Í fyrsta skipti á ævinni bý ég nú í fjölbýlishúsi. Fjölbýlið er stúdía út af fyrir sig. Tökum ruslamálin sem dæmi. Þar fer hver íbúi með sinn poka fram á gang og kemur fyrir í þartilgerðri þró. Einstaklega þægilegt. En það fylgir böggulli skammrifi; sá, að hver íbúð ber ábyrgð á ruslamálunum mánuð í senn, tvívegis ár hvert. Og þá er betra að sinna sínu, til hagsbóta fyrir heildina, með leigjandann forðum sem víti til varnaðar, sem varð að orði og sinnti í engu skyldu sinni: „Þið getið sjálf séð um ykkar rusl!“.
Sameignin þrífur sig heldur ekki sjálf, þó húsgjöldin gæfu e.t.v. tilefni til að halda það. Þannig komst ég að því nú nýverið að mér ber að ryksuga svo og svo langt niður fyrir mig hálfsmánaðarlega. Og eins og virðulegu húsi sæmir gilda hér húsreglur. Allt katta- og hundahald er t.d. bannað, af tillitsemi við nef og eyru heildarinnar, og hvers kyns ólæti og ærsl á stigagöngum stranglega fyrirtekið.
Svo eru haldnir húsfundir til að taka ákvarðanir er varða hag heildarinnar, t.d. eins og núna þegar upp komst um væntanlegan þakleka, sem nauðsynlegt er að fyrirbyggja. Annað, sem kann að virðast óþarft, en hefur það gildi eitt að gleðja og hlýja hefur einnig verið tekið fyrir hér og þá á ég við þegar gufubaðið í kjallaranum var endurnýjað. Hefur hver íbúð eitt atkvæði og sinna sumir þeirri skyldu betur en aðrir. Hússtjórnin vakir yfir sameigninni í smáu sem stóru, semur við verktaka, skiptir um ljósaperur og sýnir húsinu umhyggju í hvívetna. Hver íbúðareigandi ber þó að sjálfsögðu ábyrgð á að viðhaldsskortur á íbúð viðkomandi verði ekki öðrum íbúum til ama. Svo eru haldnir sameiginlegri lóðahreinsunardagar og hver veit nema garðveisla gæti orðið einn góðan veðurdag?
Það felst öryggi í því að búa í fjölbýli. Hér býr fólk ofan við, við hlið mér og undir mér. Og á þær hliðar sem ekki eru byggðar blasa við mér tvær kirknanna minna, Hallgrímur og Háteigur, að ógleymdri Perlunni, mekku ísunnenda. Við erum því umlukin á bak og brjóst, börnin og ég.
„Í húsi mínu eru margar vistarverur“, sagði frelsarinn forðum og skráð er hjá Jóhannesi. Mér finnst sumpartinn að kirkjan okkar sé eins og fjölbýlishús. Hver söfnuður býr dálítið út af fyrir sig, en á ýmissa hagsmuna að gæta með heildinni. Við þurfum að vera vakandi fyrir því að prýða og halda við okkar andlega heimili, innanstokks og utan. Og nú stendur yfir húsfundur, þar sem fulltrúar íbúanna koma sér saman um hvað eina sem til hagsbóta gætir. Það kann að vera leki þar og sprunga hér, sem gera þarf við, og mikið er gott að við skulum eiga hússtjórn, sem hægt er að treysta fyrir þessum mikilvægu verkefnum.
Í fjölbýlinu er það svo að þegar eigendur búa í sínum eigin íbúðum er viðhalds- og prýðisskyldunni mun betur sinnt, en þegar íbúð er í útleigu. Þess vegna þurfum við að finna það í fjölbýlinu kirkjunni að við eigum öll nokkurn hlut í þessari andlegu byggingu, svo ekki fari fyrir okkur eins og leigjandanum forðum, að við látum sem hver geti borið út sitt eigið rusl. Nei, við berum öll sameiginlega ábyrgð, bæði á ruslinu og gufubaðinu, gagninu og gæðunum, að vel sé um gengið og með farið. Þetta gildir hvort sem litið er á íslensku þjóðkirkjuna sem eina íbúðina í hinu stóra, alþjóðlega kirkjuhúsi, söfnuðina í sveit og borg sem íbúa í sambýli margra stigaganga, eða okkur hvert og eitt sem einstaklinga í fjölbýli lífsins. Við getum sjálf séð um okkar rusl og rjómann líka - sjálf, en þó fyrst og fremst saman.