Lofið Drottin, allar þjóðir, miklið og prísið hann, allir lýðir, því að miskunnsemi hans og trúfesti er staðföst yfir oss eilíflega. Hallelújah
Þannig hljóðar ein útgáfa af stysta sálmi sálmasafns Gamla testamentisins sem yfirleitt er kennt við Davíð konung og nefnt Davíðssálmar.
Sigurbjörn Einarsson biskup hefur greint frá því hvernig hann ólst upp með þessum sálmi. „Með þessum orðum hófst húslesturinn á helgum dögum í baðstofunni þar sem ég man fyrst eftir mér,“ hefur hann sagt.
Í litla bóndabænum í Meðallandi fékk Sigurbjörn Einarsson sitt kristna uppeldi og mótun. Hjá afa sínum og ömmu varð hann handgenginn hinum kristna boðskap í gegnum húslesturinn og reglulegar kirkjugöngur. Um kirkju æsku sinnar, sem ber sama nafn og þessi kirkja, Langholtskirkja í Meðallandi, segir Sigurbjörn biskup: „Um þessa kirkju bernsku minnar á ég sterkar minningar. Yfir þeim er eintómt sólskin.“ Um helgihaldið á baðstofupallinum í litla sveitabænum segir hann:
„Það var heilagt á helgum undir húslestrinum. Það varð heilagt á kvöldin, þegar hugvekjan var lesin. Þá slaknaði á hverri taug. Angur og áhyggja dagsins hvarf inn í stillu helgarinnar og fátækt hús fylltist af þeirri auðlegð, sem margir ríkulegar búnar mannavistir eru átakanlega snauðar af: Það fylltist af friði. Og hugurinn um leið af rósemi, öryggi og trausti.“ –
Ekki er þetta ónýtur vitnisburður fullorðins manns um uppeldi það er hann fékk í æsku. Mörgum kann að virðast sem þarna sé verið að lýsa högum fólks aftan úr grárri forneskju svo framandi virðist þessi mynd sem þarna er dregin upp. En sá maður sem þarna talar er enn í fullu fjöri. Sem betur fer er það þó óbreytt að bænir munu enn farnar með ungum börnum á flestum heimilum landsins og enn er blásið til helgra tíða í kirkjum landsins.
Kristin kirkja stendur í þakkarskuld við það fólk sem gerði sveininn unga í Meðallandi handgenginn Davíðssálmum og öðrum hlutum Biblíunnar. Hann átti eftir að verða áhrifamesti boðberi íslenskrar kristni á 20. öld og enn heyrist rödd hans reglulega. Hann er meðal þeirra fjölmörgu Íslendinga sem lagt hafa sitt af mörkum við að sjá til þess að orð Heilagrar ritningar sé jafnan aðgengilegt íslenskri þjóð á vönduðu íslenskri tungu, á máli sem hæfir hverri kynslóð.
Á þeim tímamótum sem við stöndum á núna þegar við höfum fengið nýja þýðingu Biblíunnar leitar hugurinn aftur til ýmissa þeirra sem í aldanna rás hafa lagt þar hönd á plóg.
Þúsund ára samleið kirkju og þjóðar Rúm þúsund ár eru liðin frá því að Íslendingar gengust kristninni formlega á hönd en áður átti kristinn dómur sér þegar nokkra sögu í landinu, meira að segja fyrir landnám norrænna manna. En allt frá kristnitökunni árið þúsund hefur þessi samfylgd kristni og þjóðar verið óslitin. Og það er hreint ekki ofmælt að sá er illa læs á letur íslenskrar sögu sem ekki skilur kristið mál. Og bækur hafa jafnan fylgt kristnum mönnum og það var gjarnan á fyrri öldum talið sérstakt einkenni hinna kristnu.
Biblíuþýðingar Biblíuþýðingar eiga sér langa sögu. Gamla testamentið var fyrst þýtt á grísku af Gyðingum sem búsettir voru í Alexandríu í Egyptalandi á 3. öld f.Kr. Er sú þýðing jafnan nefnd Sjötíumannaþýðingin vegna þess að arfsögnin greinir að sjötíu menn hafi unnið að henni. Þessi gríska þýðing skipti miklu máli fyrir framgang kristninnar. Í kjölfarið fylgdu svo þýðingar á fleiri tungumál á fyrstu öldum kristninnar, meðan hún átti enn í vök að verjast og boðendur hennar máttu oft sæta ofsóknum. Það var mikil gæfa Íslendinga hversu snemma þeir fengu Biblíuna á eigin tungu og hefur það að mati margra fræðimanna skipt sköpum um varðveislu íslenskunnar. Umtalsverðir hlutar Gamla testamentisins höfðu þegar verið þýddir á íslensku á 13. öld og eru þær þýðingar kenndar við Stjórn. Ekki er með öllu ljóst til hvers er vísað með nafninu Stjórn, en líklegt er að átt sé við góða stjórn Guðs á veröldinni.
