Það hefur ekki farið fram hjá neinum að eitt merkilegasta menningarfélag landsins fagnar á þessu ári 200 ára afmæli sínu. Ekkert íslenskt félag er því eldra og það ber aldurinn vel enda hlutverk þess göfugt og sístætt eða sem sé að standa vörð um Biblíuna og sjá til þess að hún sé ætíð til á íslensku. Þjóðin má vera Hinu íslenska Biblíufélagi þakklát því það hefur með starfsemi sinni stuðlað að lifandi kristinni trú í landinu sem og varðveislu tungumálsins sem er eitt sterkasta þjóðareinkenni og menningartæki þessarar litlu þjóðar norður við Ballarhaf. Biblíuútgáfa Guðbrands Þorlákssonar 1584 olli straumhvörfum og varð til þess að þjóðin týndi hvorki trú né tungu. Hvort tveggja fékk að þroskast og þróast – þrekvirki biskupsins og hans manna á 16. öld er magnað og í raun og veru kraftaverk.
Konstantín von Tischendorf
En það eru fleiri sem fagna 200 ára afmæli en Hið íslenska Biblíufélag. Maður nokkur fæddist sama ár og Biblíufélagið var stofnað. Hann átti eftir að setja mark sitt á sitthvað er snerti Biblíuna og rannsóknir á handritum hennar. Það er við hæfi að minnast hans hér þó í stuttu máli sér gert.
Þessi maður var Konstantín von Tischendorf. Hann fæddist 18. janúar 1815 í litlum bæ sunnan við Leipzig í Þýskalandi og lést árið 1874. En Tischendorf gekk menntaveginn og nam klassísk fræði og guðfræði. Biblíu- og textafræði áttu hug hans allan og honum var snemma ljóst að handrit sem stóðu að baki krítískum Biblíuútgáfum voru ekki eins nálægt frumtextanum og nauðsyn krafði. Hann setti sér það mark að finna sem upprunalegastan texta Biblíunnar sem myndi þar af leiðandi geta m.a. varpað ljósi á þann texta Biblíunnar sem til var í nokkrum lesháttum. Það er árið 1839 sem hann einsetur sér þetta og vonaðist til að ná „nákvæmasta textanum eins og hann kom frá hinum heilögu höfundum hans“.
Skrifarar sem lykilmenn
Þegar texti einstakra rita Biblíunnar kom úr höndum höfunda hans hófst mikil textaafritun – því auðvitað vildu sem flestir söfnuðir eiga sín handrit – og enginn var prentarinn eða ljósritunarvélin! Þessi afritun sérstakra skrifara stóð nánast sleitulaust allt fram á 15. öld þegar prentverk kom til sögunnar. Þeir sem afrituðu texta voru misvandvirkir eins og gengur. Augljóst var að við afritun slæddust inn alls konar villur og mistök – skrifarar gátu verið annars hugar eða dottað við iðju sína. Hver hefur annars ekki dottað við lyklaborð nútímans? Í sumum tilvikum gerðust skrifarar jafnvel svo djarfir að breyta sjálfir textanum sem gat leitt til þess að merking hans breyttist. Og jafnvel voru dæmi um að versum væri kippt út og öðrum smellt inn í staðinn. Og handritafjöldinn skipti þúsundum. Þess vegna var mikilvægt að finna það upprunalegasta.
Á þessum tíma var elsta þekkta Biblíuhandritið sem geymdi gríska texta Nýja testamentisins varðveitt í Vatíkaninu og kallast Codex Vaticanus. Það var frá 4. öld – og í það vantar hluta af Nýja testamentinu og sömuleiðis úr því Gamla. Aðgangur að því var takmarkaður og fékk Tischendorf að skoða það í aðeins þrjár klukkustundir sinn hvorn daginn. Það var furðu gott út af fyrir sig því að þeim kaþólsku var ekki vel við að lútherskir væru með nefið ofan í þeirra bókum. Og Tischendorf var lútherskur.
