Ég þarf ... að játa það að ég hef orðið fyrir djúpum vonbrigðum með hvítt, hófsamt fólk. Ég hef næstum því komist að þeirri niðurstöðu að stærsti þröskuldur á vegi Negrans á leið hans til frelsis er ekki sá sem situr í Ráði Hvítra Borgara eða meðlimurinn í Ku Klux Klan, heldur hinn hófsami hvíti maður, sem er uppteknari af „reglu“ en réttlæti; sem tekur hinn neikvæða frið, sem felst í engri spennu fram yfir hinn jákvæða frið sem inniheldur réttlætið; sem segir í sífellu: „Ég er sammála því marki sem þú vinnur að, en get ekki samþykkt það að þú takir þátt í beinu andófi“; sá sem með forræðishyggjuna að leiðarljósi getur sett frelsi annarrar manneskju tímamörk; sá sem lifir í mýtískri hugmynd um tíma og ráðleggur Negranum ævinlega að bíða „eftir hagfelldari tíma“. Grunnhygginn skilningur fólks sem meinar vel er meira svekkjandi, en hin altæki misskilningur fólks sem lætur ráðast af illvilja. Hálfvolgt samþykki er margfalt illskiljanlegra en hin skýra höfnun.Martin Luther King jr., Bréf frá fangelsinu í Birmingham
„Bréf frá fangelsinu í Birmingham“ er frægasta rit Civil Rights hreyfingarinnar sem barðist fyrir fullum borgaralegum réttindum þeldökks fólks í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Martin Luther King jr. skrifaði bréfið þar sem hann sat í fangelsi eftir mótmæli 16. apríl 1963. Tilefnið var að átta hvítir prestar, biskupar og forstöðumenn trúfélaga höfðu gefið út sérstakt ákall til einingar fjórum dögum áður, þar sem þeir gagnrýndu King fyrir að taka þátt í andófi gegn yfirvöldum. King svaraði með löngu bréfi þar sem hann heldur því fram að fólki beri siðferðileg skylda til að spyrna gegn óréttlátum lögum á ofbeldislausan hátt, þ.e. lögum sem gera lítið úr mennsku annars fólks. Nú, þegar hálf öld er liðin frá hinu fræga fangelsisbréfi er ekki úr vegi að minnast stuttlega orða Kings um andóf, óréttlæti og hið hálfvolga, vel meinandi, en bitlausa samþykki, sem tekst frekar að flækjast fyrir réttarbótum, en að vera þeim til framdráttar.
Það er heldur ófriðarlegt fyrir botni Miðjarðarhafs þessi misserin, skelfileg óöld geisar í Sýrlandi og síðustu daga hefur hið pólitíska andrúmsloft snarversnað í Tyrklandi. Fréttir berast af því að mannréttindi eigi undir högg að sækja í Ungverjalandi og að vikið hafi verið af vegi lýðræðisins þar í landi. Þessar ófriðar- og andlýðræðishorfur benda okkur á það að lýðræði, tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi, ferðafrelsi og félagafrelsi eru ekki fastar og óbreytanlegar stærðir, þótt okkur finnist þær flestar sjálfsagðar. Lýðræði og mannréttindi eru hverful gæði og þjóð sem vill halda í frelsi sitt gerir vel í því að halda vöku sinni í lýðræðislegum efnum, með því að sýna borgaralegt hugrekki gagnvart óréttlæti og jafnvel borgaralega óhlýðni þegar brýn þörf er á að breyta og bylta, að því tilskyldu að þessar aðgerðir fari fram án ofbeldis.
Bréf Kings er aðeins almennt, heldur einnig sértækt. Í upphafi bréfsins ávarpar King viðtakendur bréfsins, þá sem stóðu að einingarkallinu gegn honum. Hann kallar þá sína „kæru klerklegu kollega“ og seinna í bréfinu vísar hann til þeirra sem sinna „kristnu og gyðinglegu bræðra“. Bréfið allt er sett í samhengi mannréttindabaráttu svartra, en samhengið er ekki síður trúarlegt en borgaralegt. King þrýstir þannig á viðmælendur sína að þeir taki mannréttindi alvarlega á grundvelli trúar sinnar. Hann talar um tíma þegar kristin kirkja var ekki aðeins „hitamælir“ , sem fylgdist með og hafði eftir vinsælar og þekktar skoðanir, heldur „hitastillir“, sem umbreytti siðferði samfélagsins. King heldur áfram lýsingu sinni á hálfvelgjunni og segir:
Kirkja nútímans er gjarnan veikburða, máttlaus rödd sem talar með óstyrkum hljómi. Valdakerfi samtímans er ekki truflað á nokkurn hátt með nálægð þessarar kirkju, öllu heldur styður kirkjan við það með sinni þöglu og stundum jafnvel yfirlýstri blessun á ríkjandi ástandi.En dómur Guðs er yfir kirkjunni sem aldrei fyrr. Ef kirkja nútímans tekur ekki upp fórnandi anda frumkirkjunnar, þá mun hún tapa þeirri tiltrú sem hún hefur, glata milljónum og vera afgreidd sem lítt marktækur félagsklúbbur sem hafi ekkert að gefa tuttugustu öldinni.
Okkur sem prestsstóluna berum svíður undan rödd Kings. Og kannski mest vegna þeirrar ábyrgðar sem við berum sem þjónar kristinnar kirkju og þeirra heita sem við höfum gengist undir. Við höfum siðareglur um fagmennsku og hlutleysi og um okkur mörg gilda lög um opinbera starfsmenn. Prestar íslensku þjóðkirkjunnar vinna einnig heit á sínum vígsludegi:
...að prédika Guðs orð hreint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitnisburði vorrar evangelísk-lúthersku kirkju í játningum hennar, að veita hin heilögu sakrament eins og Kristur hefur fyrir mælt , með lotningu, að uppfræða með kostgæfni æskulýðinn, og söfnuðinn allan, í heilögum sannindum kristinnar trúar, leiðbeina, hvetja og styrkja með ástúð og alvöru, einslega og opinberlega, vaka yfir sálarheill þeirra, sem viðkomandi er trúað fyrir, styðja lítilmagna og hjálpa bágstöddum.
Þessi „hvatning“ með ástúð og alvöru, einslega og opinberlega, stuðningurinn við lítilmagnann og hjálpin við hin bágstöddu á sér ekki stað í fullkomnu þjóðfélagi, heldur í samfélagi þar sem víða er pottur brotinn í mannréttindamálum. Rétt eins og King fann í Birmingham fangelsi, þá getur það orðið umdeilt að taka afstöðu, hvort sem er í réttindamálum samkynhneigðra, jafnréttismálum, málum sem snerta kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, umhverfismálum og svo mætti lengi telja. Og jafnframt er það mikilvægt að íhuga orð Kings úr fangelsinu, því að kirkjan á ekki að vera hitamælir, heldur hitastillir sem lætur mennsku og líf í gnægð sig varða og er uppteknari af réttlæti en „reglu“. Eða eins og King orðaði það svo vel: "Grunnhygginn skilningur fólks sem meinar vel er meira svekkjandi, en hin altæki misskilningur fólks sem lætur ráðast af illvilja".