Það er dagurinn okkar í dag. Dagur kvenna um víða veröld. Dagur baráttu, dagur sigra og sorga. Dagur fortíðar, samtíðar og framtíðar.
Málefni kvenna í samfélaginu eru einnig sístæð á kirkjulegum vettvangi. Ég hef átt því láni að fagna að taka þátt í alþjóðlegu kvennastarfi á vegum Lútherska heimssambandsins. Síðustu ár hef ég verið formaður Norðurlandadeildar kvennastarfsins og tekið þátt í fundum og ráðstefnum með konum víða að úr heiminum.
Það er lærdómsríkt, gefandi og hvetjandi að hitta þessar systur okkar. Af tilefni 101 árs afmælis alþjóðlegs baráttudags kvenna ætla ég að deila nokkrum minningarbrotum um ógleymanlegar systur í trúnni á Jesú Krist.
Margret frá Botswana
Fyrst höldum við til Indlands, til borgarinnar Chennai, þar sem ég tók þátt í ráðstefnu árið 2004. Þar komu saman 14 konur úr öllum heimshornum. Sú elsta í hópnum hét Margret og var frá Botswana í Afríku. Þið sem þekkið söguna af kvenspæjara nr. 1 getið séð hana fyrir ykkur svona 30 árum eldri en spæjarinn í sögunni. Hún var lúin, svaf oft á fundum, dottaði jafnvel aðeins á fundinum sem hún stýrði sjálf!
Í guðsþjónustu fyrsta sunnudag í aðventu þar sem öskureiður indverskur prestur skammaði söfnuðinn úr prédikunarstólnum sat Margret og svaf. Ég dáðist að henni að sofa undir reiðilestrinum. Hún var svo hlý og það var stutt í dillandi gleði og galsafullan húmor.
Þegar hún frétti að ég ætti dóttur sem var nafna hennar kallaði hún mig alltaf mömmu. Við kvöddumst með þeim orðum að hún ætlaði að biðja fyrir litlu nöfnu sinni á Íslandi og ég ætlaði að biðja fyrir henni og segja dóttur minni frá henni. Ég bið fyrir henni og hugsa oft til hennar með hlýju í hjarta. Það var líka átakanlegt að heyra hana lýsa þeim hörmungum sem fylgdu útbreiðslu HIV/AIDS í heimalandi sínu. „Það er eyðnismitað fólk í öllum stöðum og stéttum,“ sagði hún, „það er smitað fólk í minni eigin fjölskyldu.“
Maria frá Þýskalandi
Í Bossey í Sviss hittust lútherskar konur haustið 2009 til að undirbúa heimsþingið í Stuttgart í júlí 2010. Þar hitti ég Mariu Jepsen, biskup frá Hamborg í Þýskalandi. Hún var fyrsta konan sem tók biskupsvígslu í lútherskri kirkju. Maria sagði okkur sögu sína. Hún fæddist í stríðslok, árið 1945 og ólst upp hjá einstæðri útivinnandi móður. Hún lærði guðfræði og latínu og vígðist til prestsþjónustu árið 1972. Hún hafði það að markmiði að starfa eins og venjulegur prestvígður karl. Biskupinn hennar bað hana að taka þátt í kvennastarfi kirkjunnar. Honum þótti kvennastarfið róttækt og hafði um það miklar efasemdir, en þar sem hann vissi að Maria stóð ekki fyrir róttæka stefnu í þessum málaflokki treysti hann henni til starfans. Hún lærði mikið af því að kynnast konum í ólíku samhengi. Hún skipti um skoðun og breytti um áherslur. Samkirkjuhreyfingin hafði mikil áhrif á hana. Maria hvatti okkur sem hlustuðum á hana til að vera vakandi og virkar í að styrkja samstöðu kvenna.
Maria var fyrsta konan til að verða prófastur í sinni kirkju. Seinna var hún beðin um að gefa kost á sér sem biskup. Maðurinn hennar hvatti hana eindregið til að stíga fram, annars yrði sagt að konur vildu ekki taka þátt, væru hlédrægar, kærðu sig ekki um að verða biskupar. Það fór svo að hún var valin.
Maria biskup var mjög hvetjandi. Hún brýndi okkur sem á hana hlýddum í Bossey. Brýning hennar um að við þurfum sem konur að breyta kirkju og samfélagi, að við þurfum að tala um fátækt, gefa minnihlutahópum rödd, tala um HIV/AIDS, tala um öll þau sem Guð elskar, hitti í mark. Við megum ekki þreytast á að tala um þetta, sagði hún. Börnin okkar eiga það skilið. Við þurfum að mæta ólíkum hópum, mismunandi skoðunum og ólíkum trúarbrögðum. Við þurfum að bera virðingu fyrir mismunandi aðstæðum á heimsvísu.
Solveig frá Noregi
Í ágúst 2008 var haldin í Skálholti norræn kvennaráðstefna. Það voru góðir dagar og ég var stolt af systrum mínum í þjóðkirkjunni sem héldu fróðlega fyrirlestra og önnuðust guðsþjónustu með Kvennakirkjunni.
Þarna vakti athygli mína Solveig Fiske, biskup frá Hamar í Noregi. Það gustaði af henni. Hún hélt góðan fyrirlestur, var skemmtileg og lífleg. Guðfræðin hennar byggði á einlægri trú frá barnæsku sem hún hafði nært og þroskað á leið sinni í gegnum háskólanám, lestur fræðibóka og þann skóla sem lífið býður uppá. Hún snerti strengi með því að tengja lífsreynslu og trúarreynslu í órofa heild. Hún féll engan veginn að þeirri staðalmynd af biskupi sem ég átti í fórum mínu. Klæðaburður og fas var frjálslegt og „öðruvísi“. Ég hitti hana aftur í Stavanger í Noregi á samsvarandi ráðstefnu í ágúst sl. Hún flutti fallega hugvekju undir berum himni þar sem hún aftur kallaði fram áhrif með einlægri trú og þeirri sýn að guðrfræðinni sé ekkert mannlegt óviðkomandi. Þá sagði ég við hana: „Ég hef ákveðið að gera þig að fyrirmynd minni í starfi“. Við fylgjumst með hvor annari á facebook og það er alltaf jafn uppörvandi að fá línur frá henni.
Áfram stelpur, stöndum saman!
Gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna 2011!