna í fjörutíu ár í eyðimörkinni, eða allar götur þangað til þeir komu til Kanaanslands. Jesús fæddist samkvæmt guðspjöllunum í Betlehem, sem á hebresku þýðir «Hús brauðsins». Ein frásaga guðspjallanna greinir frá því að hann hafi glímt við djöfulinn í eyðimörkinni og stungið upp í hann með því að segja að eigi lifði maðurinn á einu saman brauði, en þetta sama vers sem prófastur Huuskonen notaði í jarðarför konfektmeistarans. Guðspjöllin segja líka frá því að Jesús hafi kennt lærisveinum sínum Faðirvorið og að biðja Guð um að gefa sér daglegt brauð. Öll guðspjöllin segja frá því að Jesús hafi beðið vini sína að minnast sín þegar þeir brytu brauðið og að hann hafi tengt það sérstaklega líkama sínum sem væri brotinn fyrir mennina. Þegar Jesús samkvæmt Jóhannesi lýsir sjálfum sér sem brauði lífsins tengir Jesús sig þannig við vel þekktar biblíulegar og menningarlegar tilvísanir. Guðspjallið sem er skrifað áratugum eftir dauða Jesú vísar þannig fram og aftur í tíma sögusviðsins, til fæðingar í brauðhúsi og dauða og upprisu sem tengd er brauði og búk. Þessar tilvísarnir um frelsun úr eyðimörkinni og líf sem byggir ekki á einu saman brauði endurómar mikilvægi grunnþarfanna en gengur jafnframt lengra í skilgreiningu sinni á hinu góða lífi en að tryggja öryggi, mat, hvíld og skjól grunnþarfanna.
Kristur sem manna, Kristur sem brauð lífs og líkami er harðfiskur og söl og brauð, en líka andlegur veruleiki sem verður ekki tugginn og meltur.
Og því er það nærtækt að spyrja bæði almennt og sértækt: Hvað er brauð lífsins? Hvað eru lífsþarfir? Hverjar eru mínar þarfir til lífs? Hvað þarf ég til að lifa góðu lífi og búa við velsæld? Hver er mín næring? Hvert er það daglega brauð sem við biðjum Guð um að gefa okkur?
Marteinn Lúter reyndi í Fræðunum minni að svara þessu með daglega brauðið og lífsþarfirnar. Hann bendir á að Guð úthluti öllum jafnt, réttlátum sem ranglátum, en að bænin um að gefa daglegt brauð, geti hjálpað okkur að líta ekki á brauðið sem sjálfsagðan hlut. Og síðan telur hann upp það sem geti flokkast sem daglegt brauð:
Allt sem heyrir til fæðslu líkamans og þarfa, svo sem matur, drykkur, klæði, skæði, hús, heimili, jarðnæði, fénaður, peningar, fjármunir, guðhræddur maki, guðhrædd börn, guðhrædd hjú, guðhræddir og trúir yfirmenn, góð landstjórn, góð veðrátta, friður, heilbrigði, siðsemi, heiður, góðir vinir, trúir nágrannar og þvíumlíkt.
III. Víkur þá aftur að hinum fimmtuga prófasti Huuskonen. Hann er maður sem á allt, hefur aflað sér menntunar, á góða konu og uppvaxin börn, er í virðulegu starfi og allt virðist ganga honum í haginn. Ef við skoðum lista Lúthers yfir daglega brauðið sem lýsir farsæld og fullnægðum þörfum, þá ætti Huuskonen að hafa uppskorið ríkulega af brauðinu. Og samt spyr hann sig á fimmtugsdaginn hvað hann hafi eiginlega afrekað í lífinu og uppskorið. Hann telur í huganum upp eigur sínar og nafnbætur og kemst að þeirri niðurstöðu að það merkilegasta af öllu sé skógarbjörninn Dári. Öllum að óvörum tekur prófasturinn ástfóstri við skógarbjörninn, fatar hann og klæðir og geymir hann í skrúðhúsi kirkjunnar þegar hann er að vinna, sóknarbörnunum til nokkurrar hrellingar. Dári reynist hinn námsfúsasti og prófasturinn kennir honum að strauja skyrtur og vinna ýmis heimilisverk. Samskipti prófastsins við biskupsstofu kólnar enn meir eftir að prófasturinn byrjar að æfa nýja íþróttagrein, lóðrétt spjótkast ofan í brunni og hittir biskupinn óvart í brjóstið með spjótinu þegar hann heimsækir Huuskonen til að skamma hann fyrir síðustu blaðagreinina. Prófastsfrúin segir sig úr þjóðkirkjunni í mótmælaskyni yfir bjarnarhúninum, prófasturinn byggir bjarnarhíði fyrir húninn og upphefur ástarsamband við líffræðinginn Sonju sem er flogin inn frá Helsinki til að fylgjast með lífsháttum bjarnarins