Átakanleg tíðindi berast af átakasvæðum þar sem ófriðareldar loga. Frá Írak birtast þau daglega á sjónvarpsskjám. Orrahríð í Líbanon var aðal fréttaefnið meðan hún stóð yfir. Fjöldi manns lá í valnum og óskilgreind örkuml, limlestingar og eyðilögð mannvirki hlutust af. Sjónvarpsmyndir lýsa þessum hörmungum á ytra borði en sýna ekki sársauka og sálarkvöl, meiðsli og missi, örvæntingu og eymd sem rista dýpst. Margvíslega er unnið að því að slökkva bál og leita sátta en það er vandaverk ekki síst ef reynt er að hindra sáttaviðleitni og friðarverk. Átök eru sjaldan staðbundin; áhrifaaðilar gæta að hagsmunum sínum úr öruggum fjarska en koma ekki fram á sjónarsviðið. Látið er í veðri vaka að allt sé gert til að slökkva bál þótt staðið sé í vegi fyrir því að vopnahlé komist á. Fátt er eins og sýnist vera þótt fréttamyndir séu sláandi og hræri við fólki. Kafa þarf undir yfirborð og gæta að rótum, huga að samhengi minninga og menningar, skilja tilfinningar ótta, tortryggni og haturs og félagslegar aðstæður og kjör, greina strauma og áhrifavalda til þess að fá heildarmynd af ástandi og aðstæðum á átakasvæðum. Sáttasemjarar í flóknum deilum verða að hafa slíka þekkingu og skilning og vera marktækir og trúverðugir í sáttaviðleitni sinni.
Dr. Raymond Helmick, bandarískur prestur, Jesúíti og guðfræðiprófessor er einn þeirra. Hann hefur í áratugi unnið að því að kveða niður ágreining og deilur þjóðarbrota og trúarhópa. Hann vann árum saman að sáttaumleitunum milli stríðandi fylkinga á N- Írlandi sem fulltrúi virtra friðarsamtaka og átti hlut að því að móta sáttaferli þar er miðar að því að lækna djúp trúar- og þjóðfélagsmein. Hann hefur unnið áþekk verk í fyrrum löndum Júgóslavíu og oft reynt að draga úr ófriðareldum í Landinu helga og komið við sögu í mótun endurreists þjóðfélags í Suður Afriku með þeim Nelson Mandela og Desmond Tutu erkibiskupi og víðar lagt leið sína þangað sem þörf hefur verið á glöggri þekkingu á mannlífskjörum og sáttastarfi.
Dr. Helmick hefur ritað bækur um reynslu sína af átökum og sáttastarfi. Why did Camp David fail? Hvað fór úrskeiðis í Davíðsbúðum? nefnist ein þeirra. Ásamt dr. Rodney Petersen, forstöðumanni Guðfræðistofnunarinnar í Boston, Boston Theological Institute ritstýrði hann ritverki sem út kom fyrir fáeinum árum: Forgiveness and Reconciliation, ,,Fyrirgefning og sáttargjörð" sem geymir fjölda greina málsmetandi fræðimanna. Þeir Helmick og Petersen hafa náið samstarf sín á milli. Fræðileg vinna og rannsóknarstörf í þeim níu háskólum er standa að Guðfræðistofnuninni í Boston hafa verið faglegur bakhjarl grunnhugmynda og aðferða sem Helmick hefur fylgt í friðarstarfi sínu og Petersen hefur tekið þátt í.
Fyrrahaust heimsóttu prófastur og prestar úr Kjalarnessprófastsdæmi Guðfræðistofnunina í Boston og kynntu sér starfsemi hennar og nutu leiðsagnar þessara merku manna og gefandi samskipti hafa myndast við stofnunina. Föstudaginn nk. 22. september verður haldin opin ráðstefna í Hafnarfjarðarkirkju í boði Kjalarnessprófastsdæmis um sáttaumleitanir og sáttaferli á átakasvæðum. Þar munu dr. R. Helmick og dr. R. Petersen flytja röð fyrirlestra.
Ráðstefnan hefst kl. 09.45, en safnaðarheimilið Strandberg opnar kl.9 með léttum morgunverði. Félagslegt sáttaferli verður kynnt en síðan fjallað um fjögur lykilhugtök í máli og myndum: Fyrirgefningju, sáttargjörð, réttlæti og samfélag. Rætt verður um niðurrifsáhrif trúarbragða og uppbyggileg áhrif þeirra. Trúarbrögð eru þess eðlis og snerta mannlíf og lífsgildi svo mjög að auðvelt er að misbeita afli þeirra og jafnvel öndvert áherslu- og kjarnaatriðum þeirra. Það líkist því að flugvélum sé rænt og þeim flogið annað en að var stefnt í upphafi ferðar. ,, Trúarbrögðin þurfa að fara í hreinsun, svo að gildi þeirra og fegurð, sem hulin eru óhreinindum, komi fram," segir dr. Helmick. Trú sem miðar að friði og réttlæti getur ekki samræmst árásargirni og hernaðarhyggju. Skynsemi og raunsönn trú fara saman enda er Guð, tilverugrunnurinn, samkvæmt heimstrúarbrögðum forsenda skynsemi og raka, ,,Logos" og ljósið í tilverunni og trúin vegferð í ljósi hans.
Það eru nú réttir tveir áratugir frá því að þjóðarleiðtogar í austri og vestri, Gorbatsjov og Reagan, hittust hér á landi á sögulegum leiðtogafundi, sem hafði mikil áhrif til umskipta í austri og falls ríkisrekins kommúnisma í álfunni, en ófriðareldar loga samt svo víða.
,,Tuttugasta og fyrsta öldin verður öld trúarinnar annars endist henni ekki aldur." Þessi orð André Malraux menningarmálaráðherra Frakka eru spámannleg. Trúarbrögð mannkyns verða þó því aðeins bjargvættur andspænis ógnum og voða að þau sameinist til þess að vernda mannlíf og lífríki og máttur þeirra nýtist til að vinna af alúð og skynsemi að bættum heimi. Ráðstefnan nk. föstudag í Hafnarfjarðarkirkju um sáttastarf á átakasvæðum miðar að því.