Táknmál krossins

Táknmál krossins

Þegar ég las þetta varð mér hugsað til Coventry á Englandi. Eftir að dómkirkjan þar hafði verið brennd til grunna í loftárás þýska flughersins árið 1940 rakst steinsmiður dómkirkjunnar á tvo bjálka í rústunum sem mynduðu kross.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
21. ágúst 2011

I Krossinn er helsta tákn kristinna manna. Kirkjur eru gjarnan merktar krossi, þegar við signum okkur merkjum við okkur Kristi og við skírn eru börn merkt krossinum á enni og á brjóst. Við signum yfir vöggu barnsins og þegar við kveðjum látinn ástvin eða vitjum leiðis merkjum við ásjónu látins eða leiðið krossinum og tjáum með því þá von og trú sem ber okkur uppi.

Krossmark eða tákn með krosslögun eru eldri en kristnin og það eru til einhvers konar krosslaga tákn meðal heiðinna þjóða frá öldunum fyrir Krist. Meðal slíkra tákna er sólkrossinn svokallaði, sem tengist sennilega sóldýrkun. Ennfremur má nefna hakakrossinn eða Þórshamarinn. Þjóðernishyggja 19. aldar meðal germanskra þjóða tók það merki upp á arma sína eins og sést t.d. af merki Bókmenntafélagsins og af merki Eimskipafélagsins. Þýskir nasistar tóku merkið upp og ollu því að hakakrossinn er síðan merki ofbeldis og mannhaturs hvað sem upphaflegu tákni hans líður.

Fyrr á öldum álitu margir kristnir menn að tilvist krosstákna meðal heiðinna þjóða væri eins konar fyrirboði eða spádómur um Krist og gáfu táknunum kristna túlkun. Sólkrossinn er meðal dæma um slíkt. Allt fram á 17. öld héldu kristnir menn því fram að postularnir hefðu hlýtt skipun Krists um að gera allar þjóðir að lærisveinum (Matt 28.18) og væru því bæði myndtákn og hugmyndir þjóða um háguði leifar af vitneskju þjóða um prédikun og kennslu postulanna.

Krossinn var pyntingar- og drápstæki í Rómaveldi, eitt hið andstyggilegasta sem um getur í sögu manna en mannkynið hefur í sögu sinni verið býsna fundvíst á drápstól og pyntingaraðferðir. Það munu hafa verið Persar sem fyrst beittu krossfestingu og frá þeim breiddist þessi aðferð út til nágrannaríkjanna. Rómverjar beittu krossfestingu sem dauðarefsingu til handa uppreisnarmönnum eða óvinum ríkisins. Aftökustaðirnir voru á ákveðnum stöðum utan borgarmúra. Bannað var að krossfesta rómverska borgara.

Það er sennilegt að meðal Rómverja hafi krossinn litið út eins og bókstafurinn T, þvertré hafi m.ö.o. verið lagt ofan á staur og hendur sakamanns verið negldar á þvertréð en fætur verið negldar á langtréð, oft ofaná eins konar stuðning fyrir fæturna. Sakamenn voru látnir bera þvertréð frá dómstólnum og til aftökustaðarins en það gat verið þung byrði því að þvertré gat vegið allt upp undir 60 kg. Sakargift fangans var rituð á spjald sem komið var fyrir á stöng ofan á þvertrénu og gat krossinn þá tekið að líkjast krossmarkinu eins og það er algengast hér hjá okkur.

Að krossinn er helsta tákn kristinna manna er ekki vegna dýrkunar á ofbeldi og heldur vegna hins krossfesta Jesú Krists. Ráðamenn Gyðinga létu framselja Jesú í hendur rómverskum yfirvöldum í því skyni að þau dæmdu hann til dauða. Rómversk yfirvöld litu á hann sem uppreisnarmann gegn valdi sínu og því dæmdu þau hann til krossfestingar. Með því gáfu rómverskir valdsmenn til kynna að þeir þyldu enga samkeppni við vald sitt og til háðungar bæði Jesú og Gyðingum settu þeir yfirskriftina: Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga.

Á latínu er sú yfirskrift: Iesus Nazarenus, Rex Iudaeorum, skammstafað INRI. Krossinn var hins vegar ekki lokadómurinn. Páskarnir runnu upp og gröf Jesú reyndist tóm.

Sá sem rómverska valdið taldi sig hafa sigrað reyndist hafa sigrað það vald og hugdjarfir héldu postular, sendiboðar hins krossfesta og upprisna Jesú frá Nasaret og tóku að boða hann sem Drottin og frelsara allra manna.

