Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!En hinn ávítaði hann og sagði: Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi? Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst.
Þá sagði hann: Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt! Og Jesús sagði við hann: Sannlega segi ég þér:
Í dag skaltu vera með mér í Paradís. Lk.23. 39 – 43
Þá hrörnar sjónin, heyrn og mál, mig heyra lát það innst í sál af vinarvörum þínum, hve himnaríkið indælt er, og að þú hafir búið mér þar vist og vinum mínum.
Ó, Drottinn, nær sem dauðans hönd frá dufti mínu skilur önd, mig lykja láttu hvörmum sem barn við móðurbrjóst og fá þann blund, er værstan hljóta má, í þínum ástarörmum. Sb, 423, v. 5 -6.- Helgi Hálfdánarson
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Hér á öldum áður var venja að hafa lítinn ljóra fyrir ofan predikunarstólinn í kirkjum þessa lands, þar sem hann stóð öfugt við almenna venju með öðrum þjóðum sunnan megin í kirkunni. Þetta var gert til þess að sólarljósið gæti hjálpað prestinum að stauta sig fram úr predikuninni, en í yfirfærðri merkingu til að varpa ljósi á Guðs orð í textum dagsins.
Í sumum krossfestingarmyndum kirkjunnar frá fyrri öldum má sjá með hliðstæðum hætti ljóra eða opinn glugga á himinfestingunni fyrir ofan illvirkjann sem er Kristi til vinstri handar, og er þá sunnanmegin þegar myndin hangir á austurveggnum. Þessi gluggi hefur furðað margan manninn og ekki síður þegar þar út um gægjast lítil englanef og augu. Áður en við horfum þangað upp í dag á föstudaginn langa, beinum við sjónum að Golgata. Þrír eru krossarnir á Golgatahæðinni.
Kristur var krossfestur á milli tveggja ræningja. Með þeirri ráðstöfun uppfyllti Pílatus spádóm Jesaja sem við heyrðum lesinn hér áðan: hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum. (Jesaja 53:12) Líkast til var Pílatus þó ekki viljandi að uppfylla spádóminn, heldur vildi hann hafa sama háttinn á í þetta sinn sem endranær og krossfesta nokkra saman, og gera þannig engan greinarmun á þeim sem hann þó kallaði sjálfur með áletrun sinni, konung gyðinga.
Kæri söfnuður, hér skammt undan merkustu hæð í sögu lands og lýðs, erum við minnt á að krossarnir voru þrír.
Krossar voru bornir hér við kristnitöku í skrúðfylkingu hins nýja safnaðar kristni á Íslandi og ef marka má frásagnir voru tveir reistir við Lögberg og látnir standa þar og minnti annar á Ólaf konung Tryggvason, en hinn á Hjalta Skeggjason. Engum sögum fer af hinum þriðja. Kannski var það guðspjallabókin sjálf. Kristur í orði sínu.
Sjö eru orð Krists á krossinum og geymd í guðspjöllunum. Þessi orð hafa frá því fyrsta notið mestrar virðingar allra orða hans sem varðveist hafa í kristninni. Guðspjallamennirnir Markús og Mattheus hafa einungis tilvitnunina í sálm 22. : Elí, Elí, lama sabaktani, - eða Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig. Þeir skilja okkur eftir með þá spurningu hvort þetta hafi virkilega verið síðustu orð Jesú. Þeir segja að vísu báðir að Jesús hafi kallað upp hárri röddu áður en hann gaf upp andann, en þeir segja ekki hvað það var sem hann kallaði.
Lúkas og Jóhannes geyma hvor um sig önnur sex orð Krists. Orð Jóhannesar heyrðum við í guðspjallslestrinum, en sérstakasta orðið og um margt það sem erfiðast er að skilja eða útleggja er það orð sem Lúkas geymir og Jesús mælir til annars illvirkjans. Í dag skaltu vera með mér í Paradís.
Á milli þessara tveggja sem sagngeymdin kallar illvirkja, endar jarðvistarsaga Jesú Krists.Hann var talinn með illvirkjum. Svo einmana og og svo yfirgefinn er Guð í þessum heimi.
