„ Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér, og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer“ yrkir söngvaskáldið Megas í lagi sem heitir Tvær stjörnur og við fáum að hlýða á hér á eftir í flutningi strengjasveitar Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskóla Akureyrar Tíminn er merkilegt fyrirbæri, eitt af þessum óáþreifanlegu öflum lífsins sem setja þó mark sitt á okkur mennina með býsna áþreifanlegum hætti. Fótspor tímans eru allstaðar í kringum okkur, við greinum þau í andlitum samferðarmanna, á þakskeggjum húsa og í litbrigðum náttúrunnar, í kirkjugörðum sleppir tíminn þó takinu og þögnin verður að eilífu tifi. Í raun er klukkan eini mælikvarði tímans sem við fáum örlítið stjórnað, við getum flýtt henni og seinkað, stöðvað og breytt og þó er klukkan ekki tíminn og tíminn ekki klukka. Tíminn er guð en Guð er ekki tími því Guð er eilífur, Hann er tifið í þögninni, kvika jarðar, blámi himins og geisli sólar, Guð er ofar tíma og rúmi og samt er hann hér og nú, svo ótrúlega nálægur og þú greinir fótspor hans með augum trúarinnar. Fótspor Guðs eru allstaðar þar sem kærleikur, von og gleði ríkir og þar sem fólk tekst á við lífið af áhuga og hugrekki, líka þar sem sorgin kveður dyra og samstaðan býður inn. Tíminn og trúin og fótspor þeirra beggja er nokkuð sem sjómennirnir okkar, hetjur hafsins skynja svo vel í lífi sínu og starfi, þeir starfa á lífsins ólgu sjó, í bókstaflegri merkingu, eru utan samfélagsins svo vikum og mánuðum skiptir og koma heim og sjá lífið taka kipp í vexti barnanna og augum makanna, þeir sjá breytingarnar skýrar eftir langa fjarveru og vita því vel hversu tíminn er óendanlega dýrmætur. Störf þeirra krefjast sömu eiginleika og trúin, þ.e. hugrekkis, æðruleysis og samstöðu, skemmst er að minnast þolraunar skipverjans Eiríkst Inga Jóhannssonar úti fyrir ströndum Noregs í janúar síðastliðnum, hvernig hann tengdi saman tímann og trúna, hvernig hann skammtaði sér tímann en jók við trúna, hvernig hann náði að hvíla í hverri stund og halda sönsum, vitandi um allt sem hafði gerst og allt sem gat orðið. Ég held að það séu fáar starfsstéttir á Íslandi sem njóta eins mikillar virðingar og sjómenn, störf þeirra eru óumdeild, þeir leggja á djúpið í öllum veðrum og vinna að því að draga þjóðinni björg í bú, enginn efast um gildi þeirra starfa né tilgang, enginn efast um vinnuframlag eða álag, og enginn sér ofsjónum yfir launum þessara manna sem dvelja löngum stundum fjarri heimilum sínum og ástvinum. Fyrstu lærisveinar Jesú voru fiskimenn, frá því er skilmerkilega greint í guðspjöllunum, Jesús gekk til þeirra þar sem þeir voru að störfum og kallaði þá til samfylgdar í mannaveiðum. Það virðist vera sem starfsvettvangur þeirra hafi einhverju skipt, þeir kunnu að hlusta eftir veðri og vindum náttúrunnar, ef til vill myndi það nýtast þeim við að skilja eðli manneskjunnar og að hlusta eftir veðrum og vindum mannlífsins, skilja þarfir fólks og aðstæður. Sjómennskan er mikilvægt starf, framlag sjómanna er óumdeilt þó umgjörð þess sé það ekki, fá mál hafa valdið eins miklum usla og kergju í íslensku samfélagi og kvótamál og kvótakerfið, umræðan um aflamark tengsl þess við hugsanlegt brottkast og síðar eyðingu byggða út á landi er nokkuð sem þjóðin hefur rætt í þau tæp 30 ár sem kerfið hefur lifað. Þetta er ekki einhlítt mál og raunar mjög flókið, það snýst um afkomu fólks, umhverfisvernd, sanngirni og réttlæti, heiðarleika og gagnsæji. Það hvarflar ekki að mér að koma fram og kveða upp dóm, það væri hroki, því til þess skortir mig of margar forsendur þó ég viti sem er að kerfið hefur bæði sína kosti og galla. Á heildina litið er ljóst að umræðan um kvótakerfið er á