Tókst að ráða í dulið letur
Í Þjóðarsafninu í París var handrit sem geymdi nokkrar prédikanir sýrlenska kirkjuföðurins, Efraíms, sem lést 373 e. Kr. Handritið kallast Codex Ephraemi Rescriptus og er frá 5. öld. En undir textanum var annar texti og mun eldri en hann hafði verið þveginn burt eða skafinn af til að nota skinnið (bókfellið) aftur og skrifa á það nýjan texta. Þrátt fyrir þetta djarfaði ögn fyrir gamla textanum undir þeim nýja. Nokkrir höfðu reynt að ráða í eldri textann og notað meðal annars kemísk efni til að kalla fram textann og skemmt skinnið fyrir vikið. En höfðu ekki erindi sem erfiði. Tischendorf tók sig til og rannsakaði handritið árið 1841 (og notaði reyndar sjálfur einhver efni). Hann var aðeins 26 ára gamall og honum tókst að ráða í textann sem var undir hinum sýrlenska. Það tók hann tvö ár að umskrifa handritið. Í ljós kom að það geymdi stóran hluta Gamla og Nýja testamentisins og gaf Tischendorf textann út. Hróður hans jókst mjög við þetta eins og áður sagði. Og hagur hans í fjármálum vænkaðist svo hann gat ferðast um milli helstu safna í Evrópu og kynnt sér handrit sem þar voru geymd. En þau reyndust ekki bæta neinu við leit hans svo orð væri á gerandi.
Austurlönd heilla
Kvittur hafði verið uppi að einhver forn handrit hefðu fundist þegar Napóleon keisari gerði innrás í Egyptaland í lok 18. aldar. Austurlöndin drógu Tischendorf til sín og hann hélt til Jerúsalem 1844. Hann fór til Alexandríu og Kaíró. Heimsótti fjögur koptísk klaustur í Líbanon. Síðan hélt hann áleiðis í Klaustur heilagrar Katrínar, við Sínaífjall. Klaustrið hafði verið reist bæði sem klaustur og virki á 6. öld. Það var auðugt og talið vera reist á þeim stað þar sem Móse sá runnann brenna sem þó brann ekki (2.Mósebók 3.3).
Tischendorf var ekki alls kostar ánægður með viðhorf munkanna í Klaustri heilagrar Katrínar til handrita sem þar voru geymd. Fannst þeir umgangast þau af hirðuleysi og ekki nægilegri virðingu. Hann var þýskur menntamaður, prófessor og doktor. Ofurnákvæmur fræðimaður. Sumir hafa reynt að koma þeim orðrómi á kreik að Tischendorf hafi reynt að beita munkana brögðum til að komast yfir dýrmæt handrit. Hann hafi ekki staðið við orð sín um að skila þeim bókum og handritum sem hann fékk léð. Tischendorf kynntist bókaverðinum sem lánaði honum bækur og handrit.
Einn til frásagnar - og fnykur í klaustrinu?
Frásögnin af handritafundi Tischendorfs í klaustrinu er með ævintýrablæ en þangað kom hann í fyrsta sinn árið 1844. Hann er reyndar einn til frásagnar og sumir hafa furðað sig á nokkrum þáttum frásagnar hans. Dag einn kom hann inn í bókasal klaustursins og sá þar körfur með handritum. Bókavörðurinn Kyrillos sagði honum að þetta væri eldiviður. Þeir hefðu hitað klaustrið upp í nokkurn tíma með því að brenna gömul skinnhandrit. Tischendorf gætti betur að og sá sér til undrunar að þetta voru arkir úr Gamla testamentinu á grísku. Þessar arkir úr handritinu gaf klaustrið honum og voru þær 43 að tölu. Tischendorf segir að hann hafi ekki getað leynt gleði sinni og undrun yfir þessum fundi og það hafi vakið grunsemdir meðal munkanna um hvílík verðmæti þeir hefðu undir höndum og þeir hafi þar af leiðandi ekki láta meira af hendi. En hann fékk að skrifa upp fjölda arka eða alls 86 úr Sjötíumannaþýðingunni (LXX, þýðing Gamla testamentisins á grísku) og slíku starfi var hann ekki óvanur.Sem fyrr segir er Tischendorf einn á vettvangi og frásögn hans mótast vitaskuld af því – og kannski komst hann í tilfinningalegt uppnám þegar við honum blöstu ómetanleg menningarverðmæti hins vestræna heims. En kannski féll líka bara ryk í augu Tischendorfs og sjálfur textarýnirinn mislas hlutverk karfanna sem handritaarkirnar lágu í. Körfurnar voru eins og bókavagnar Þjóðarbókhlöðunnar og bækurnar í þeim á leið í hillu eftir notkun. Þessar körfur voru kannski ekki eldiviðarkörfur heldur bókakörfur! Og víst er að skinnhandrit eru ekki góður eldsmatur og gefa frá sér meiri fnyk við brennslu en hita. Menn hafa sem sé ekki trúað frásögn Tischendorfs sem hverju öðru nýju neti. Sumum hefur látið sér detta í hug að Tischendorf hafi magnað upp hlutverk sitt sem bjargvætti fornra trúar- og menningarverðmæta. Þau hafi nær því verið brennd fyrir framan nefið á honum. Tischendorf var því réttur maður á réttum stað og tíma. Evrópubúinn sem kom á síðustu stundu og afstýrði menningarslysi. Þessar arkir úr skinnhandrit voru úr Sjötíumannaþýðingunni (þýðing Gamla testamentisins á grísku) og þær gaf Tischendorf út ásamt því sem hann skrifaði upp og kallast sú útgáfa Codex Friderico-Augustanus.
