Andúð í garð trúarbragða hefur leyst kynþáttahyggju af hólmi á 21. öldinni. Þetta staðhæfir fyrrverandi aðstoðar-utanríkisráðherra Bretlands, barónessa Sayeeda Warsi, en hún vakti heimsathygli fyrir réttu ári þegar hún mótmælti afstöðu ríkisstjórnar David Camerons í garð Gaza-deilunnar með því að segja af sér.
Sayeeda Warsi er pakistönsk að uppruna og í nýlegu viðtali við BBC sagði hún grundvallarbreytingu hafa átt sér stað í viðhorfum í sinn garð frá því að hún hóf þátttöku í stjórnmálum á námsárum sínum í Bretlandi. Stjórnmálaferill hennar hófst í mótmælum gegn kynþáttafordómum og andúð í garð útlendinga sem hún tók þátt í og segist hún hafa verið skilgreind í umhverfinu á grundvelli húðlitar og uppruna.
Í dag er hún, eins og svo margir innflytjendur á Vesturlöndum, skilgreind á grundvelli trúar sinnar og sú breyting er að hennar mati afleiðing þess að spenna á milli trúarbragða og ofbeldisverk í nafni trúar hafa aukist á sama tíma og umburðarlyndi í garð trúarhefða á undir högg að sækja.
Samskipti og sambúð eingyðistrúarbragðanna þriggja, gyðingdóms, kristni og íslam, eru þar mest áberandi, sem og sú andúð í garð trúarhefða sem birtist í málflutningi þeirra sem vilja vega að trúarbrögðum almennt. Hér á landi hefur umræða um trú ekki farið varhluta af þessari þróun og víða má í fjölmiðlum greina raddir sem tala gegn og smána trúarhefðir, þar á meðal íslam.
Það er sannarlega áhyggjuefni hversu andúð í garð múslima er áberandi í íslenskri umræðu og má því til stuðnings nefna síður á Facebook, sem óttast að íslömsk áhrif á Vesturlöndum séu ógn við lýðræði og lífshætti okkar og vilja standa í vegi fyrir byggingu bænahúss múslima. Það er auðvelt að vanmeta slíkar síður á samfélagsmiðlum en að baki þeim 5.000 lækum eru eflaust margir fleiri sem deila þeirri andúð sem þar birtist en vilja ekki leggja opinberlega nafn sitt við málstaðinn.
Að baki ótta og andúð í garð múslima liggja í mörgum tilfellum þær hugmyndir að íslam sé framandi kristinni menningu, að af íslömskum áhrifum á Vesturlöndum stafi ógn og að múslimum sé hættara við að beita ofbeldi og hryðjuverkum í nafni trúar sinnar en öðrum.
Múslimar eru friðelskandi fólk, hvað sem áróðri beggja vegna borðsins líður. Hryðjuverkamenn í þeim 5 löndum, sem verst eru stödd hvað varðar hryðjuverk í heiminum kenna sig vissulega við íslam en 82% allra hryðjuverka eru framin í Írak, Afganistan, Pakistan, Nígeríu og Sýrlandi (skýrsla). Fórnarlömb hryðjuverka í þessum löndum eru jafnframt í yfirgnæfandi meirihluta múslimar og þeir ofbeldismenn sem framið hafa voðaverk á Vesturlöndum veigra sér ekki við að fórna mannslífum trúsystkina sinna. Það gefur auga leið að hvatinn til ofbeldis er ekki trúarbragðamismunur heldur sú óöld sem ríkt hefur í þessum löndum, meðal annars af völdum Vesturvelda. Múslimar í öðrum ríkjum eiga ekki að þurfa að gjalda fyrir eða svara fyrir glæpi ofbeldismanna, ekki frekar en að við eigum að svara fyrir þau ofbeldisverk sem framin hafa verið í nafni kristinnar trúar.
Íslam verður til sem átrúnaður með opinberunum Múhammeðs spámanns á sjöttu og sjöundu öld okkar tímatals en þær eru ritaðar í trúarbók múslima. Þetta eru samkvæmt trú þeirra opinberanir sem Múhammeð fær frá Guði í gegnum engilinn Gabríel. Á sama hátt og Nýja testamentið byggir á spámönnum Gamla testamentisins, byggir Kóraninn á spámönnum og boðskap Biblíunnar og Jesús er miðlæg persóna í Kóraninum, þó hann sé þar litinn öðrum augum en kristnir menn gera almennt. Íslam og kristni eru því náskyld trúarbrögð og þó margt sé þar ólíkt er mun fleira sem sameinar trúarhefðirnar tvær. Það er fátt í fjallræðu Jesú og Faðir Vori sem múslimar geta ekki heilshugar tekið undir og fimm stoðir íslam: trúarjátning; bæn; fasta; ölmusa; og pílagrímsferðir, eiga sannarlega hliðstæður í kristinni hefð.
Í íslamskri trúarhugsun er Jesús mikilvæg persóna og frásagnir af honum og ummæli eignuð honum eru varðveitt í trúarbókmenntum múslima fram á okkar daga. Í gegnum menningarsögu Evrópu hafa þessar náskyldu trúarhefðir verið í samtali og samkeppni, sem hefur jöfnum höndum verið gjöfult og einkennst af spennu. Íslömsk áhrif á vestræna menningu eru þannig ekki nýtilkomin og múslimar hafa fært okkur mikinn auð í formi lista, handverks og vísinda. Ber þar hæst að nefna þekkingu á sviði raunvísinda, á borð við algebru, stjörnufræði, eðlis- og efnafræði, og hugvísinda, en endurreisnin byggði á fornum textum höfunda á borð við Aristóteles sem múslimar varðveittu en höfðu glatast í hinni kristnu Evrópu. Þá hefur íslömsk trúarhugsun haft víðtæk áhrif á guðfræði og má þar nefna miðaldarguðfræðinga á borð við skólaspekinga og Tómas Akvínas.
