En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.Lk 2. 1 - 14
Algóði Guð og himneski faðir, í lotningu okkar og tilbeiðslu lútum við höfði fyrir barninu í jötunni og berum því gjafir okkar; barninu sem miðlar náð þinni og kærleika og vekur með okkur umhyggju og góðvild. Við berum fram reynslu okkar, minningar, sorgir og sársauka og biðjum um blessun, og að við fáum að verða til blessunnar.
Gleðileg jól.
Jólin umvefja okkur enn á ný helgi sinni, friði sínum og fögnuði. Klukkurnar hafa hringt og heilagt jólakvöld er gengið í garð og hin helga nótt er framundan. Senn verður allt hljótt og sveipað helgri kyrrð.
Nú megum við ganga inn fjárhúsið og horfa, lítast um og hlusta. Fótatök fjöldans fyrir utan hverfa í kvöldkyrrðinni, skarkalinn hverfur með rökkri kvöldsins og dimmu næturinnar. Inni fyrir er hlýtt og fagurt um að lítast. Kuldi næturinn nær ekki inn fyrir. Kertaljós á hlöðnum leirveggjum lýsa blíðlega upp rökkrið. Það má heyra uxa blása úr grön, og við hlið hans má sjá ansa rýta. Lömb jórtra í kró þétt saman. Allt er stillt. Fólk kemur og fer. Ókunnugt fólk. Sumt er komið langt að. Það gengur hljóðlega inn, nánast eins og það megi ekki. Eftirvæntingin skín úr augum þeirra, undrun og gleði móta svipbrigði þeirra og fas. Það lítur í kringum sig og leitar. Það sér birtu stafa frá einu horni þessa fátæklega fjárhúss og gengur þangað.
Ætli þetta sé raunsönn lýsing? Kannski er hún það ekki. Ég á ekki fjárhús eins og sumir hér. En það skiptir heldur ekki máli. Í huga mínum gerðist það svona. Fyrstu jólin í Betlehem. En jólin eru ekki með einu ákveðnu sniði né heldur koma þau í ákveðnum umbúðum – þó vissulega séu kröfurnar um það orðnar ískyggilega miklar í dag. Það er engu að síður misjafnt hvernig fólk hagar jólunum sínum og ólíkt með hvaða hætti það býr um jólin í lífi sínu. En þegar spurt er um það, hvernig jólin vilja búa um sig í þínu lífi, hvernig þau vilja láta búa um sig, ef þannig má til orða taka, og hvaða áhrif þau vilja hafa á þitt líf, þá er því eins farið með alla, og svarið er það sama, og skiptir þá engu hver þú ert eða hvaðan þú ert, eða hvernig þú heldur upp á jólin þín. Boðskapur jólanna er ætlaður öllum. Það minna blessaðir hirðarnir okkur á og vitringarnir líka. Guð á erindi við alla, þá sem smæstir eru og þá hæstu, við fátæka og hrjáða, við konunga og valdsmenn, og alla þar á milli. Guð fer ekki í manngreinarálit. Guð á erindi við þig. Hann vill finna þig á þessu kvöldi. Hann kallar allan heiminn til sín í kvöld, allt fólk, alls staðar að í heiminum. Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jólin eru ferðalag. Það ferðalag endar ekki í fjárhúsi heldur byrjar þar. Þar byrja jólin og því þar liggur barnið.
Ég bið ykkur öll að nota ykkur þessi jól og ganga inn í fjárhúsið og hlusta. Ekki á uxa blása úr grön, ekki á asna rýta eða á lamb að jótra í kró. Nei! Hlustaðu á andardrátt barns – hlustaðu eftir andardrætti barnsins í jötunni sem fyllir hjarta þitt friði og ró. Og hlustaðu því næst á þitt eigið hjarta og opnaðu það fyrir áhrifum kærleika og ljóss, náðar og friðar. Láttu jólin þín ekki grundvallast eingöngu á góðum og gildum hefðum heldur ljúktu upp hjarta þínu og taktu á móti blessun jólanna. Lofaðu Jesú Kristi að fæðast sem trú í hjarta þínu þessi jól. Lofaðu Jesú Kristi að fæðast sem von í hjarta þínu þessi jól. Lofaðu Jesú Kristi að fæðast sem kærleikur í hjarta þínu þessi jól. Þessi jól. Núna á þessari stundu. Finndu áhrif hans í kvöld og í nótt.
