Jesús skorar á þig!

Jesús skorar á þig!

,,Vertu sú breyting sem þú vilt sjá í heiminum” stendur á húsgafli við fjölfarna götu á Akureyri og stór mynd af uglu, tákni viskunnar, gnæfir yfir. ,,Vertu sú breyting sem þú vilt sjá í heiminum.” Þetta er tilvitnun í indverska stjórnspekinginn Mahatma Gandhi (1869-1948): ,,You must be the change you want to see in the world.”

Ást og áskorun Jesú Með hliðsjón af þeirri staðreynd að Gandhi var mikill aðdáandi Jesú Krists mætti segja að þessi orð spegli þá visku sem við verðum vitni að í guðspjalli dagsins (Mark 8.1-9). Þar segir frá miklum mannfjölda sem enn á ný safnaðist um Jesú. Við heyrum hvernig hann lætur sig ekki aðeins varða andlegar þarfir fólksins heldur einnig líkamlegar. ,,Ég kenni í brjósti um mannfjöldann,” segir hann. ,,Þau hafa ekkert til matar og gætu örmagnast á leiðinni heim.” Þarna kemur umhyggja Jesú skýrt í ljós. Guð lætur sér annt um þarfir fólks, eins og líka er lýst í hinum lestrum dagsins, úr Sálmi 147 og 2. Kor 9. Og gríska orðið sem þýtt er ,,kenni í brjósti um” merkir í raun að finna til djúpt innra með sér, í innstu iðrum; fá sting í hjartað, gætum við sagt.

En tökum eftir því að Jesús lætur ekki nægja að finna til með fólkinu. Hann vill raunhæfar aðgerðir. Hann skorar á lærisveinana að grípa til sinna ráða: ,,Hve mörg brauð hafið þið?” Hvað hafið þið að gefa? Verið sú breyting sem þið viljið sjá í heiminum. Gefið fólkinu brauð. Fæðið þau sem líða skort. Látið gott af ykkur leiða hvar og hvenær sem kostur gefst. Guð gefur svo að við getum gefið. Bænin er máttugt afl Ein leið til að gefa af sér er að biðja fyrir öðrum. Þau sem reynt hafa vita að bænin er máttugt afl, bæði þegar við biðjum hvert fyrir sig en ekki síður þegar við söfnumst saman til að biðja eins og við gerum hvern sunnudag í kirkjum landsins. Þess fyrir utan eru úti um allt land smáir og stórir bænahópar sem koma reglulega saman. Einn slíkur var sérstaklega kallaður saman til að biðja fyrir Íslandi í aðdraganda og kjölfar hrunsins. Þetta er samkirkjulegur hópur og kennir sig við Friðrikskapellu.

Meginbænarefnið þar er landið okkar, farsæld heimilanna í landinu og þau sem stýra málefnum þjóðarinnar. Síðasta laugardag í september, þann 27. september nk., er okkur öllum boðið í Hörpuna til Kristsdags að svissneskri fyrirmynd. Þar munum við sameinast um að biðja fyrir Íslandi og aðstæðum fólks í heiminum. Vonir standa til að bænahópar sem víðast af landinu verði þar sýnilegir ásamt hinni breiðu flóru fólks af erlendum uppruna sem flust hefur hingað til lands. Þannig viljum við fagna fjölbreytninni, þakka Guði fyrir landið okkar og biðja þess að kraftur Krists og kærleikur megi í auknum mæli móta mannlífið (sjá www.kristsdagur.is).

Guðs góða sköpun? Grundvallarhugsun lestranna okkar í dag – og Biblíunnar í heild sinni - er að sköpun Guðs er góð. Veröldin er góð í grunninn. En það hefur heldur betur orðið rof. Frá því að söguritun hófst ber mest á frásögum af stríði og blóðsúthellingum í nafni landvinninga og valds. Hebrearnir sáu skýringuna á þessu í því rofi sem varð þegar í árdaga veraldar með græðginni sem greip Adam og Evu. Þau vildu eiga allt, ekki bara una glöð við gnægtirnar sem þau höfðu fengið í vöggugjöf.

Og með því rofi varð einnig náttúran ofurseld ójafnvæginu. ,,Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans,” segir í Rómverjabréfinu (8.20). Við vitum ekki nákvæmlega hvað í ójafnvægi náttúrunnar er af völdum iðnvæðingar og tæknibyltingar. Sennilega er þó stór hluti nútíma náttúruhamfara af manna völdum vegna þeirrar yfirgengilegu mengunar sem mannkyn síðustu alda hefur leyft sér að hleypa út í umhverfið í græðgi sinni og sókn eftir svokölluðum lífsgæðum. Að hluta til virðast breytingar þó vera innbyggðar í gang náttúrunnar sem nútíma vísindi hafa sýnt fram á að sveiflast á milli kulda og hlýnunar. Við getum samt ekki leyft okkur að yppta bara öxlum og láta sem okkur komi ástand jarðar ekki við. Það sem við getum gert hvert og eitt ættum við að gera. ,,Hve mörg brauð hafið þið?” spyr Jesús, líka í náttúruverndarmálum. Hvað getum við gert til að draga úr þeim skaða sem lífríkið hefur sannarlega orðið fyrir af manna völdum og helst bæta fyrir hann? Framtíð afkomenda okkar er í húfi.

