1. Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. 2. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar. 3. Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: Hann guðlastar! 4. En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? 5. Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar eða: Statt upp og gakk? 6. En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér og nú talar hann við lama manninn: Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín! 7. Og hann stóð upp og fór heim til sín. 8. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matteusarguðspjall 9:1-8
Svindl og meiðsl
Það var einu sinni strákur í Vestmannaeyjum, sem svindlaði á prófi. Mamman komst að glæpnum. Strákur varð skömmustulegur og sagði við hana. “Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” “Já, það er ljómandi,” sagði mamma. “En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrunin verður að hríslast út í lífið og lífshættina.
ekki einu sinni enn!Við gerum öll eitthvað rangt, eitthvað sem meiðir og hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað ógætilega sem særir og jafnvel grætir. Við flissum stundum á óheppilegum tíma, hittum viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum. Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki. Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið. Eða er það forsenda fyrirgefningar að viðkomandi fari á hnén og iðrist?
Heilsutextar
Textar dagsins eru ein heild og fjalla um það að breyta vondum málum í góð, láta af rangri breytni og fá nýjan anda og nýtt hjarta, leggja af beiskju, ofsa og reiði og leyfa góðvild að komast að. Guðspjallið er svo um kraftaverk og fyrirgefningu. Það fjallar reyndar um þá umhugsunarverðu, hebresku kenningu, sem víða má greina í Gamla testamentinu, að röng afstaða manna leiði til sjúkdóma. Jesús vísar í þá túlkunarhefð til að uppljúka fyrir áheyrendum sínum því meginatriði, að fyrirgefning er stórum meira mál en það að lækna lamaðan mann, að fyrirgefningin varðar grunn tilverunnar og er þar með guðlegt mál.
Sagan af lamaða manninum er til í þremur guðspjöllum og ein útgáfan er hin myndræna þegar vinir hins lamaða sáu engan kost annan en lyfta hinum sjúka upp á þak, rjúfa gat á það og láta hann síga niður. Jesús var snortinn, notaði aðstæður sem tilefni og pedagógíst hjálparmeðal, gerði hinum líðandi gott en hjálpaði líka tilheyrendum til skilnings á eðli fyrirgefningarinnar. Það er íhugunarefnið í dag. Kannt þú að fyrirgefa og kanntu að leita fyrirgefningar?
Langrækni og heift
Í fyrra sá ég margar kvikmyndir sænska leikstjórans Ingmar Bergman. Ég hreifst af ríkidæmi myndmálsins og ögun flækju og frásagnar. Á einum DVD-disknum var ítarefni, og þar á meðal viðtal við Bergman. Hann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði farið ómjúklega með verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða samskiptin og sagði frítt frá og hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með hann, hvernig honum leið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu. Andstæðingurinn var uppteiknaður sem vondur maður. En maðurinn sem gagnrýndur var hafði enga möguleika til varnar því hann var dáinn. Mér brá og varð ómótt að heyra Bergman tala svona um látinn mann. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman.
Fyrirgefningin
Það er hatur sem elur svona gos. Það hefur varla verið nokkur sálarbót fyrir Bergman að halda í þennan blossa. Af hverju fyrirgaf hann ekki manninum? Var nauðsynlegt að gagnrýnandinn kæmi og bæðist fyrirgefningar? Hvað þarf til að fyrirgefa?
Fyrirgefningin í einföldustu mynd er það að við iðrumst einhvers, förum af stað og berum fram beiðni um lausn og hljótum hana. Ef okkur er neitað, er það nokkur sárabót, þegar við höfum reynt. Neitun er þá vandi þess, sem brotið hefur verið á, en vill ekki leysa. Og fyrirgefning hefur stundum verið nefnt það að sleppa.
Við vitum að stundum biður fólk ekki um fyrirgefningu vegna þess að það metur málin öðru vísi en sá eða sú sem orðið hefur fyrir. Stundum veit fólk ekki, að það hefur gert á hlut einhvers annars. Til eru þau sem eru siðblind og illa innréttuð og sjá engan skilsmun á góðu og illu – og tjá enga iðrun. Samkvæmt amerískum rannsóknum er þessi hópur um 2% fólks. Áföll slíkra manna eru aðeins að fá ekki vilja sínum framgengt.
Bergmansheiftin getur orðið okkur til umhugsunar um okkur sjálf. Hvernig fyrirgefum við? Hvaða skilyrði setjum við? Bergman var sár og fyrirgaf aldrei. Gagnrýnandinn baðst ekki fyrirgefningar. Þeir hötuðust, ólu á andúð og draga hana vísast með sér inn í eilífðina. En er hægt að fyrirgefa, þegar engin afsökunarbeiðni berst? Er hægt að fyrirgefa ef engin iðrun er að baki og ekkert “fyrirgefðu.”
Iðrun og fyrirgefnin
Pólitísk fyrirgefning er eitt af þeim málum sem alþjóðasamfélagið glímir við. Hvað á að gera við gamla komma austurblokkarinnar. Þeir hafa margir játað brot sín og beðist velvirðingar: Margir hafa það talið nóg til að þeir fái syndakvittun og möguleika til nýs pólitísks lífs. En ýmsir þeirra hafa ekki iðrast og þrætt fyrir misgerðir sínar. Í Suður Afríku hafa margir komið fyrir Sáttanefndina sem þeir Mandela og Tutu stofnuðu til. Sumir þeirra hafa þráast við og þeir njóta því ekki fyrirgefningar og mál þeirra kallar á uppgjör. Hin opinberu pólitísku mál virðast leiða til einfaldrar niðurstöðu eða reglu: Fyrirgefning útheimtir iðrun. (Sjá skemmtilega umfjöllun dr. Þorvaldar Gylfasonar, prófessors, um pólitíska fyrirgefningu: http://www.hi.is/~gylfason/fyrirgefning.htm).
