Þjóðin er að ganga í gegnum mikilvægt en sársaukafullt samtal þessa daga sem hvert mannsbarn hefur orðið vart við. Við erum í óðaönn að ræða veruleika kynferðisofbeldis gagnvart börnum.
Morgunblaðið lagði mikilvæg lóð á þær vorgarskálar síðasta fimmtudag (16.1.) er það greindi frá rannsókn Sigrúnar Sigurðardóttur lektors við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri sem ber heitið Þegar líkaminn tjáir það sem við komum ekki í orð. Sigrún vann ítarlega rannsókn á einni persónu sem frá barnæsku lifði við ítrekað langvarandi kynferðisofbeldi af hálfu föður, stjúpföður, frænda og líka föður vinkonu sinnar. - Þegar ég sá hve líkamlegu áhrif voru algeng og hversu sterkt þau komu fram vaknaði áhugi minn á að vinna meira með það, segir Sigrún. Hún segir það enga tilviljun að sumir verði fyrir síendurteknum áföllum sem þessum eftir að hafa orðið fyrir því í æsku að mörkin séu brotin. - Þeir sem verða fyrir svona miklu áfalli að búið er að brjóta mörkin þeirra, verða varnarlausir. Ef þeir fá ekki hjálp við að setja mörkin aftur og stjórna hverjum þeir hleypa að sér, þá eiga allir greiðan aðgang að þeim, segir Sigrún. Og er hún gerir grein fyrir niðurstöðum sínum telur hún upp fjölmarga kvilla og áhættuþætti sem þolendur kynferðisofbeldis standa berskjaldaðir gagnvart. Þar má nefna, kvíða, félagsfælni sem þróast getur yfir í offsakvíða og þunglyndi. Auk andlegar vanlíðunar koma gjarnan líkamlegir kvillar; þreyta, óútskýrðir verkir sem orðið getra langvinnir, vefjagigt, meltingarfæravandamál, svefnvandamál og fleira. Þá kemur að sögn Sigrúnar sterkt fram hjá konum með svipaða reynslu og viðmælandi hennar af kynferðisofbeldi í æsku að þær fá ítrekað kynsjúkdóma. Konan sem hún rannsakaði þjáðist m.a. af bólgum í eggjaleiðurum, blöðrum á eggjastokkum, langvinnum verkjum í móðurlífi allt frá unglingsárum og síðar krabbameini í móðurlífi. Og álítur Sigrún að rekja megi þá hrakfallasögu til þess ofbeldis sem hún lifði við í uppvexti sínum. Þannig leggur Sigrún fram ljósar vísbendingar um það sem flestum er vonandi að verða ljóst að sá sem ræðst kynferðislega að barni er beinlínis að leggja líf þess og heilsu í hættu auk þess að grafa undan hæfileika þess til þess að lifa í heilbrigðum tengslum. Skuggar kynferðisofbeldis eru langir og þeir varpast út á mannsævina eins og hún leggur sig, einkum ef lifað er við varanlega þöggun og skömm.
Nú erum við öll að spyrjast á og leita svara hvernig koma megi í veg fyrir að slíkt þrífist í samfélagi okkar. Í máli Karls Vignis Þorsteinssonar sem mest hefur verið í umræðunni blasir við að hundruðir vissu en fáir brugðust við. Þessi tiltekni maður náði að lifa í meira en fimmtíu ár líkt og blindsker í mannhafinu og ótalin eru mannslífin sem sködduðust og jafnvel týndust vegna þess að samfélagið gat ekki brugðist við því sem það vissi. Hvernig getum við gengið út úr meðvirkninni með gerendanum og undið ofan af þöggunarmenningunni sem enn umlykur veruleika barnaníðingsins á meðal okkar?
Guðspjall dagsins, sagan af ummyndun Jesú á fjallinu sem skráð er í 9. kafla Markúsarguðspjalls er margslungin frásögn en ég held því fram að höfuðefni kaflans í heild sé einmitt umræðan um barnaníð og svarið við því.
Nánustu lærisveinar Jesú, þeir Pétur, Jakob og Jóhannes eignast djúpa andlega reynslu á fjallinu sem lýst er með hugtökum helgisagnarinnar, - þar er yfirnáttúrulegt ljós, ólýsanlegur þungi helgrar nærveru og rödd sem talar til þeirra úr skýi – og þegar þeir opna augun sjá þeir Jesú einan. Þeir fylgja honum niður af fjallinu. Allt umhverfið er orðið sjálfu sér líkt að nýju en þeir eru breyttir menn. Sagan er ekki sögð til að lýsa því sem gerist á fjallinu, - það vita þau sem þangað koma – heldur er hún til að staðfesta þá kristnu vissu að andleg reynsla er ekki tilefni til þess að tjalda, líkt og Pétur lagði til. (v.6) Nei, andleg reynsla er ekki gefin til þess að fólk staðnæmist þar, heldur til þess að við megum hafa kjark til að fylgja Kristi ofan af fjallinu og inn í veruleikann eins og hann er í heiminum. Og það er ekki tilviljun að fyrsta persónan sem gengur fram á sviðið þegar þeir koma til byggða er skelfingu lostinn faðir með veikan son sem hefur alls kyns óskiljanleg einkenni og mannfjöldi eru í uppnámi í kringum barnið og það liggur ásökun og deila í loftinu alveg eins og hjá okkur í dag. - Um hvað eruð þið að þrátta spyr Jesús, og orðrétt segir: Einn úr mannfjöldanum svaraði honum: Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað.
