Trúir þú á Guð? Fyrir skömmu var hópur fólks að ræða um trú og trúariðkun. Nokkur börn voru nærstödd og tóku þátt í umræðunni. Einn drengjanna spurði: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var: „Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt sem er meira en ég sjálf.“ Og barnið hugsaði um þessa afstöðu og hafði þörf fyrir - þegar heim var komið - að ræða þessa nálgun. Að trúa bara á sjálfan sig útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt svar þeirrar menningar sem kalla má ég-menningu. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi til sem þarf að taka mið af og ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju og er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er ég-menningarfólki dauður, trúin óþörf sem og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við.
Sjálfurnar Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin fáfengileg eða vanþroskuð sem voru upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var skrítið. En nú eru selfie-stangirnar að verða staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferð sumra þessara er ferð sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus.
Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég kom mun sjaldnar fyrir en fleirtölumyndin við. En nú er það ég einstaklinganna sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart?
Þau sem eru illa haldin af sjálfusóttinni hafa svipuð einkenni og fíklar - þurfa að fá sitt skot hvort sem það varðar aðdáun, föt, dót eða efni. Sjálfusóttin getur verið jafn skefjalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Engin bót verður nema fólk breytist, fái nýtt líf.
Grikkir sögðu sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Hann var svo hrifinn af spegilmynd sinni að hann gat ekki slitið sig frá henni, heldur veslaðist upp og dó. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar. Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir er látið gossa. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.
Ekki fyrirgefið? Guðspjall dagsins varðar sjálfusótt einstaklinga og ég-menninguna. Jesús Kristur segir að allt sé fyrirgefið í þessum heimi og allt geti Guð umborið. Bara eitt er ekki fyrirgefið og það er að mæla gegn Heilögum Anda. Hvað merkir slíkt? Ef fólk er úr tengslum við Guð er hætt við rugli og einstaklingarnir ala með sér ranghugmyndir um sjálfa sig, veröldina og lífið. Að hallmæla Heilögum anda er einfaldlega það að trúa ekki á neitt meira og æðra en eigið sjálf. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, það er afstaðan að maður sé sjálfur nafli heimsins. Broddurinn í ræðu Jesú er: “Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði, með því að dýrka þig?”
Guðspjall dagsins varðar eins konar trúarlegt milliuppgjör. Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trúin er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er hér, innan í þér, í messunni, í náttúrunni, í listinni og í veröldinni. Fyrir framan öll sem horfa í spegla heimsins, dýrka eigið sjálf er Guð sem horfir og elskar fólk. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virði að lífið er meira en eigin nafli - og opni eigið sjálf. Maður sem er kengboginn inn í sjálfan sig, fókuserar bara sjálfan sig sér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar.
Draumar fermingarungmennanna Liðna daga hefur stórkostleg kirkjulistahátíð hefur verið haldin hér í Hallgrímskirkju og svo hafa fermingarungmenni sótt sumarnámskeið á sama tíma. Hópurinn er skemmtilegur og það hefur verið gaman að vinna með þeim. Meðal verkefna þeirra var að skrifa um drauma sína og framtíð. Þessi draumablöð vonanna eru núna á altarinu í kirkjunni og við biðjum fyrir óskum unglinganna. Kirkja er ekki ég-menning heldur við-menning sem axlar ábyrð á einstaklingum. Því eru bænir fermingarungmennanna okkar bænir. Við berum þau sameiginlega fram fyrir Guð.
Í bænum unga fólksins kemur vel í ljós að þau hafa sterkar hugmyndir um framtíðarstörf sín og ég gladdist mjög yfir að þau leita ekki bara síns eigin. Þau eru ekki illa haldin af sjálfusóttinni heldur eru samfélagslega ábyrg. Þau leita jafnvægis sjálfs og samfélags. Þau vilja gjarnan velja sér framtíðarstörf til að verða öðrum til eflingar og gagns í samfélagi manna. Það var hrífandi að lesa hversu þroskaða sýn þau hafa varðandi hamingjuríkt fjölskyldulíf. Flest vilja þau eignast fjölskyldu. Mikill meirihluti vill eignast maka, 1-3 börn. Og á einu draumablaðin stóð: Ég vil eignast strák, stelpu og “æðislegan” eiginmann! Við getum væntanlega verið sammála um að svona ósk er góð!
Hið góða líf Hver er mennskan og hvert er einkenni allra manna? Að þrá hamingju. Við leitum öll hins góða lífs. Þess leita fermingarungmenni, en þau líka sem stara á spegilmynd sína. Þú og ég – við viljum og þráum að fá að njóta lífsins.
Öll verðum við að sjá okkur sjálf til að þroskast, ekki bara dást heldur gera okkur grein fyrir kostum og göllum til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Jesús minnir á við erum kölluð til að hugsa um meira en eigin þarfir og hann sýndi sjálfur hvað mennskan merkir og Guðstengslin. Tilveran er stærri en spegilgláp. Því starfar kirkjan, til að gefa okkur öllum tækifæri til að spegla okkur í himinspeglinum. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks verði hamingjusöm og njóti lífsins.
Guðs-appið Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Ég-app sjálfusóttarinnar virkar illa. En Guðs-appið virkar frábærlega og veitir heilbrigði. Í veröld trúarinnar færðu að taka þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og trúna. Þar ertu til. Amen.
Prédikun í Hallgrímskirkju við lok kirkjulistahátíðar, 23. ágúst 2015. 12. sd. eftir þrenningarhátíð.
Textaröð: B Lexía: Slm 40.2-6 Stöðugt vonaði ég á Drottin og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt. Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr fúafeni, veitti mér fótfestu á kletti og gerði mig styrkan í gangi. Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng til Guðs vors. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni. Sæll er sá maður sem gerir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér ekki til dramblátra eða þeirra sem fylgja falsguðum. Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert jafnast á við þig. Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau, en þau eru fleiri en tölu verði á komið.
Pistill: Jak 3.8-12 …en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri. Með henni vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs. Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir og systur. Gefur sama lindin bæði ferskt og beiskt vatn? Mun fíkjutré, bræður mínir og systur, geta gefið af sér ólífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.
Guðspjall: Matt 12.31-37 Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda. Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.