Listin að detta á rassinn

Listin að detta á rassinn

Já, þegar það gerist, þegar smábarnið missir jafnvægið og dettur þá segja vísindin að mikið sé að gerast í kollinum á þeim, nýjar tengingar verða til og næst verða skrefin enn fleiri. Þetta finnst mér góð kennsla. Jú lífið og náttúran kennir okkur einmitt þetta: Áður en við lærðum að ganga, þá þá þurftum við að kunna annað sem er jafnvel enn mikilvægara, nefnilega það að detta.

Það er stór áfangi að hefja fermingarfræðslu eins og þessi hópur gerir núna. Þetta er eitt af því sem við getum kallað tímamót í lífinu. Sitthvað fleira mætti nefna í þeim efnum og jafnan fylgja einhver hátíðarhöld eins og verður í vor.


Tímamót sem enginn fagnar

 

Mig langar að ræða ein þau stærstu á mannsævinni. Þeim fylgja þó ekki veislur eða tilkynningar á samfélagsmiðlum eða í blöðum. En sannarlega snúast þau um afrek í lífi hverrar manneskju. Það er í raun með ólíkindum að okkur skuli hafa tekist að framkvæma slíkt stórvirki.

 

Hér er ég að tala um þann stórbrotna íþróttaviðburð þegar ómálga barn tekur fyrstu skrefin, lærir að ganga. Hafið þið velt því fyrir ykkur hversu mikil ólíkindi eru þar á ferð? Höfuðið hlutfallslega miklu stærra en verður síðar á ævinni, beinin mjúk eins og allt það sem á að vaxa, vöðvar óþroskaðir og taugakerfið alls óundirbúið fyrir það að bera uppi allan líkamann á tveimur agnarsmáum gangflötum.

 

Ég fór að veita þessu athygli þegar barnabörnin fóru að brölta á fætur, eins og eftir eðlishvöt. Sjálfur gat ég tekið því rólega en foreldrarnir auðvitað stukku til, reiðubúnir að grípa þau ef og þegar þunginn bæri lappirnar ofurliði. En það reyndust vera óþarfar áhyggjur. Smábörn eru slík undrasmíði að þegar þau missa jafnvægið, falla þau ekki til jarðar með brambolti eins og við sem eldri erum, heldur lenda snyrtilega á rassinum, sem þar að auki er bólstraður með bleiu.

 

Já, smátt og smátt slaka nærstaddir á og geta ekki annað en dáðst að afrekum þessara smábarna sem geta jafnvel hlegið dátt þegar þau detta á rassinn – nokkuð sem á svo eftir að einkenna kímnigáfu barnæskunnar þegar hún þróast yfir á næstu stig.


Listin að detta

 

Frásagnirnar í Biblíunni fjalla mikið um þetta – listina að detta. Já, hvernig getum við lýst henni? Jú, listin að detta snýst um hæfileikann til að standa aftur á fætur og taka jafnvel fleiri skref en áður.

 

Hérna hlýddum við á sögu af Páli nokkrum frá Tarsus. Hann staðfestir nú heldur betur máltakið: Fall er fararheill.

 

Páll þessi var enginn venjulegur áhrifavaldur. Hann er fastagestur á topp tíu listum sem sagnfræðignar taka saman yfir áhrifamesta fólk mannkynssögunnar. Það munar ekki um það. Og hlutverk hans var að miðla til fólks sögunum af Jesú og setja þær í samhengi.

 

Stór hluti af Nýja testamentinu eru bréf sem Páll skrifaði til þessara litlu safnaða sem voru þá að myndast á þessu svæði í kringum miðjarðarhafið. Við vitum ekki hversu stór þessi hópur var sem kenndi sig við Krist, þarna um miðja fyrstu öld. Varla var þetta þó fjölmenn hreyfing og sundurleit hefur hún verið. Mögulega hefðu þau öll komist fyrir í þessum sætum hérna í Neskirkju. Hann ávarpar þau engu að síður eins og þau hafi sögulegt hlutverk, sem þau vissulega áttu eftir að hafa.

 

Saga Páls er þó dæmigerð fyrir þær persónur sem við lesum um í Biblíunni. Þetta eru ekki hetjusögur af óslitinni sigurgöngu. Þvert á móti lesum við um mistök og oft hörmulegar ákvarðanir. Þannig hafði okkar maður ofsótt þessa fáu kristnu menn sem boðuðu trú sína í þessu samfélagi. Eins og fram kom í textanum stóð hann fyrir heiftarlegum mannréttindabrotum gegn þessu fólki og leiddi þá baráttu með öllum ráðum. Svo eiga sér stað þessi umskipti, tímamót getum við sagt í okkar samhengi, og Páll átti sjálfur eftir að helga líf sitt boðuninni og fórna lífi sínu að lokum fyrir þennan málstað sem stóð hjarta hans svo nærri.


Myndin af okkur sjálfum

 

Já, þetta er myndin sem við fáum af fólkinu í kringum okkur, og okkur sjálfum hér í kirkjunni. Hér eru engar ofurhetjur, heldur manneskjur af holdi og blóði, mistækar og takmarkaðar eins og við öll. En eru drifin áfram af sannfæringu, sem þau eru tilbúin að standa og falla með.

 

Um leið verður þetta myndin af okkur sjálfum.

 

En við erum umkringd áhrifavöldum, aldrei þó sem nú. Þeir heilsa okkur á skjánum, sýna ríkidæmi sitt, stælta skrokka og leyfa okkur að gægjast inn í fataskápinn og bílskúrinn. Okkur finnst sem við stöndumst illa samanburðinn við þessar stjörnur allar. Þó ættum við að vita, að þetta er aðeins framhliðin. Þau glíma við sína veikleika eins og við öll, gera sín mistök, já stundum hrasa þau og þá er alls ekki víst að þau lendi á rassinum eins og litla afreksfólkið sem er að taka fyrstu skrefin.

 

Já, þegar það gerist, þegar smábarnið missir jafnvægið og dettur þá segja vísindin að mikið sé að gerast í kollinum á þeim, nýjar tengingar verða til og næst verða skrefin enn fleiri. Þetta finnst mér góð kennsla. Jú lífið og náttúran kennir okkur einmitt þetta: Áður en við lærðum að ganga, þá þá þurftum við að kunna annað sem er jafnvel enn mikilvægara, nefnilega það að detta.

 

Og það ætti að fylgja okkur út í lífið. Þetta er boðskapur Biblíunnar til okkar, að mistökin geta verið bandamenn okkar, lærimeistarar og kennarar. Söguhetjurnar sem við lesum á þeim síðum voru nefnilega eins og við. En þær áttu sér nokkuð sem við viljum gjarnan deila með ykkur, kæru fermingarbörn í fræðslunni: Þau áttu sér sannfæringu, hugsjón, markmið sem gaf þeim slíkan kraft, að enn í dag, þúsundum árum síðar ræðum við þau og njótum þess sem þau undirbjuggu.