og hefur mikinn áhuga á trúmálum. Þau flækjast með björninn til Kólaskaga og Hvítahafs, prófasturinn messar fyrir fólk og skógarbjörninn er hafður fyrir meðhjálpara, enda hefur hann bæði lært að spenna greipar og signa sig. Hann er líka í skóla hjá prófastinum sem heldur úti stífri trúfræðslu, ásamt kósakkadansi og fleiri nýtilegum faggreinum. En trú Huuskonen fer hrakandi, hann efast um allt sem hann hefur áður gert og boðað og er farinn að hlusta eftir hljóðum úr geimnum um líf á öðrum hnöttum og reyna að skilja þessi boð með aðstoð loftskeytatækninnar. Í loftskeytunum koma sömu tölurnar fyrir aftur og aftur, 2:4:14:6 og Huuskonen hugsar um þær á sínu langa ferðalagi og hvað alheimurinn ætli sér með hann og hans líf. Ferðalög þeirra og trúarbarátta prófastsins leiðir þá um langan veg til Svartahafs þar sem prófasturinn reynir götutrúboð í Ódessuborg og hleypir síðan upp þvertrúarlegri ráðstefnu á eynni Krít. Prófasturinn, björnin og Sonja líffræðingur komast síðan við illan leik úr sökkvandi skipi á Ermarsundi á leiðinni til Finnlands og snúa svo loksins heim. Það er einmitt þar sem Sonju tekst loksins að ráða í loftskeytin utan úr heimi. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að talan tveir vísi til Nýja testamentisins, fjórir til fjórðu bókarinnar Jóhannesarguðspjalls og 14 og 6 til kaflans og versins. Skjálfandi flettir prófasturinn upp í biblíunni og les upp boðin utan úr geimnum: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.
IV.
Fimmtíu ár eru stór hluti af einu mannslífi. Meira en helmingurinn. Meira en helmingur lífsins er liðinn og vel það.
Og samt líða þessi ár eins og andartak. Eitt augnablik er maður smákrakki á leið í barnaskóla í fyrsta sinn, unglingur í menntaskóla, foreldri í fyrsta sinn. Og svo vaknar maður einn góðan veðurdag fimmtugur og steinhissa yfir því hvað tíminn líður hratt. Við slíkar aðstæður er ekkert skrýtið þótt spurningar vakna um hið daglega brauð, um það sem er nauðsynlegt til þess að hver manneskja fái þrifist og verið glöð. Hvað er það daglega brauð sem ég bið um dag hvern Guð minn? Hvers þarfnast ég?
Þessi leit, þessar spurningar er það sem rekur prófast Huuskonen áfram í ferð hans um Hvítahaf og Svartahaf. Þær eru það sem gerir bók Paasaliina að trúarlegri bók sem í allri sinni súrrealísku fyndni fjallar um glímuna um hin æðstu gildi, það sem raunverulega skiptir mann máli. Á þeirri leið missir Huuskonen allt það sem áður var öruggt og einfalt við trúna, en uppsker eitthvað annað í staðinn sem gefur lífi hans gildi, gerir veröld hans stærri og þess virði að kanna hana nánar. Og niðurstaðan, versið sem Sonja les úr boðunum í geimnum og leysir dulmálið með aðstoð Biblíunnar fjallar um að Jesús Kristur sé vegurinn, ferðalagið sjálft sem þessi leit fjallar um. Sú trú, efi og lífsþrá eftir brauði lífsins og sem ferðalagið knýr á mörkum hins fáránlega er þannig stærri og dýpri en þrönga regluverkið sem Huuskonen hafði reynt að lifa í og passa inn í á fimmtíu árum fram að þessu.
Ég er brauð lífsins segir Jesús, brauðið sem er hold og orð og þekkir mannsins glímur. Hann þekkir villta bjarndýrið innra með okkur, sem við erum alltaf að reyna að temja og strauja skyrtur. Stundum tekst það ekki nógu vel og við eyðum öllu lífinu í að reyna að bæta um fyrir mistökin og byggja upp daglegt brauð öryggis og friðar. En sumum tekst líka helst til vel að temja björninn og birnuna innra með sér og passa inn í þann þrönga pappakassa sem lífi hans er skorinn. Og þá þurfum við Dára, villta sköpun í fimmtugsafmælisgjöf, því að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði.
Guð sem er brauð lífsins, harðfiskur og söl gefi okkur daglegt brauð, skógarbjörn og sköpun í afmælisgjöf og alla daga.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.