Það er nú ekki mikið mál að elska þá sem elska mann, eða hvað? Það getur reynst erfitt að elska sína nánustu. Flestum reynist það vandasamt að lifa náið með annarri manneskju, jafnvel afkvæmum sínum, börnunum. Ég þekki þetta dálítið af eigin raun. Þið þekkið orðatiltækið “systkinakærleikur”, innan gæsalappa, það hefur ýmsa undirtóna sem slær á þessa viðkvæmu strengi. Ég er úr sjö systkini hópi og núna á ég þrjár dætur, fjögurra til átta ára og einn dreng á öðru ári, það var ekki og er ekki alltaf friður og ró. Ekki segja mér að það er bara þannig hjá mér! Við erum einhvern veginn þannig að átök eiga sér stað jafnvel þar sem ástríki er. En ef maður venur sig á kærleika með sínum nánustu þá kemur hitt til álita sem Jesús fræðir okkur um að elska náunga sinn.
Þessi örstutta dæmisaga um miskunnsama Samverjan er siðferðisboðskapur kirkju og kristni í hnotskurn. Hún beinir sjónum okkur út fyrir fjölskylduna, þar sem öllum finnst að kærleikurinn eigi að ríkja. Kristin siðfræði er miklu meira en að elska sína nánustu. Kristin trú er ekki orðin tóm heldur snýr að miklu leyti að breytni eða öllu heldur LÍFINU.
Þessi saga er ágætur inngangur að viðfangsefni okkar eftir messu um trúaruppeldi. Mín skoðun er að almennt leggjum við allt of litla áherslu á trúarþroska, og afmörkum trúna við persónulegt svið, en Biblían kennir það að markmið kenningarinnar er kærleikur. Jesús setti það á oddinn fyrir nær tvö þúsund árum með þessari dæmisögu og gekk lengra en það, hann brýndi það svo hressilega fyrir okkur með þessari dæmisögu að hún ein ætti að vera okkur nægt verkefni og afkomenda okkar næstu tvö þúsund árin. Og hann bætti við og sagði: “Elskið óvini ykkar!” og “Biðjið fyrir þeim, sem ofsækja ykkur!”
1. Að elska Guð er að elska náungann
Hvað var Kristur að kenna með þessum orðum og dæmisögunni. Boðskapur kristinnar trúar er þessi: Að elska Guð er að elska náunga sinn. Það er grundvöllur kristinnar siðfræði. En það er á fyrirfram gefinni forsendu sem við heyrðum í pistlinum: Guð er kærleikur. Hvað þýðir það að Guð er kærleikur? Jú, þegar þú nýtur ástar og umhyggju þá er Guð að snerta við þér. Þegar þú ert borinn á örmum í erfiðleikum eða veikinda þá er Guð að sinna þér. Og sú mikla hugsun eða sannleikur að baki kristinni trú er að Guð er sjálfur miskunnsami Samverjinn sem til okkar er kominn í Kristi. Þegar við lesum í Nýja testamentinu um Krist þá sjáum við hvernig Guð er og Kristur er okkur fyrirmynd. Við eigum að vera eins og miskunnsami Samverjinn.
Það er reyndar merkilegt að kalla hann miskunnsama Samverjann vegna þessa að miskunn kemur ekki fyrir í dæmisögunni heldur er sagt að “er hann sá hann (þann sem féll í hendur ræningjanna) kenndi hann í brjóst um hann…” Sama orð er notað þegar Jesús sá fólkið sem streymdi til hans þurfandi og sjúkt, hann hafði samúð með því, samkennd og fann til með, eins og Guð. En Jesús lætur ekki þar við sitja heldur bregst við, gerir eitthvað í málinu, þjónar í kærleika. Það er sannleikurinn sem Guðs orð boðar okkur, og það er enginn kveifarskapur, heldur grundvöllur trúarinnar, Guð kemur fram í athöfn, í anda og sannleika. Það er djúp hugsun Guðs og ásetningur með hjálpræðisverkinu öllu að hann laðar okkur og knýr til góðra verka. Það þarf nokkra trú til þess að fylgja Jesú inn í aðstæður líkar þeim sem lýst er í dæmisögunni.