Rúsínan í pylsuendanum
En sagan er ekki öll sögð. Rúsínan í pylsuendanum var eftir. Hann hélt aftur í klaustrið árið 1853 en sú ferð var ekki eins árangurrík og sú fyrri. Bókavörðinn Kyrillos rak nú ekki minni til handritanna sem Tischendorf hafði séð hjá honum og þar á meðal arkirnar 86 úr Sjötíumannaþýðingunni sem hann afritaði. Hann yfirgaf klaustrið og hélt heim á leið. Kom þó við í nokkrum borgum í leit að handritum. Hann heyrði orðróm um að ókunnir menn hefðu heimsótt Klaustur heilagrar Katrínar og fengið að sjá handritið sem hann fékk að taka 43 arkir úr körfunni góðu sællar minningar. Næstu árin var hann við Biblíuvísindastörf og gaf út feiknin öll af handritum og biblíuvísindaritum. Sjálfur beið hann þess að einhver sem hefði kannski orðið honum hlutaskarpi um hylli munkanna í Katrínarklaustrinu gæfi út handritið sem hann vissi að geymt væri í klaustrinu. En tíminn leið og beið. Ekkert gerðist. Hann afréð að halda í þriðja sinn til Egyptalands og í klaustrið, árið 1859. Hann segir frá því að kvöld eitt hafi hann setið að spjalli við ráðsmann klaustursins í klausturklefa hans. Sá vissi að Tischendorf var að leita að handriti Sjötíumannaþýðingarinnar. Ráðsmaðurinn sagði Tischendorf að hann hefði lesið Sjötíumannaþýðinguna. Síðan tók hann fram handrit sem vafið var inn í klæði og þar sá Tischendorf ekki aðeins arkirnar 86 sem hann hafði afritað heldur og fleira úr Gamla testamentinu. En það stórkostlega var að þarna var líka að finna handrit alls Nýja testamentisins auk hins apókrýfa Barnabasarbréfs og hluta úr ritinu Hirðir Hermesar. Tischendorf fylltist mikilli gleði og bað um leyfi til að hafa handritið hjá sér um nóttina. Þá nótt vakti hann og skrifaði upp Barnabasarbréfið.
Codex Sinaiticus
Þarna voru semsé 199 arkir af biblíuhandriti frá fyrstu öldum kristninnar, ritað með ævafornri grískri rithönd. Handritið var mjög vel með farið. Skinnið var mjúkt og ljóst – af kálfum og síðar var reiknað út að 350 kálfar hefðu fórnað skinni sínu til verksins. Rithöndin er falleg og auðveld til aflestrar. Þetta handrit fékk heitið Codex Sinaiticus. Það er frá því 350 e. Kr. og er ómetanlegt því það geymir elsta handrit Nýja testamentisins sem enn hefur fundist. Tischendorf sem unnið hafði margar útgáfur á texta Nýja testamentisins var ljóst að Codex Sinaiticus fylgdi miklu eldri textahefð en önnur áður kunn handrit Nýja testamentisins. Codex Sinaiticus geymir til dæmis ekki lengri kaflalok Markúsarguðspjalls (Markús 16.9-20) og ekki heldur frásögnina af hórseku konunni í Jóhannesarguðspjalli 7.53-8.11 – sem eru síðari tíma viðbætur.