Oddur Gottskálksson Þegar minnst er á frumherja í sögu íslenskra biblíuþýðinga verður flestum hugsað til Odds Gottskálkssonar svo þekkt er sagan sem greinir frá því er hann þýddi Nýja testamentið á íslensku úti í fjósi í Skálholti. Það var síðan prentað í Hróarskeldu 1540. Víst er það athyglisvert að hin fyrsta þýðing Nýja testamentisins hafi verið gerð í gripahúsi, á sams konar stað og frelsarinn fæddist í, sá sem er kjarninn og grundvöllurinn í Biblíunni. Merkustu viðburðir sögunnar verða ekki ætíð í höllum eða háhýsum. Nýja testamenti Odds er fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku og mun íslenska vera 13. tungumálið sem Nýja testamentið var þýtt á frá því að prentlistin kom til sögunnar.
Vísnabók Guðbrands Í kjölfarið fylgdi svo Guðbrandsbiblía árið 1584, öll Biblían komin á íslensku og kennd við útgefandann, hinn mikilhæfa og fjölmenntaða mann Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum. Líklega má það teljast nokkur sérstaða íslenskrar notkunar á Ritningunni hversu mikið hefur verið ort út af henni hér á landi. Það er vissulega þekkt með mörgum öðrum þjóðum að sálmar og ljóð séu ort út af Ritningunni en ég hygg að það hafi verið gert í óvenjulega ríkum mæli hér á landi. Ljóðelskir menn og trúaðir tóku snemma að að gera úr boðskap Heilagrar ritningar rímur, söguleg ljóð og sálma. Vísnabók Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1612 er einstæð bók og hefur ekkert sambærilegt safn ætlað almenningi síðar komið út á Íslandi. Vísnabókinni var ætlað að efla kunnáttu fólks og þekkingu á efni Ritningarinnar, innviðum kristinnar trúar og siðferðisreglum.
Ort út af Biblíunni Það er til marks um mikla tilhneigingu Íslendinga að yrkja út af Biblíunni að þrír Íslendingar hafa ekki látið sig muna um að yrkja út af öllum 150 sálmum Saltarans, þeir Jón Þorsteinnson píslarvottur sem lét lífið í Tykjaráninu í Vestamannaeyjum 1627, síðan sr. Oddur Oddsson á Reynivöllum og loks eitt okkar fremsta og afkastamesta sálmaskáld, sr. Valdimar Briem á Stóra-Núpi. En öll Biblíuljóð hans nema meira en þúsund blaðsíðum og er það þó ekki magn ljóðanna sem halda mun nafni hans á lofti um ókomin ár heldur gæði. Á öllum stórhátíðum kirkjunnar eru yfirleitt sungnir einhverjir af sálmum sr. Valdimars Briem í flestum kirkjum landsins.
Passíusálmarnir En þegar talið berst að kveðskap út af Ritningunni þá mun hin íslenska þjóð ljúka upp einum munni um að þar standi Passíusálmar Hallgríms Péturssonar fremstir og enn eru þeir fluttir í útvarpi á föstunni. Og á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að allir 50 sálmarnir séu lesnir á föstudaginn langa, ýmist af einum lesara eða fleirum. Sálmurinn „Allt eins og blómstrið eina“ er án efa sá sálmur Hallgríms sem flestir þekkja enda hefur hann örugglega fylgt fleiri Íslendingum til grafar en nokkur annar sálmur og er að líkindum sunginn í einhverri kirkju landsins sex daga vikunnar árið um kring.