2. Vetvangur kærleikans er daglegt líf
Eitt af aðalatriðunum í siðbót Lúthers var einmitt þetta að Guð vísar okkur til daglega lífsins, þar er vettvangur kærleikans. Hann átti við fólk eins og lögvitringinn sem spurði: Hver er náungi minn? Fólk sem heldur að allt sé í besta lagi í sambandi þeirra við Guð en gremst aðrir sem standa sig ekki eins og þeir. Þeim er ætluð þessi dæmisaga og þess vegna okkur öllum.
Ætli við forðumst ekki að lifa fyrir augliti Guðs og elska náunga okkar. Við forðumst daglegt líf. Menn eru alveg hættir að nenna að eiga börn á Vesturlöndum vegna þess líklega að barnauppeldi er svo ferlega krefjandi. Um daginn var fjallað um ferðaþjónustu framtíðarinnar. Nú vilja ferðamenn ekki hafa börn í grennd við sig! Guð hefur nú hagað lífinu svo til að fjölskyldan er tryggasta leiðin til þess að bindast lífinu eins og það er. Í staðinn leggja menn á sig alls kyns æfingar til að öðlast, það sem vantar upp á, hamingju, lífsfyllingu osfrv. Svo reynum við stöðugt að fjarlægja dauðann sem endalok lífs okkar, alls kyns fegrunartilraunir eru hafðar í frammi, lífslengingar, frystingar og meðöl ýmiskonar, það er annað en Hallgrímur Pétursson gerir í passíusálmunum í anda siðbótarmannsins, sem heilsar dauðanum óttalaus.
Eða eins og Lúther kennir um daglegt líf sem guðsþjónustu mannanna:
“Þess vegna sinnir Samverjinn Guði á himnum með verkum sínum. Ekki svo að skilja að Drottinn þarfnist verka mannsins fyrir sig eða að hann vinni þau í staðinn fyrir Guð, heldur vegna þess að náungi okkar þarfnast þeirra (…). Guð vil að við þjónum og hjálpum hvert öðru. Við þurfum ekki að fara til Rómar til að leita uppi góðverkin. Nógur er starfinn heima fyrir, þar sem við eigum að styðja náunga okkar sem mætir okkur í konunni, börnunum, vinnufólkinu, yfirboðurum og yfirvöldum. Auk þess í nágrönnum og þeim sem við hittum úti á götu og á markaðnum. Alls staðar getum við reynst mönnum náungi þeirra.” S. 298[1]
3. Þakklæti grunntónn lífs míns
Hvers vegna á ég að vera góður náungi? Það borgar sig ekki. Ég hlýt engin virðingarsess í samfélaginu með að vinna umönnunarstörf til dæmis. Þannig eru nú samfélag okkar orðið. Kristilegt? Nei! Guð boðar okkur það að elska sig og náunga okkar eins og okkur sjálf. En skyldan dugar ekki til að vekja kærleika. Þegar það rennur upp fyrir okkur hver Guð er og hvað hann hefur fyrir okkur gert verður okkur ljóst að við fáum aldrei endurgoldið Guði. Guð gaf óverðskuldað af frjálsum kærleika, hann gaf okkur Krist. Sé sú gjöf þegin verður þakklætir grunntónn lífsins upp frá því. Við elskum vegna þess að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.
Enginn hefur (síðar) útlistað þetta betur en Lúther. Hvernig er hægt að endurgjalda Guði? Það er ekki hægt. Guð þarfnast einskis. Það ættir þú að vita. Og það veit Guð. Þess vegna bendir hann á meðbróður þinn, á náungann. Sértu þakklátur við mig, segir Guð, þá launaðu manninum. Þannig leggur Lúther út tvöfalda kærleiksboðorðið, að elska Guð og náungan. Amare Deum est amare proximum – að elska Guð er að elska náungann.”[2] (s. 244)
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.