Fasta fyrsta dag mánaðarins Lútherska heimssambandið og fleiri samtök skora nú á fólk að fasta fyrsta dag hvers mánaðar fram að mikilvægum umhverfisfundi á vegum Sameinuðu þjóðanna í Lima í Perú í desember. Fastan er hugsuð til að sýna samstöðu með fólki sem orðið hefur fyrir skaða í náttúruhamförum og til að knýja á um úrbætur í umhverfismálum (sjá www.lutheranworld.org).

Því miður er það svo að við getum ekki snúið til baka til Paradísarástandsins þar sem mannfólk og náttúra lifðu saman í jafnvægi. Mannlega talað er það útilokað. Aðeins Guð er fær um það – þegar tíminn kemur. Engu að síður ber okkur skylda til að gera okkar besta, hvert á okkar stað, til að sporna gegn mengun og öðrum ósóma. Þjóðkirkjan hefur gert sér áætlun um umhverfisvernd sem samþykkt var á kirkjuþingi 2009 og sama ár kom út Handbók þjóðkirkjunnar um umhverfisstarf í söfnuðum, svonefnt Ljósaskref (sjá http://www2.kirkjan.is/sites/default/files/ljosaskrefid.pdf). Þetta eru vissulega lítil skref en allt skiptir máli.

Ógnandi lífsmáti Eins og ógnin sem mannkyni stendur af breytingum í umhverfi sé ekki nóg mengum við líka líf annarra lífvera með framkomu okkar og jafnvel ógnandi lífsmáta. Reyndar er augljóst samhengi á milli friðar og umhverfisverndar – stríðs og mengunar – sem birtist m.a. í hvernig skortur á vatni og jarðnæði til ræktunar getur orðið orsök stríðsrekstrar, t.d. í Mið-Austurlöndum. Einmitt núna finnum við til svo sker í hjartað yfir ofbeldi sem bitnar á saklausu fólki og börnum. Hvernig má það vera að manneskjan snúist enn og aftur svo gegn sjálfri sér að blóð renni og börn missi lífið?

Það er ljóst að alvarlegt mein hrjáir mannkyn og okkar versti óvinur erum við sjálf. Framþróun og tækninýjungar hafa í engu bætt ástand heimsins. Þvert á móti: Manneskjan misnotar sköpunargáfu sína á grimmilegan hátt og virðist fátt hafa lært. Samt eru til alþjóðlegar samþykktir um t.d. vernd almennra borgara og í yfirlýsingu Lútherska heimssambandsins frá 23. júlí sl. er rík áhersla lögð á að farið sé eftir þeim samþykktum. Sömu áherslu er að finna í bæn sem biskup Íslands sendir út og er flutt að hluta hér í dag (sjá www.kirkjan.is/2014/07/biskup-islands-hvetur-allar-bidjandi-menneskjur-ad-sameinast-i-baen-fyrir-fridi/).

Leið Guðs Og Biblían bendir okkur á leið Guðs, sem er leið friðar og kærleika. Biblían birtir okkur mynd hins friðsæla heims í árdaga, kjörlendi sáttar og samlyndis þar sem Drottinn Guð er að gangi í kvöldsvalanum (1Mós 3.8). Þangað þráir manneskjan að hverfa að nýju. Og hvernig það má verða er líka lýst í Biblíunni, eins og t.d. í ritningarlestrum dagsins í dag. Guð býður okkur að setjast í grasið og þiggja nærveru sína að nýju í Jesú Kristi, þiggja kærleika sinn sem kemur á sátt milli Guðs og okkar, sátt við annað folk, sátt við náttúruna, ,,í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs” (Róm. 8.21).

Þessu getum við mannfólkið ekki komið til leiðar með handafli. Við þurfum að þiggja anda Guðs, djúpstæða umbreytingu sem frelsar okkur frá okkur sjálfum, til hins sanna lífs í Krists. Sú umbreyting á sér stað í samfélagi, samfélaginu við Guð og við hvert annað, í bæninni, í lofgjörðinni og við borð Drottins sem gefur okkur sjálfan sig. Breytingin á heiminum byrjar hjá okkur, hjá mér og hjá þér, fyrir náð Guðs.

Hvar finnum við brauð? Í bæn á kirkjan.is segir: „Þú sem gefur okkur allt sem við þörfnumst til að lifa, og gefur okkur Jesú Krist, son þinn, hann sem er brauð lífsins. Opna hjörtu okkar og huga svo að við meðtökum hversu ríkulega gæsku þú sýnir öllum mönnum í Jesú Kristi, bróður okkar og Drottni.“ Jesús fann til með fólkinu. Jesús finnur til með þeim sem líða skort og þjást. Og ekki nóg með það: Eins og Jesús Kristur skoraði á lærisveinana forðum að bregðast við skorti fólksins, þannig skorar hann á okkur í dag.

Við afsökum okkur og segjum: Hvað er hægt að gera í þessum vonlausu aðstæðum? Hvar finnum við brauð í eyðimörk? Jesús spyr okkur á móti: Hvað hafið þið? Notið það sem þið hafið til að blessa aðra, til að vera öðrum blessun frá Guði. Því skulum við biðja Guð um að breyta okkar eigin hjarta, gefa lausn undan hverskonar ófriði og ásækni, gera okkur að farvegi friðar, kærleika, fyrirgefingar, einingar og sannleika, eins og segir í hinni aldargömlu friðarbæn (sjá t.d. á www.pilagrimar.is/Til_umhugsunar.html.). Mættum við bera trú, von, ljós og gleði inn í allar aðstæður, minnug þess að friðurinn byrjar hjá okkur sjálfum.