Ebeneser Henderson Mikinn velgjörðarmann eignuðust Íslendingar í skoska trúboðanum Ebenezer Henderson sem kom hingað færandi hendi árið 1814 með nýja Biblíu í stóru upplagi, yfir fjögur þúsund Biblíur og meira en sex þúsund eintök af Nýja testamentinu. Þá fyrst varð Biblían almenningseign á Íslandi. Minnistæðar eru frásagnir Hendersons úr hinni stórmerku Ferðabók hans hvernig fátækir Íslendingar brugðust oft við eru þeir fengu Ritninguna í hendur. Fólk beinlínis grét af gleði þegar lesið var úr Biblíunni. Segist Henderson þá hafa gleymt allri þreytu ferðalagsins og hefði glaður ferðast tvöfalt lengri leið til að fá að launum annað eins kvöld. Henderson beitti sér líka fyrir stofnun Hins íslenska biblíufélags 10. júlí 1815 og er það elsta félag sem enn starfar hér á landi. Henderson sagði síðar að mestu hamingjuna hafi hann lifað, þegar Biblíufélagið varð til: „Þetta unga tré var gróðursett í nokkuð óvenjulegum jarðvegi og á því mun mæða óblíð og óstöðug veðrátta. En eigi að síður, varið himneskri umönnun og vökvað himneskri dögg, mun það vaxa og dafna.“
Þetta hafa reynst orð að sönnu og nú hefur þetta félag enn á ný lagt metnað sinn í að búa Guðs orð í sem vandaðastan búning og fagnar þessa dagana 11. útgáfu Biblíunnar á íslensku. Sl 90 og þjóðsöngurinn Það segir sína sögu um áhrif Heilagrar ritningar á íslenska menningu og þjóðarsögu að þjóðsöngur okkar skuli ortur út af Ritningunni, nánar tiltekið út af 90. sálmi Davíðs. Það var Matthías Jochumsson orti sálminn í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874. Lagið samdi Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld að áeggjan Matthíasar en Sveinbjörn var gamall bekkjarbróðir Matthísar en þá búsettur í Edinborg og þar í borg orti Matthías einmitt fyrsta erindi þjóðsöngsins en tvö hin síðari í London. Lofsöngur þessi var hann frumfluttur í Dómkirkjunni 2. ágúst það ár. Þá vissi enginn að hér var fæddur nýr konungur, þjóðsöngurinn, eins og Magnús Jónsson prófessor komst að orði. En svo er sagt að undir söng lofsöngsins þennan dag hafi varla það auga verið í Dómkirkjunni að ekki væri tárum vært.
Margvísleg menningaráhrif Biblíunnar Mikið og langt mál mætti hafa um margvísleg árhrif Biblíunnar í sögu okkar og samtíð, á löggjöf og listir, siði og söngmennt, málfar og menntir. Aftur og aftur grípa leikir og lærðir til Ritningarinnar í ræðu og riti, leita þar huggunar á sorgarstund og sækja þangað andagift á hátíðarstund.
Þegar núverandi forsætisráðherra tók við embætti fjármálaráðherra fyrir allmörgum árum sagði hann að nú væri það hagfræði Gamla testamentisins sem gilti og skildu flestir fullorðnir hvað átt var við, þ.e. að í góðæri skyldi leggja fyrir til mögru áranna með tilvísun til Jósefssögunnar í 1. Mósebók.
Þegar annar ráðherra var ítrekað spurður af fréttamanni hvort ætlaði ekki að bjóða sig fram til formennsku í stjórnmálaflokki sínum svaraði ráðherrann jafnoft: „Allt hefur sinn tíma, allt hefur sinn tíma“ og vissu ekki allir að þar var hann að vitna í kunnan texta úr einu af spekiritum Gamla testamentisins, þ.e. Prédikarann.
Það er hafið yfir allan vafa að íslenskt mál hefur sótt mjög áhrif til Heilagra Ritningar.
Allir kannast við orðatiltækið að dansa kringum gullkálfinn og merkingu þess í nútímamáli að sækjast eftir ríkidæmi og tilbiðja auð (í stað andlegra verðmæta). Orðatiltækið er að sjálfsögðu sótt í frásögnina í 2Mós 32 af því er fólkið hafði smíðað sér gullkálf og tekið að dýrka hann þá er Móse kom niður af Sínaífjalli.
Mörgum finnst sem þetta orðatiltæki eigi býsna vel við hátterni stórs hluta hinnar íslensku þjóðar nú um stundir. Og að menn gleymi orðum frelsarans um hina minnstu bræður. „Allt sem þér hafið gert einum af þessum minnstu bræðrum það hafið þér gert mér.“
Sérstaða 23. Davíðssálms og vinsældir Þegar rætt er um menningaráhrif Biblíunnar kemur mér gjarnan í hug 23. sálmur Davíðs, ‘Drottinn er minn hirðir’ – orð sem ég sé að standa skráð hér á altarisdúki þessarar kirkju.