Og lofa þú jólunum að vara í huga þér og hjarta. Ekki sem nokkra afmarkaða daga á ári, ekki aðeins sem vettvang hefða og siða, veislumatar og skrauts, heldur sem lífsafstöðu, sem hugafar, sem viðhorf er mótar og grundvallar orð þín og verk, hugsun þína og breytni – allt þitt líf. Að baki jólanna er veruleiki sem kallar til meðvitundar og verka. Miðaðu því jólin þín ekki við það sem þú vilt gera úr þeim heldur við það sem jólin vilja gera úr þér, ekki við það sem þú ætlar jólunum heldur það sem jólin ætla þér. Sá vegur sem liggur frá fjárhúsinu í Betlehem er vegur lífsins í þessum heimi. Á þeim vegi vill Guð leiða þig í Jesú Kristi. Hann vill kalla fram kærleika og frið í hjarta þínu, því aðeins sá sem á kærleika og frið í hjarta getur kallað fram það sama í hjörtum annarra.
Í mínum huga hefur boðskapur jólanna ætíð rúmast í einu orði – friður. Þetta er lítið og smátt orð í samanburði við þá merkingu sem því er ætlað. Friður á jörðu með mönnum sem Guð hefur velþóknun á. Kærleikur, ljós, náð og trúfesti mætast í einu og sama hjarta og skapa frið, frið hið innra og frið hið ytra, frið á himnum og frið á jörðu. Það er vettvangur jólanna, vettvangur helginnar og kyrrðarinnar. Ekki bara þarna uppi á himnum, ekki bara hér hjá okkur á jörðinni, heldur þar sem himinn og jörð mætast, þar sem Guð og maður finna hvorn annan. Þar sem Guð mætir manninum og þar sem maðurinn leyfir sér að finna Guð. Þar er jólin að finna. Það er hægt að halda jólin alls staðar en þó ekki annars staðar.
En þó að það ríki friður og kyrrð okkar á meðal í kvöld, hér í þesari litlu og fallegu Hofsósskirkju, þá vitum við að hjarta þessa heims er órótt. Kvíði og ótti sækir að fólki um víða veröld, já nær okkur en við kannski vitum. Fólk líður og þjáist af svo margvíslegum orsökum í dag. Svo margir óttast morgundaginn, jafnvel líðandi stundu. Friður er munaður í heimi styrjalda og átaka, í hinum tæknivædda og vélræna heimi þar sem lögmál hjartans virðist of oft nauðbeygð undir lögmál kaldrar skynsemi – í heimi þar sem maðurinn týnir Guði og verður þannig af hluta af mennsku sinni, týnir sjálfum sér og einnig náunga sínum. Inn í þennan heim tala jólin. Inn í heim ótta og átaka, kvíða og óróa.
Á þverstæðukenndan hátt er oftar en ekki að finna raunsanna lýsingu á boðskap jólanna þegar horft er til þeirra aðstæðna sem erfiðastar eru, því stærsti sigurinn vinnst iðulega í miklum vanmætti; og háleitustu hugsjónir og fegurstu vonir mótast ekki síst í deiglu þjáninga, ranglætis og mótlætis.
Þegar jólin nálgast, þegar ég er að hugleiða boðskap jólanna, kemur mér iðullega til hugar eitt skelfilegasta tímabil mannlegrar sögu.
Fyrri heimsstyrjöldin hafði aðeins geysað í fáeina mánuði. Þó var strax ljóst um þvílíka hörmung var að ræða enda mannfallið meira en áður þekktist í sögunni. Nýttar voru tækninýjungar sem gáfu orðunum stríð og hernaði alveg nýja merkingu. Hermenn voru fastir í skotgröfum, kaldir og blautir og aurugir upp fyrir haus. Skothríð lýsti upp himininn dag og nótt, líkt og óteljandi stjörnur féllu af himni. En á vígvöllum Frakklands, á stað þar sem dauði og hörmungar voru daglegt brauð, gerðist dálítið einstakt og óvænt á vesturvígstöðvunum á aðfangadegi jóla árið 1914, eitthvað sem engað óraði fyrir að gæti gerst.