Ófyrirgefanlegt?
Líklega er það í samræmi við almenna sanngirnis- og réttlætishugsun, sem gilda má í pólitík, samskiptum hópa og þjóða og einnig í mörgum tilvikum einkalífsins. Og reglan varðar almennt uppeldi okkar og það að við lærum að snúa af villu vegar og snúa við, þ.e. að iðrast eins og það heitir á gömlu máli. En ég held hins vegar að krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar sé óraunhæf nema í einstökum málum. Margt verður og fellur utan við alla mannlega fyrirgefningu, engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að upphefja. Þegar milljónir voru að berjast við að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir hinni eilífu sekt. Horkheimir og Adorno, minntu á að Guð væri “nauðsynlegur”eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr og upphefja glæpi nasismans.
Guð – sem fyrirgefur
Það er nokkuð til í, að þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.
Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Dæmi og textar dagsins varða að Guð fyrirgefur og Guð elskar. Og okkar mál er að innlífast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.
Skrímslagarðurinn
Það er heilsusamlegt að fyrirgefa. Auk siðferðis- og þroska-skyldunnar varðar það sálarheilbrigði að fyrirgefa. Við vitum vel sjálf hvað við erum mun veikari fyrir gagnvart pestum þegar sálarlífið er í rusli. Æ fleiri lækna heyrir maður viðurkenna að vefræn mein eigi sér oft tilfinningalegar forsendur.
Andleg heilsurækt er mikilvæg fyrir okkur sjálf og varðar einnig velfarnað annarra. Eitt af því mikilvæga er að draga ekki með sér slóð óuppgerðra reiðistunda fortíðarinnar. Ruslið í þér verður að meini.
Ef þú fyrirgefur ekki elur fyrirgefningarleysið afkvæmi í þér. Reiðin elur hatur, sálarsárið verður að nístandi biturleika. Fyrr en varir eru afkvæmin orðin að skrímslum. Sál sem ekki fyrirgefur breytist í skrímslagarð. Slíkur staður hefur ekki rúm fyrir yfirvegun, hógværð, hamingju og frið. Þar stjórna ófreskjurnar hatur, reiði, æði, óstjórn og vanlíðan. Það er því hagnýtt sjálfshjálparmál að tryggja að maður verði ekki gerður útlægur úr sjálfum sér, tapi heimili sínu í líkama og sál sinni, verði friðlaus andi á flótta undan æpandi ófreskjum. Fyrirgefðu sjálfrar þín vegna, fyrirgefðu vegna sjálfs þín. Þú verður ekki fullnuma strax. Þú þarft að æva þig, en þjálfun skapar lífslist.
Hið guðlega upphaf fyrirgefningar
Þegar ég var svo í framhaldsnámi í Bandaríkjunum svindlaði einn samnemandi minn í aðalprófunum. Svindlið komst upp og hann fór til að biðjast fyrirgefningar. Kennararnir voru í öngum sínum en þeir fyrirgáfu manninum persónulega. En skólinn átti sínar kláru reglur. Svindlaranum var fleygt út, vísað úr skóla og getur aldrei lokið doktorsnámi í nokkrum virðingarverðum skóla í heiminum. Fyrirgefning er eitt en akademían setur reglur sem verður að fara eftir. Lögmálshyggjan fyrirgefur ekki heldur setur leikreglur.
Gat Bergmann fyrirgefið þótt engin bærist afsökunarbeiðnin? Já, ef veröldin er meira en bara bókhaldsuppgjör kaup-kaups hugsunar. Átrúnaður sá sem Jesús Kristur færði heiminum veitti mannkyni nýja kærleiksveru. Trúarkenning um að Guð varð maður er sprenging ástar í skrímslagarði gjaldahyggjunnar. Guð elskar ekki vegna þess að við biðjum um fyrirgefningu, ekki vegna þess að við gerum svo margt gott í Guðs garð. Guð er á undan okkur, elskar að fyrra bragði. Kristnin er því boð um að við fyrirgefum þótt sökudólgurinn iðrist ekki, boðar gjafmildi í stað kaupskapar, fagnaðarerindi í stað lögmáls. Það er elskan sem er rót og samhengi lækningu meinanna, en ekki kalt réttlætisuppgjör, umhyggja en ekki aftaka, fyrirgefning en ekki sektardómur, Jesús en ekki Móses.
Amen
19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð: A textaröð - lexía og pistill:
Esekíel 18:29-3229. Og þegar Ísraelsmenn segja: Atferli Drottins er ekki rétt! ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? 30. Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. 31. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? 32. Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.
Efesusbréfið 4:22-3222. Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, 23. en endurnýjast í anda og hugsun og 24. íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans. 25. Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. 26. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. 27. Gefið djöflinum ekkert færi. 28. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. 29. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. 30. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. 31. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. 32. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.