Trúin á sér sitt málfar – öll trúarbrögð tala með sínum sérstaka hætti. Þau eiga einnig arf, hefðir og siði, sem boðskapur trúarinnar er borinn fram í. Það eru í flestum tilvikum aldir og aldaraðir sem skilja okkur frá máli, arfi og hefðum trúarinnar. Nútímaðurinn verður að virða þetta allt og átta sig á því hvernig trúin hefur verið sett fram fyrr á tímum. En hann verður ekki síður að finna sér sínar eigin leiðir til að skilja og skynja boðskap trúar sinnar. Menn hafa á öllum öldum gert uppreisn gegn túlkun og skilningi fyrri tíðar manna á einstökum þáttum trúarinnar hvort heldur kennisetningum eða ritningarstöðum. Sumir hlutu bágt fyrir og enn aðrir voru brenndir á báli fyrir vikið. Margir voru bannfærðir og útskúfaðir. Í mörgum tilvika náði reynsla þeirra og skilningur síðar fótfestu og rann saman við trúararfinn. Nýjar hefðir fæddust sem enn aðrir gerðu síðar uppreisn gegn eða mæltu í mót. Og þannig gengur sagan. Orð ritningarinnar er einmitt með þessum hætti lifandi því það kallar á nýjan og hvassan skilning hverrar kynslóðar. Kallar á nýja túlkun handa nýjum tíma.
Öll orð verðum við að túlka - og getum í raun ekki annað; verðum að snúa þeim og hugsun þeirri er þau flytja, yfir á okkar eigið mál. Það getur oft reynst mikil þraut og torleyst. Forn veröld blasir við þegar öldnum trúaritum er flett. Heimur sem við í fljótu bragði áttum okkur ekki fyllilega á. Veröld sem er horfin en hefur þó skilið svo margt eftir sem við verðum að gaumgæfa en ekki fleygja í æði einnotahyggjunnar.
Biblían dregur upp mynd af heiminum, heimsmynd. Þar ríkir Guð yfir öllu hátt á himni, menn strita á jörðu og undir jörðu er hel, hinn dimmi heimur, staður fordæmdra. Heimsmynd okkar sem nú lifum er allt önnur. Vísindi og aukin þekking skapa nýja sýn af heimi, nýja heimsmynd. Og svo ör er öll þróun að heimsmyndin er nánast sem kvikmynd er rennur áfram og ætíð birtast ný og ný myndskeið. Heimur er á fleygiferð. En hvert? Hvert æða öll þessi myndbrot - og hvaða mynd birta þau af okkur mönnum? Sýna þau okkur sjálfa? Eða einhverja aðra?
Hugsun manna brýtur sér leið í orðum - úr þögn manneskjunnar hvort heldur hún er stór eða smá. Hugsun er andsvar við því sem við finnum, skiljum, eða skiljum ekki; hugsun er oftast þögn sem þarf að tala og notar til þess orð eða athöfn. Þá barn tekur að hjala í frumbernsku sinni er upphaf orða og tjáningar. Orð sem leynast í huga okkar og við látum falla, stundum að vel athuguðu máli og stundum í ógáti, segja margt um okkur.
Flest eru orðin sögð áreynslulaust í erli hversdagsins og merking þeirra yfirleitt harla ljós - í það minnsta finnst okkur svo vera. En þótt merkingin sé ljós þá eru orð okkar alltaf túlkuð. Hvert orð sem sagt er er numið af viðmælanda okkar, túlkað, hvort sem túlkunin heitir frá okkar bæjardyrum séð skilningur eða misskilningur. Eða skilningsleysi.
Sumir vilja túlka orð helgra rita bókstaflega og gildir þá einu hvaða trúarbrögð eiga í hlut. Bókstafstrú hefur fólginn í sér þann annmarka að túlkandinn velur sér t.d. orð og texta sem hentar fyrirframgefinni túlkun hans og hann veigrar sér við að líta til heildarinnar. Telur eina merkingu og aðeins eina búa í merkingu bókstafsins. Allar línur eru taldar skýrar og enginn þurfi að velkjast í vafa um kennivald textans. Oft teflir túlkandinn fram bókstafsvissu sinni af nokkurri hörku og umburðarleysi. Þungu ryki er skyndilega þyrlað upp af fornum skilningi í því skyni að bregða honum á nýjan heim. Fyrnskan ein og sér verður harla oft eina gæðamerkið.
Bókstafstrú gleymir því að samfélagið og hugmyndir manna eru í sífelldri mótun. Hún sneiðir iðulega hjá textum sem eru að hennar mati óþægilegir séu þeir skoðaðir með gleraugum bóksstafsskilnings. Horfir jafnvel framhjá því að í textunum sjálfum býr túlkun þess sem skráði. Og gleymir því líka að orð og setningar er hægt að skilja með ýmsu móti. Sum orð skilja engir tveir menn einum og sama skilningnum.
Þú kemur alltaf klyfjaður þínum eigin hugmyndum og fordómum til móts við gamlan texta. Það getur byrgt þér sýn þegar þig langar til að textinn ávarpi þig á jafn ferskan hátt og forðum þá hann var fyrst mæltur eða ritaður. Ef þú veist af þessum klyfjum þínum er ekki loku fyrir það skotið að þér gangi ögn skár að túlka textann en ella. Kjarninn í lestri helgra rita byggir á túlkun – á hinni einföldu spurningu: Hvernig skilur þú? Og svarið er ekki alltaf einfalt.
En til að geta svarað verður þú að lesa.