Breskur hermaður lýsir viðburðinum í bréfi til systur sinnar:
„Klukkan er tvö og mennirnir eru flestir sofandi. Ég gat ekki sofnað fyrr en ég hafði sagt þér frá þeim dásamlegu viðburðum sem gerðust hér að kvöldi aðfangadags. Það er í raun ævintýri líkast og ég hefði ekki trúað því hefði ég ekki verið hér sjálfur. Ímyndaðu þér bara. Á meðan þú, mamma og pabbi, sunguð jólalög fyrir framan arineldinn heima, þá gerði ég það sama með óvinunum hér á vígvöllum Frakklands.“
Breski hermaðurinn segir ennfremur frá því að framan af aðfangadegi hafi lítið verið skotið af byssum og þegar myrkur færðist yfir og jólanóttin gekk í garð þá hafi skothljóðin þagnað, algjör þögn færðist yfir vígvöllinn. Síðar um kvöldið þegar hermaðurinn svaf í kaldri holu sinni var hann skyndilega vakinn af félaga sínum sem bað hann að líta upp og sjá hvað var að gerast.
„Aldrei gerði ég mér vonir um að sjá jafn yndislega sýn, segir hermaðurinn. Þyrping af örsmáum ljósum blöstu við og skinu skært eftir endilangri víglínu þýska hersins, frá hægri til vinstri, eins langt og augað leit.“
„Hvað er þetta?“ spurði hermaðurinn af mikilli undrun. „Þetta eru jólatré“ sagði félagi hans. „Þetta eru jólatré!“
„Og þannig var það að þýsku hermennirnir höfðu sett upp jólatré framan við skotgrafirnar sínar, lýst þau upp með kertum sem verkuðu eins og vonargeislar á þá sem fylgdust með úr fjarlægð.“ „Og því næst,“ segir hermaðurinn frá, „heyrðum við þýsku hermennina syngja saman úr fjarska ókunn jólalög. Nokkrir gátu þýtt hendingar úr lögunum: Heims um ból, helg eru jól . . . “
Innan skamms tóku bresku og frönsku hermennirnir að syngja sín eigin jólalög og áður en langt um leið fundu hermennirnir samhljóm þarna á vígvelli fyrri heimstyrjaldarinnar. Þeir fundu samhljóm jólanna og skriðu einn og einn upp úr skotgröfunum, hraknir og kaldir, aurugir og stríðshjráðir, og mættust á því einskismannslandi sem skildi þá að. Þeir yfirstigu allt það sem greindi þá að. Þeir lögðu til hliðar hatrið og óvildina, lögðu niður vopn sín og mættu hver öðrum, náunga sínum, og áttu saman helga stund. Þarna á vesturvígstöðvunum áttu þeir helga jólastund, skiptust á kveðjum og sungu saman jólalög, þó ekki væri nema um skamma hríð.
Þó hér sé um aðra velli að ræða en Betlehemsvelli jólaguðspjallsins ímynda mér alltaf að yfir höfði hermannanna hafi glitrað í stjörnur himinsins þar sem englar Guðs fylgdust með og tóku undir: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.
Þessi saga er lyginni líkust. En samt er hún dagsönn. Og það er líka frásögn jólaguðspjallsins sem við heyrðum hér áðan. Engin frásögn getur kallað fram viðlíka kenndir og frásagan af fæðingu Jesúbarnsins í Betlehem. Ekkert getur endurspeglað jafn mennska mynd og jafn fagrar vonir og væntingar og litla barnið í jötunni, né heldur kallað fram jafn einlægan vilja hjá fólki til að bæta sjálft sig og umhverfi sitt. Jólin bera manninum vitni um það hvernig hann getur verið, þau sýna okkur hvað getur orðið þegar maður og Guð mætast og þegar við leyfum Guði að ráða för hjarta okkar. Það er erindi jólanna, boðskapur þeirra í sinni tærustu mynd, boðskapur um frið og kærleika milli manns og Guðs og manna á meðal. Og ef þetta erindi nær til þín, þá getur hið ómögulega gerst, rétt eins og á stríðsvöllum fyrri heimstyrjaldarinnar á aðfangadegi árið 1914. Ef við berum Guði vitni með lífi okkar og göngum fram eins og hann vill þá lifum við hvern dag sem jól og lofum Jesú að fæðast að nýju inn í okkar lífdag hvern. Það er náð og friður.
Lítum því í huga til Betlehems þessi jól. Lítum inn í fjárhúsið til að sjá barnið sem liggur þar í jötunni. Förum og veitum því lotningu okkar og finnum því í hjarta okkar litla jötu að hvílast í þessi jólin. Jesús Kristur er nærri. Hann er hér og kallar til þín. Hans sé dýrðin um allar aldir og megi friður hans, sem er ofar öllum skilningi, varðveita hjarta þitt og hugsanir. Í Guðs nafni. Amen.