Það skapast vinátta og traust milli fólks frá ólíkum heimshornum og sem býr við ólíkar aðstæður, á heimsþinginu í Busan. Vinur minn, frá koptísk Orthodox kirkjunni í Egyptalandi, sem gekk út af fundi um samkirkjuleg málefni í gær, var mættur í dag (reyndar ekki á samkirkjulega fundinn). Ég var glaður að sjá hann og við spjölluðum aðeins saman. Honum var nóg boðið í gær, vegna þess að hann skildi annan stjórnanda umræðunnar þannig að vegirnir til Guðs væru margir, þar á meðal Búddha, Múhameð og Kristur. Ég held að það hafi nú ekki verið sá skilningur sem stjórnandinn ætlaði að tjá.
Dagurinn hófst á helgistund þar sem fallegir sálmar voru sungnir og textar lesnir á ensku, spænsku og þýsku. Leikið var á trommur og slagverk með kröftugum hætti og undir ritningarlestri ómaði seiðandi trumbusláttur. Að helgistund lokinni tók við biblíulestur, en textinn var úr spádómsbók Amosar 5:14-24, og hljómar lokaversið svona á ensku: ,,But let justice roll down like waters, and righteousness like an everflowing stream“. Eins og áður, var skipt í umræðuhópa og í mínum hópi voru leikir og lærðir frá Filippseyjum, Indónesíu, Þýskalandi, Japan, S-Kóreu, Sviss og Danmörku og voru umræðurnar frábærar. Að fá tækifæri til að eiga samtal, um slíkan texta, við fólk sem býr við svo ólíkar aðstæður var hreint magnað.
Í pallborðsumræðum dagsins var Asía til umfjöllunar og staða kristni og trúarbragða í heimsálfunni. Hún var áhrifamikil framsagan sem fjallaði um konur í Asíu. Sýning var sett á svið, með myndum, söng og trumbuslætti, þar sem yfirskrift heimsþingsins var til umfjöllunar, friður og réttlæti. Sú grunnspurning ómaði: ,,Ef þið talið ekki um þessi málefni, hver gerir það þá?“ Og málefnin voru meðal annars, aðgangur að vatni, mansal, kjarnorkuvá, pólitískir fangar og fleira. Ég velti fyrir mér hver málefnin væru í okkar íslenska samfélagi? Einn frummælanda talaði um að vandi Asíu væri græðgi hinna ríku og vitnaði í Ghandi sem sagði: „The world has enough for everyones need, but not for everyones greed.“
Biskup frá Orthodox kirkjunni talaði um þær ofsóknir sem kirkjan býr við í hinum ýmsu löndum. Í Sýrlandi er í gangi borgarastríð og var tveimur biskupum rænt 2. apríl sl. Kirkjur hafa verið brenndar og kristið fólk tekið af lífi. Staðan í Albaníu, Tyrklandi og Pakistan er einnig alvarleg og hætta er á því að kristninni verði útrýmt í þessum löndum, að mati frummælandans.
Í S-Kóreu búa íbúar hins vegar við trúfrelsi, sem virðist sjálfsagt fyrir þær kynslóðir sem nú alast upp. En saga þjóðarinnar er átakasaga, sem sannar að það frelsi var ekki sjálfgefið eða sjálfsagt.
Í dag voru aftur kynnt drög að ályktunum og var aðdáunarvert hve vel skipulögð umræðan var. Tillit var tekið til allra athugasemda og mismunandi skoðunum fundinn farvegur. Allir í salnum voru með tvö spjöld, appelsínugult og blátt, með þeim gat salurinn, allur fjöldinn, gefið til kynna, skoðun sína á því sem var til umræðu. Í staðinn fyrir frammíköll eða fagnaðarlæti lyftu þátttakendur upp spjöldunum til að gefa til kynna þóknun sína eða vanþóknun. Consensus var markmiðið, eða niðurstaða sem enginn væri á móti, og voru spjöldin notuð á sérstaklega áhrifaríkan máta. Til umræðu var einnig skýrsla nefndar sem undirbýr tilnefningar í miðstjórn og trúnaðarstörf fyrir WCC. Allmikil umræða var um allskyns kvóta, kynjakvóta, aldurskvóta, kvóta fyrir landssvæði, leikra og lærðra, fólks með sérþarfir og þannig mætti áfram telja. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þingið mun afgreiða ályktanir um stór mál, en afgreiðslan er á dagskrá eftir helgi.
Í samkirkjulegu umræðum dagsins var rætt um hvað það er sem sameinar okkur sem kristnar kirkjur. Vonin var til umræðu og hvaða atriði væru nauðsynleg til að skilgreina sameiginlega von kristinna manna. Spurningarnar voru spennandi og margt sem flaug í gegnum hugann. Það vantaði hins vegar þónokkra í hópinn, ekki bara vin minn frá Egyptalandi og voru umræður líflegri í gær.
Í kvöld var síðan fundur kirkjudeildanna. Við funduðum með öðrum lútherskum kirkjum og voru þar við stjórnvölin forseti LWF, Munib Younan, og framkvæmdastjóri LWF, Martin Junge. Þeim til aðstoðar var Walter Altman. Margt var rætt á þeim fundi og sagði framkvæmdastjórinn meðal annars: „To be Lutheran is to be ecumenical“ þ.e.a.s. að vera lútherskur er að vera samkirkjulegur.
Hann ræddi tilurð sambandsins og tengslin við WCC. Hann ræddi stöðu sambandsins í nútímanum og þær áskoranir sem mæta okkur og varpaði ljósi á framtíðarsýn sína og markmið. Í gær var siðbótardagurinn og ártalið 2017 var til umræðu. LWF hefur meðal annars lagt áherslu á eitt slagorð sem tengt er þeim tímamótum: ,,Not for sale“ eða ,,ekki til sölu“. Það slagorð vísar til upphafs siðbótarinnar, þar sem Lúther gagnrýndi aflátssölu kaþólsku kirkjunnar og sagði að hjálpræðið væri ekki til sölu. Á grunni sögunnar og þeirrar þekkingar sem lútherskar kirkjur byggja á vill LWF horfa út fyrir kirkjuna, á þessum tímamótum, með þetta slagorð að leiðarljósi og segja: Líffæri eru ekki til sölu, manneskjur eru ekki til sölu, vatn er ekki til sölu, land er ekki til sölu, sköpunin er ekki til sölu osfrv. Slagorðið nær til hinna sameiginlegu gæða jarðarinnar sem allir menn þarfnast, mannhelginnar og vísar okkur til framtíðar, til bjartari tíma, frelsis og upprisu. Hugtökin ,,informed (miðlun-menntun) – reformed (endurbót, siðbót) – transformed (umbreyting), voru nefnd í þessu samhengi, kirkju og samfélags. Framkvæmdastjórinn lagði áherslu á að frá upphafi siðbótar hafa allar kirkjur þróast, breyst, tekið mið af samtímanum osfrv., þess vegna væri mikilvægt að lyfta siðbótinni upp, á þessum tímamótum, sem sístæðum veruleika sem kirkjan er dag frá degi að vinna með. Hann vitnaði til orða Lúthers er sagði eitthvað á þessa leið: „Auch wenn ich wüsste, dass morgen die Welt zugrunde geht, würde ich heute noch einen Apfelbaum pflanzen“ – jafnvel ef ég vissi að á morgun myndi heimurinn farast, þá myndi ég planta eplatréi í dag. http://wcc2013.info/en/news-media/all-news/asia-shares-aspirations-for-justice-and-peace-at-the-wcc-assembly