Lúkasarguðspjall 2.1-14 Hér inni er fólk sem hefur heyrt jólaguðspjallið milljón sinnum – eða næstum því. Mér finnst ég vera í þeim hóp og ég hef ekki bara heyrt það oft og mörgum sinnum heldur líka sagt frá því. Það er erfitt að viðurkenna það en eitt sinn var bara nóg komið. Sagan var orðin innantóm fyrir mér, sífelld endurtekning.
En allar sögur hafa eitthvað meira fólgið í sér en nákvæmlega það sem sagt er. Þannig er jólaguðspjallið, það er mikil saga á bak við stutta sögu. Guðspjallið er frásaga af fæðingu barns. Þegar fréttir berast af fæðingunni kemur fólk til að heimsækja foreldra og barn alveg eins og við gerum í daga þegar barn fæðist. Við förum til að óska til hamingju með barnið og fá að sjá litlu veruna sem er svo ógnarlítil og umkomulaus. Svo segjum við stundum –ó, hvað þú ert yndisleg og mikið krútt. Margir verða alveg hugfangnir og fá að klappa barninu og finna hversu mjúkt það er. Hugsið ykkur hvað margt fallegt hefur verið sagt um okkur og við okkur sem við höfum fengið að fara með út í lífið. Við erum yndisleg. Þetta hafa hirðarnir örugglega hugsað eða jafnvel sagt við ungabarnið Jesú þar sem það lá umkomulaust í jötunni.
Það var hins vegar þetta með englana. Þeir sögðu hirðunum frá fæðingu þessa litla barns. Þeir sögðu þeim sögu á bak við komu barnsins. Það er sagan sem verið er að segja með jólaguðspjallinu. Þetta er ekki einhver saga heldur sagan, boðskapurinn, gleðifréttirnar, fagnaðarboðskapurinn. Ekki vera hræddir þegar þið heyrið þennan boðskap sögðu englarnir við strákana úti í haga. En þeir urðu óskaplega hræddir þegar allt varð bjart um miðja nótt. Þegar engillinn var búinn að róa þá gat hann sagt þeim boðskapinn um að frelsari væri fæddur. Ég held að þeir hafi fengið að upplifa himnaríki á þessari stundu – himnaríki sem er bjart, hlýtt og fallegt enda segir “dýrð Drottins ljómaði í kringum þá.” Himnaríki opnaðist yfir þeim og þeir fengu það hlutverk að fara til frelsarans, lítils fátæks barns og veita því lotningu. Þeir sögðu Maríu og Jósef frá því sem þeir upplifðu og þau fengu það staðfest hvert barnið var og hvaða hlutverk það hafði með því að fæðast. Ekki veitti foreldrunum af að fá enn eina staðfestingu á að barnið væri Guðs sonur. Það var svo ótrúlegt enda segir að María hafi munað allt sem hirðarnir sögðu og hafi hugleitt það. Hugleitt komu Krists sem hún og Jósef voru útvalin til að ala upp. Hvílíkt verkefni – kannski hafa þeim fallist hendur. En hún átti bænina og gat þannig rætt við Guð um þetta vandasama uppeldi. Það er alltaf vandi að ala upp barn en fæðing þessa barns var tilkynnt af englum af himnum ofan – uppeldið skipti því miklu máli fyrir barnið og hlutverk þess.
Þó ég geti orðið leið á að heyra jólaguðspjallið milljón sinnum verð ég ekki leið á að heyra boðskapinn sem englarnir fluttu. Ég tek á móti þeim boðskap, trúi því að Jesús sé frelsari minn og allra annarra. Hann frelsaði frá fjötrum sem mannlífið lagði á það – og leggur á okkur. Hann læknaði og huggaði. Þetta gerist enn. Hann læknar, linar þjáningu og tekur okkur loks til sín. Við biðjum til hans í dag einmitt vegna þess að hann vill veita okkur von í öllum aðstæðum
En í Jóhannesar guðspjalli er sagt frá fólki sem trúði ekki á að Jesús væri frelsari heimsins. Það er sagt með orðunum „Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum.“ (Jóh. 1. 11) Þannig er það líka í dag og það verðum við að virða. Um þá sem tóku við honum er sagt: „En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðsbörn.“(Jóh. 1.12)
Lokaorð Hvað ferðu með þér héðan í dag? Það sem ég vona er að þú hafir með þér tilfinninguna að boðskapur jólanna skipti máli og að innihald þeirra sé boðskapurinn um að frelsarinn hafi fæðst, innihald sem kaupmenn eru ekki að selja heldur fæst ókeypis hvar sem er því Guð er alls staðar nálægur okkur til að elfa okkur og trú okkar á hinn eina sanna Guð sem kom í heiminn í hógværð sem lítið barn.
„Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.“ (Lúk. 2.14) Amen.