Tischendorf vildi kaupa handrit Codex Sinaiticus en því var synjað. Hann fékk það hins vegar lánað og afritaði það ásamt tveimur Þjóðverjum sem staddir voru í Kaíró fyrir tilviljun, lyfjafræðingur og læknir sem báðir kunnu grísku. Það tók tvo mánuði að afrita handritið, alls 110 000 þúsund línur á grísku. Meðan á þessu verki stóð fékk Tischendorf þá hugmynd að frumeintak Codex Sinaiticus yrði fært Rússakeisara að gjöf og varðveislu. Það var síðan gefið út í 367 eintökum árið 1862 og þar fór fremstur í flokki Tischendorf. Tvö eintök voru send til Klausturs heilagrar Katrínar og enn er annað þeirra þar til sýnis.
Codex Sinaiticus í höndum Rússa og síðar Breta
Nokkru síðar gekk þessi hugmynd Tischendorfs eftir í tilefni af 1000 ára afmæli keisaradæmisins. Klaustrið var rétttrúnaðarklaustur og keisarinn var verndari þess. Klaustrið fékk hins vegar fé á móti frá keisaranum til að standa straum af viðhaldskostnaði en það var orðið býsna hrörlegt. Bylting varð í Rússlandi árið 1917 og guðlausir kommúnistarnir höfðu ekki áhuga á Biblíunni og voru auk þess í fjárþörf. Um jólaleytið árið 1933 keypti British Museum handritið fyrir 100 000 pund. Mestur hluti handritsins er nú í British Library í London (347 arkir), í háskólabókasafninu í Leipzig (43 arkir), Þjóðarbókhlöðu Rússlands í Pétursborg (hlutar af 6 örk) og í Klaustri heilagrar Katrínar við Sínaífjall (í það minnsta 18 arkir).
Tákn Codex Sinaiticus er א
Öll Biblíuhandrit hafa ákveðin tákn og þar sem allir latnesku bókstafirnir voru þá þegar fráteknir sem merki annarra handrita ákvað Tischendorf að tákn Codex Sinaiticus skyldi vera fyrsti bókstafur hebreska stafrófsins, א (alef ).
Fjöldi papýrushandrita hefur fundist eftir daga Konstantíns Tischendorfs og þau eru eldri en Codex Sinaiticus. En þau eru ekki eins glæsileg á að líta og Codex Sinaiticus og mörg þeirra mjög svo skemmd. Fræðimenn telja að textagerð Codex Sinaiticus sé ævaforn og sé mikilvægur vitnisburður um það hvernig biblíutexti leit út á fyrstu öldum kristninnar.
Handritið er hægt að skoða á: http://www.codexsinaiticus.org/en/
Að lokum
Konstantín Tischendorf var ástríðufullur Biblíufræðingur og handritasérfræðingur sem kristin kirkja á mikla þökk að gjalda. Án hans er með öllu óljóst hvað orðið hefði um menningarverðmæti Katrínarklaustursins við Sínaífjall en það var mjög mikilvægt að þau kæmust í hendur hinna bestu fræðimanna. Þess vegna er við hæfi að minnast þess að 200 hundruð ár eru liðin frá fæðingu herra Tischendorfs um leið og fagnað er afmæli Hins íslenska Biblíufélags, jafnaldra hans.
Hamingjuóskir til Hins íslenska Biblíufélags og alföður sem öllu ræður, fyrir Konstantín Tischendorf.
(Við samningu þessa pistils hefur höfundur stuðst við nýja ævisögu Tischendorfs sem hann hnaut um í bókabúð í útlöndum og kom út á þessu ári og heitir: Constantine Tischendorf – The life and work of a 19th century Bible hunter; eftir Stanley Porter, og Codex Sinaiticus – The Story of the World´s Oldest Bible, eftir D.C. Parker og gefin út árið 2010. Einnig þýðingu sína á bók Hans Johan Sagrusten: Stóra púsluspilið – Leitin að elsta handriti Biblíunnar, óútgefin, en kom út í Ósló 2014. Eins hefur hann sér til ánægju lesið skrif dr. Magnúsar Jónssonar, prófessors, í Árbók háskólans 1930-1931, en fylgirit hennar var: Saga Nýja testamentisins.)