Svo skyldar eru þessar trúarhefðir að textar kirkjunnar eiga sér flestir hliðstæður í íslamskri hefð. Í lexíu dagsins er lesin frásögn annarar Mósebókar af hungri Ísraelsmanna en þjóðin forna var týnd, hrakin og svöng og Guð mettaði hungur þeirra með manna af himnum, gegn því skilyrði að enginn krefjist meiri matar en þörf bæri til. Þar segir: Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar. Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði [brauð af himnum] fallið umhverfis búðirnar.”
Sömu frásögn er að finna í annari súru Kóransins en þar segir frá áminningum Móse til þjóðar sinnar, sem ítrekað féll að fótum gullkálfsins og möglaði í Eyðimörkinni. Guð, Allah, lítur til þjóðar sinnar í náð og þar segir hann: „Þá reistum Vér yður úr dauðadá, svo þér mættuð þakklátir verða. Og Vér létum skýin hvítu breiða skugga sinn yfir yður, sendum manna og lynghæns ofan til yðar og sögðum: Etið af því góðmeti sem Vér veitum yður.” (Kóraninn, Helgi Hálfdánarsson þýð, 2007 2.56-57)
Í kristinni hefð er Jesús táknmynd þess brauðs, sem Guð færði okkur af himnum, og lynghænur tákn heilags anda Guðs. Á þessari táknfræði byggir sú máltíð sem kristin kirkja heldur í heiðri í guðsþjónustu sinni. Vert er að spyrja hver sé velkominn að því borði Drottins og hverjum er útskúfað? Jesús bað og borðaði með þeim sem samfélag hans vildi gera hornreka og hélt á lofti trú þeirra sem voru ekki sömu trúar og hann.
Í þeim anda hefur prestur innflytjenda, Toshiki Toma, sem hefur aðsetur í Neskirkju og NeDó, æskulýðsfélag Neskirkju, tekið höndum saman við múslima á Íslandi í að auka samtal menningar- og trúarhefða í samfélagi okkar. Félag Horizon nefnist sá hópur sem í nóvember hélt, í samstarfi við sr. Toshiki og NeDó, Ashura hátíð en henni er ætlað að fagna fjölbreytileika menningarhefða að tyrkneskum sið. Ashura hátíðin minnir á búðing Nóa spámanns en sagan segir að hann hafi blandað saman hráefnum sem öllu jafna er ekki blandað saman og að útkoman hafi orðið betri fyrir vikið. Á hátíðinni sýndu NeDó ungmennin listaverk, sem unnin voru samkvæmt tyrkneskri hefð Ebru en það er forn aðferð þar sem málað er á vatn og verkið síðan yfirfært á pappír eftir kúnstarinnar reglum. Markmiðið var að auka virðingu og eyða fordómum í garð trúaðs fólks.
Þá hafa Horizon félagar heimsótt NeDó hópinn í vetur og við höfum kynnst hvert öðru, lært um menningu og trú hvers annars, farið í leiki og beðið saman. Sameiginlega eru þessir hópar að skipuleggja Brennó mót, sem haldið verður laugardaginn 28. mars, þar sem múslimar og NeDó-ingar munu skora á ýmsa hópa og starfsstéttir í samfélaginu. Það er von okkar að sem flestir þiggi boðið en með því að leika saman er hægt að minnka fordóma og ótta og eignast vináttu í afslöppuðu umhverfi.
Í viðtali BBC við Sayeeda Warsi benti hún á að ástæður þess að hópur múslima á Vesturlöndum snúist til herskárra aðgerða hafi lítt verið rannsökuð en hún telur að innflytjendastefna og andúð í garð múslima spili þar stórt hlutverk. Waarsi hefur mótmælt þeim röddum í breskum stjórnmálum; sem vilja banna tjáningu trúar í opinberum byggingum, sem hafna styrkjum til skóla sem leyfa trúarlega iðkun og sem jaðarsetja trúarhefðir og gera lítið úr trú fólks. Það samfélag sem krefst þess að fólk fari í felur með trú sína og afneiti hefðum sínum, getur ekki talist réttlátt að hennar mati.
Við sem hér búum þurfum ekki að endurtaka mistök nágrannaþjóða okkar og getum lagt okkar af mörkum til að minnka fordóma og auka samtal við þau í samfélagi okkar sem tilheyra annarri trúar og menningarhefð en meirihlutinn. Það á jafnt við um allar trúarhefðir og þær raddir sem krefjast þöggunar á trúarhefðum ógna ekki einungis öðrum trúarbrögðum, heldur ekki síður kristindóminum. Á sama hátt og við höfum tekið stórtæk skref í átt til þess að virða fjölbreytileika mannlífs í garð kynferðis og kynhneigðar, þurfum við að vinna að auknu umburðarlyndi í garð trúarbragða.
Við erum sem þjóð í eyðimerkurgöngu að reyna að feta það einstigi að skapa réttlátt samfélag. Leiðin til fyrirheitna landsins verður ekki rötuð með því að hæðast og hræðast, heldur með því að fagna og njóta þess fjölbreytileika sem önnur trúarbrögð færa þjóð okkar í hefðum og menningu.
Sú leið er vörðuð frelsi til að játa trú sína blygðunarlaust, að biðja saman óhrædd og að leika saman í sannri gleði, hver sem við erum og hvaðan sem við komum. Guð veiti okkur náð sína til þess.