Heyrum skilaboðin um eðli barnaníðs sem hér eru falin í 2000 ára gömlum texta en eru um leið svo augljós. - Ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað, segir faðirinn. Er það ekki einmitt svo? Barnungur þolandinn getur ekki talað svo að þögnin sest að og verður að álögum. - Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Heldur faðirinn áfram. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ - Óskiljanleg einkenni sem hræða, áfallastreita, hegðunarraskanir, líkamlegir kvillar og fullkominn vanmáttur til að hjálpa. Og ekki skyldi okkur koma á óvart að maðurinn kvarti sérstaklega undan lærisveinum Jesú að þeir skuli ekkert geta í þessu máli.
Sjaldan missir Jesús þolinmæðina í guðspjöllunum en þarna brestur hún er hann svarar og hrópar upp yfir sig: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“ (v.19)Nokkru síðar í frásögninni, þegar Jesús svo hreinsar út úr lífi drengsins anda þöggunarinnar og skammarinnar segir svo: Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ – Gunnar Hansson leikari talaði um þetta í Kastljósþættinum fræga. Þessa sterku tilhneigingu sem í okkur er til að tala um sálarmorð á börnum í tengslum við barnaníð. Við tönnlumst líka á hugtakinu fórnarlamb. Þannig hættir okkur til að afskrá þolendur barnaníðs og úrskurða þá látna. - En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur, segir guðspjallið. Hann stóð á fætur. Þarna er þolandinn orðinn að sjálfstæðum geranda í eigin tilveru. Þessi fjögur orð undirstrika hvað getur gerst þegar sá sem þolað hefur kynferðisofbeldi er leystur undan álögum þagnarinnar og honum rétt höndin - Hann stóð á fætur.
Orðrétt segir: Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“ Þeir héldu nú brott þaðan og fóru um Galíleu en Jesús vildi ekki að neinn vissi það því að hann var að kenna lærisveinum sínum. (v.28-31) Já, kirkja Krists verður að læra. Hún þarf að kunna að takast á við barnaníð. Og ásökun samfélagsins á kirkjuna, sem einhverjum kann að virðast úr hlutfalli við annað í máli Karls Vignis, er rétt og eðlileg því þetta kyn verður ekki rekið út nema með bæn og ef kirkjan ber ekki skynbragð á það og kann ekki það sem hún á að kunna þá fölnar vonin. Veruleiki kynferðisofbeldisins liggur svo djúpum rótum í menningu okkar að hann breytist ekki nema við breytumst. Svarið við barnaníðinu er að finna á fjalli ummyndunarinnar.
Ég var þakklát(ur) viðbrögðum sr. Sigurðar Jónssonar í Áskirkju þegar spjótin snéru að honum og söfnuðinum um daginn að hann gerði ekki minnstu tilraun til að varpa sök á einn né neinn þótt það hefði verið svo auðvelt frá mannlegu sjónarmiði, heldur tók hann ásökuninni í auðmýkt. Þar fer prestur sem skilur hlutverk sitt og er reiðubúinn ásamt söfnuðinum að læra.
En sagan heldur áfram og guðspjallið varpar gagnlegu ljósi á getuleysi postulanna: Þegar þeir voru komnir inn spurði Jesús þá: „Hvað voruð þið að ræða á leiðinni?“ En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni hver væri mestur, útskýrir guðspjallamaðurinn. (v.33-34) – Í andrúmslofti ásökunar og óvissu er lang auðveldast að verja bara sjálfan sig, bera sig saman við aðra og benda á aðra. Og við sjáum að það er nákvæmlega pytturinn sem félagarnir húrra ofan í. - Jesús settist niður, kallaði á þá tólf og sagði við þá: „Hver sem vill vera fremstur sé síðastur allra og þjónn allra.“ Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá: „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“ (v. 35-37) Í stað þess að horfa til sakar og skammar, í stað þess að vega, meta og dæma hvert annað, þá hvetur Jesús okkur til þess að líta á börn sem fyrirmyndir okkar og meðtaka þau á sínum eigin forsendum. Þá erum við að taka á móti Guði sjálfum, lífinu sjálfu.
Og þá kemur ræðan sem aldrei er lesin upphátt í kirkjum, af því að hún er svo svakaleg. Ávarp Jesú til barnaníðinga allra tíma fylgir hér í kjölfarið og sjáðu fyrir þér Jesú þar sem hann situr með barnið í fanginu sínu og segir: „Hverjum þeim sem tælir til falls einn af þessum smælingjum sem trúa væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn. Ef hönd þín tælir þig til falls þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki. Ef fótur þinn tælir þig til falls þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.Og ef auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki... Saltið er gott en ef saltið missir seltuna, með hverju viljið þið þá krydda það? Hafið salt í sjálfum ykkur og haldið frið ykkar á milli.“ (v.42-50)
Enn í dag er salt notað til að varðveita matvæli frá skemmd. Hafið salt í sjálfum ykkur segir Jesús, varðveitið lífið frá skemmd með því að virðingin fyrir barninu og æsku þess búi í ykkar eigin hjarta.
Hvert er þá svarið við barnaníðinu? – Á fjalli ummyndunarinnar munt þú skilja að þú ert það svar. Vert þú svarið í eigin lífi, eigin umhverfi. Hafðu salt í sjálfum þér og vert þú verndari barnsins. Amen
(Texti: Markúrsarguðspjall 9. kafli)