Frammi fyrir ásjónu dauðans ræða þeir saman þessir þrír deyjandi menn. En ólík eru viðbrögð þeirra. Annar illvirkjanna tekur undir háð og spott og svívirðingar vegfarenda: Ef þú ert Kristur, bjarga þú sjálfum þér og oss. Hann er væntanlega gyðingur, annars myndi hann ekki tala um Krist, eða Messías.
Spottið er ódýrasta og og forkastanlegasta aðferðin til að draga sig undan áhrifum hins heilaga. Spott er tákn um hugleysi, og hugleysið er gríma óttans.
Ef maður vill ekki horfast í augu við alvöruna, og ver sig gagnvart henni þegar hún smýgur gegnum merg og bein, gerir maður athugasemd sem lítur út fyrir að eiga að vera grín eða brandari, og merkir: Ég læt mér þetta í léttu rúmi liggja. En einmitt það verður hinum illvirkjanum tilefni til að ávarpa hinn fyrri og áminna hann Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi? Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst. Guðspjallið segir um háðfuglana: Þeir lastmæltu Kristi.. Þegar háðið hafnar hinu heilaga, þá er hinum heilaga lastmælt.
Martin Luther segir í predikun um þennan texta: Það er nú eitthvað alveg sérstakt sem hendir þennan illvirkja. Þetta getur ekki komið fyrir hvern sem er..
Og af því að Lúther var að tala við fólk sem vel þekkti klausturlífið og reglurnar sem munkar og nunnur sögðu sig undir, þá sá hann í samtali Jesú við illvirkjann, ákveðna aðferð, eða reglu. Og svo sagði hann:
Að vér svörum: Annað hvort ferð þú eftir þessari reglu, eða engin regla hjálpar þér. Fyrst verður að koma fyrirbæn Krists, síðan verður þú að játa því að þú sért syndari, í þriðja lagi verður þú að viðurkenna að þjáning þín og þraut sem þig hendir, hana eigir þú skilið, í fjórða lagi verður þú að beina augum þínum til Jesú Krists og hans eins. Þá fylgir í fimmta lagi fyrirheitið: I dag skaltu veru með mér í Paradís.
Og síðar segir Lúther: Fyrirheitið er uppfyllt strax, án yfirbótar, án þess að hafa til þess unnið með nokkrum verkum sínum. Hlutskipti hans er Paradís strax , af því að hann er gyðingur í merkingunni, maður sem játar. Og sá sem talar við hann er konungur gyðinga. Þannig virkar titillinn konungur gyðinga tafarlaust. á krossinum.
Vér eigum því fyrirmynd í illvirkjanum, sem er þessi: Af því að hann treystir Kristi einum, gildir það fyrir oss að játa sig til frelsins með öllum sínum syndum og treysta eingöngu á náðina. Það gengur illa fyrir hinn náttúrulega mann, en þannig játningu gaf illvirkinn og hún er til fyrirmyndar því að hún er full af huggun fyrir allan þennan heim.
Þetta sagði Marteinn Lúther, eða nokkurnvegin svona.
Glugginn á himinfestingunni er til þess að minna á þennan möguleika, að vera í dag með Kristi í Paradís, - svo skyldi líka ljósið sem fellur á predikunarstólinn í kirkjunni, hvort sem það kemur gegnum ljórann á þekjunni eða með ðrum hætti, minna á hið sama, og um það munum við enn frekar hugleiða hér í kirkjunni upprisumorguninn.
Í dag í Paradís. Hvar ertu þá? Paradís er fullkomin nærvera Guðs. Paradís er er veröld þar sem Guð er viðmælandi þinn og ávarpar þig. Það er staðurinn þar sem maðurinn þarf ekki lengur að fela sig bak við runna eins og Adam forðum, þegar hann hafði brugðist trausti Guðs hið fyrsta sinn. því Kristur hefur endurheimt guðsbarnaréttinn. Og í dag?
Í dag, skilur enginn til fulls. En það má segja það sem svo: Í dag er Kristur á krossinum. Í dag er Kristur í gröfinni. Í dag ertu með honum þar og samt í Paradís. Hversvegna?
Í dag hefur þú játað synd þína, í dag hefur þú fengið fyrirgefninguna, í dag hefur opnast leiðin gegn um dauðann til eilífa lífsins, í dag ertu þess vegna í Paradís. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.Amen.