Sálmurinn hefur verið nefndur næturgalinn meðal sálmanna og í einfaldleik sínum hefur hann talað svo sterkt til fólks gegnum aldirnar að fjölmargir kunna hann utanbókar eins og sjálft faðir-vorið. Franz Schubert (1797-1828) er meðal þeirra tónskálda sem samið hafa tónlist við sálminn. Sú tónlist var í fyrsta sinn flutt við íslenskan texta hér á landi einmitt hér í Langholtskirkju af Fílharmóníu á aðventu 1997. Þá má nefna að Þorvaldur Halldórsson hefur sungið sálm 23 við lag eiginkonu sinnar, Margrétar Scheving við miklar vinsældir og þannig aukið enn á útbreiðslu sálmsins. Jónas Tómasson hefur einnig samið tónlist við. Hér á landi birtast vinsældir sálmsins meðal annars í því að hann er sá texti sem fermingarbörn velja sér sem ritningarorð á fermingardegi sínum í mun ríkari mæli en aðra texta Gamla testamentisins og sennilega nær enginn texti Nýja testamentisins heldur að slá honum út í vinsældum meðal fermingarbarna. Hann hefur líka algera sérstöðu þegar kannað er hvaða ritningarorð eru notuð mest í minningargreinum og prestar nota hann í ríkara mæli við kistulagningar og útfarir en aðra sálma.
Orðin „þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert með mér“ hafa reynst mörgum ótrúleg huggun á slíkum stundum. Börn hafa lært þennan sálm við móðurkné og öldungar hafa dáið með orð hans á vörunum. Í kvikmyndum gegnir þessi fallegi sálmur sömuleiðis oft mjög stóru hlutverki og þannig mætti lengi telja.
Biblían lifir góðu lífi Ljóst að Biblían lifir enn góðu lífi á vettvangi bókmennta og lista samtímans. Það á jafnt við um skáldsögur, kveðskap, kvikmyndir og myndlist. Listamenn úr öllum þessum listgreinum róa á mið Biblíunnar og reynast yfirleitt fisksælir. En mestu varðar fyrir okkur hvert og eitt að verða handgengin Ritningunni við reglulegan lestur hennar og íhugun. Mörgum fer svo að honum finnst erfitt að hefja lestur Biblíunnar vegan stærðar hennar og hversu margbreytilegt efni hennar er og víst er það ótrúlega fjölbreytilegt, spannar nánast öll svið mannlífsins. Gagnvart þeim er þannig hugsa má benda á að í hinni nýju Biblíu er að finna inngangsorð við öll rit Biblíunnar þar sem megineinkennum og boðskap viðkomandi rits er lýst. Það hjálpar mjög við lesturinn.
Einnig er í viðauka að finna aðgengilega skrá yfir marga mikilvægustu ritningarstaðina. Þar sjáum við t.d. að óð Páls postula er að finna í 13. Kafla 1. Korintubréfs á bls. 217 í Nýja testamenti hinnar nýju útgáfu. Um þann texta gildir hið sama og um marga af þekktustu og mest notuðu textum Ritningarinnar að þeim hefur sáralítið verið breytt í hinni nýju þýðingu. Þannig að hér er enn að finna orðin gamalkunnu: “Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.” Um rit spámannsins Míka úr Gamla testamentinu fáum við að vita að þar sé t.d. að finna eitt vers sem feli í sér samandreginn boðskap spámannanna allra og hljóða svo: „Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: Þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.“ Í 1. Jóhannesarbéfi 4:16 segir: Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðgur í honum.
Lokaorð Kristindómurinn er ekki flókinn. Hann felur í sér játningu gagnvart Kristi, fylgd með honum og eftirbeytni í anda kærleikans. Og kærleikurinn er fundvís á réttu leiðina. Eftirfylgd Krists leiðir oftar en ekki til játningar eins og þeirrar sem felst í 23. Sálmi „Drottinn er minn hirðir mig mun ekkert bresta“ eða þeirrar sem ég hafði yfir í upphafi þessa máls míns hér í dag, með orðalagi nýju Biblíunnar.
Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann allir lýðir, því að miskunn hans er voldug yfir oss og trúfesti hans varið að eilífu.