margan hátt lík umræðunni um kirkju og kristni í þessu landi. Í fyrsta lagi hefur kirkjan aldrei verið gallalaus ekki frekar en kvótakerfið, í öðru lagi hefur staða hvors um sig breyst í tímans rás, fiskveiðar eru vissulega mjög stór hluti af efnhag landsins en þó hafa þær hlutfallslega minnkað á undanförnum árum, ástæðan er sú sama og veldur fækkun innan þjóðkirkjunnar þ.e. aukin fjölbreytni í mannlífinu hvort sem litið er til atvinnu eða trúarbragða, þjóðin er að verða flóknari að samsetningu sem er að sama skapi mjög gott og mikilvægt. Í þriðja lagi er fiskurinn kristið tákn, á dögum frumkirkjunnar forðaði hann hinum kristnu frá því að verða fyrir ofsóknum eða dauða, menn teiknuðu fiskinn í sandinn til að þekkja hvern annan og til að vita að þeim væri óhætt, gríska orðið ἰχθύς sem þýðir fiskur merkir Jesús Kristur, Guðs sonur frelsari en orðið fæst með því að taka hvern staf þess fyrir sig og mynda úr því fyrrnefnd orð þ.e. Jesús Kristur, Guðs sonur frelsari. Í fjórða lagi hefur akkilesarhæll kirkjunnar og kvótakerfisins oft verið hinn sami, þ.e. óttinn við endurmat og sjálfsskoðun. Í verunni er starf sjómanna mjög áþekkt starfi presta, skipið er táknmynd kirkjunnar og kirkjan gengur í gegnum jafn mörg veðrabrigði í störfum sínum eins og hvert annað skip. Og það er deilt um starfshætti hennar og hefðir. Ég myndi aldrei bjóða mig fram til þess að vera ráðgjafi um kvótakerfið en mér finnst hins vegar mjög áhugavert að máta það við erindi kirkjunnar sem er Jesús Kristur, viðmið hans og gildi. Í fyrsta lagi held ég að það geti verið mjög góður grundvöllur til umræðna og af því að við höfum ennþá Þjóðkirkju og hún hefur lögbundnar og siðferðislegar skyldur við fólkið í landinu þá má gjarnan skoða málið frá þessari hlið, það snýst ekki um pólitík úr prédikunarstól heldur hugmyndafræði sem stærstur hluti landsmanna á enn sameiginlega. Sú hugmyndafræði gengur út á hlustun og samtal, hún gengur út á að benda á valdið og spyrja hverju það þjónar, hún gengur út á að ögra valdinu sem safnar sjálfu sér í stað þess að dreifa því meðal fólksins, gengur út á að forgangsraða eftir raunverulegum þörfum og virða um leið fjölbreytileika mannlífsins og ólíkar hugmyndir um lífsfyllingu og takt hvort sem hann er að finna í Reykjavík eða Raufarhöfn. Hugmyndafræði Krists verður að veruleika fyrir trú en líka fyrir hugrekki og dálítið hugmyndaflug, já sköpunarþrá, með því að sjá lífið sem liggur fyrir utan hið eiginlega sjónsvið okkar. Hugmyndafræði Krists er áskorun um endurmat í ljósi nýrra tíma og einmitt þess vegna lifir Kristur, af því að orð hans og gjörðir eru sístætt endurmat á aðstæðum, eins konar módel sem hægt er að máta sig inn í dag hvern til þess að greina hvað ræður för í lífi manns og gjörðum. Og þannig komum við aftur að tímanum, „ Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér, og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer“ yrkir meistari Megas og það er satt við fáum ekki ráðið hvert tíminn fer en við ráðum því hvernig honum er varið og þar liggur ábyrgð okkar og auðmýkt, að líta aldrei á hann sem sjálfsagðan hlut. Þess vegna þurfum við í allri þjóðfélagsumræðu og ekki síst þeirri sem augljóslega varðar hag allra landsmanna, að vanda okkur og vinna af heilum hug og heitu hjarta, á sjómannadegi árið 2012 óska ég þess heitt og innilega að svo megi verða, já að næstu 30 árum verði varið í opna og heiðarlega umræðu um kvótann og byggðir landsins, kirkju og kristni því með því erum við ekki bara að þjóna Guði og mönnum og sameiginlegum hag, heldur einnig að sýna sjómönnum okkar þá virðingu sem þeir eiga skilið. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Kvótinn og Kirkjan
Flokkar