Pyntingartækið, sem ætlað hafði verið til að kúga fólk og ógna því, breyttist í vonartákn. Kross og krossfesting Jesú hefur verið hluti kristinnar boðunar frá öndverðu. Í prédikun sinni hinn fyrsta hvítasunnudag segir Pétur postuli: „Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt að þennan Jesú, sem þið krossfestuð, hefur Guð gert bæði að Drottni og Kristi.“ (Post 2.36) Og Páll postuli segir í fyrra bréfi sínu til Korintumanna: „Við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,“ (1Kor 1.23) og hann segir líka í sama bréfi: „Þegar ég var með ykkur ásetti ég mér að hafa ekkert í huga annað en Jesú Krist og hann krossfestan.“ (1Kor 2.2)

Þó að krossfesting Jesú hafi ekki verið feimnismál meðal kristinna manna í öndverðu að því leyti sem frásagan af krossfestingu Jesú var hluti kristinnar boðunar og kristinnar fræðslu er ósennilegt að þeir hafi haft myndir af krossum uppi við eða yfirleitt notast við slíkar myndir. Það þarf að muna það að kristin trú var bönnuð í Rómaveldi og fram undir árið 312 komu oft tímabil grimmilegra ofsókna. Að hafa krosstáknið uppi við hefði þá vart gert annað en að vísa lögreglu eða yfirvöldum á kristið fólk til að draga það fyrir dómara. Ef kristnir menn notuðu myndir eða tákn yfirleitt þá leituðust þeir við að notast við annars konar tákn sem ekki voru jafn augljós en hægt var að útskýra. Eitt elsta kristna táknið er fiskurinn en út frá orðinu fiskur á grísku, IXÞYS, var hægt að lesa orðin Jesús Kristur, Guðs sonur, frelsari.

Um miðja 19. öld fundust við uppgröft suður í Rómaborg rústir af herbúðum frá því á annarri öld e. Kr. Á einum veggnum var ristuð mynd sem sýnir mann auðsýna lotningu manni sem hangir á krossi og er sá maður með asnahaus. Áletrun fylgdi þessari mynd er sagði: „Alexamenos tilbiður Guð sinn.“ Sennilegasta skýringin á þessari mynd er sú að hún hafi verið rist í háðungarskyni við kristinn mann, að líkindum grískan, kannske verið grískur þræll, sem vegna trúar sinnar hefur verið athlægi hermannanna.

Ofsóknum gegn kristnum mönnum lauk í Rómaveldi í upphafi fjórðu aldar þegar Konstantínus mikli náði völdum í Rómaveldi. Þegar dró til úrslita í valdabaráttu hans og keppinautar hans um hásætið í október árið 312 sá hann sýn. Hann sá kross á himni sem undir stóð: „Undir þessu merki munt þú sigra.“ Konstantínus fékk sigur og í framhaldinu var kristin trú leyfð sem átrúnaður í Rómveldi í ársbyrjun 313 þó að það hafi liðið upp undir 70 ár áður en kristin trú yrði ríkistrú í Rómaveldi sem var árið 381. Konstantínus gerði krosstákn að merki fyrir her sinn og á 4. öld varð krossinn æ algengari sem opinbert tákn meðal kristinna manna og myndir af krossinum fóru að verða algengar.

II

Það ber að ítreka að kristnir menn hafa ekki krossinn sem slíkan í heiðri heldur tignum við kross Jesú Krists. Án Jesú Krists er krossinn kvala- og eyðingartákn eingöngu. Við kristnir menn heiðrum kross Jesú Krists og það er sakir dauða hans á krossi og upprisu hans frá dauðum að krossinn er tákn vonar, friðar og sátta. Kristur var deyddur á krossi en í upprisu sinni opinberaði hann að hann hefði sigrað dauðann, að dauði hans væri lífgjöf okkar. „Sigrarinn dauðans sanni, sjálfur á krossi dó,“ segir Hólasveinninn Hallgrímur og hann bætir við:

Með sínum dauða hann deyddi dauðann og sigur vann, makt hans og afli eyddi, ekkert mig skaða kann.

Kristur lifði fyrir aðra og hann dó líka fyrir aðra. Í lifanda lífi sinnti hann þörfum þeirra sem á vegi hans urðu og báðu hann ásjár. Sama mynstur fylgdi honum upp á krossinn. Þar bað hann fyrir óvinum sínum: „Faðir, fyrirgef þeim.“ Hann skeytti engu um hæðnishróp andstæðinga sinna en sinnti þeim sem leituðu til hans í neyð, hinum iðrandi ræningja og móður sinni sem hann fól postula sínum til verndar. Krossmarkið bendir frá sér á Jesú Krist frelsara okkar og Drottin.

Þegar krossinn er sýndur einfaldur að gerð merkir hann sigur Jesú yfir dauða, eyðingu og synd. Margir kjósa krossinn í þeirri mynd.

Langtréð, lóðrétti hluti krossins, merkir sáttargjörðina milli himins og jarðar, milli Guðs og manna, en hinn lárétti hluti, þvertréð, merkir sáttargjörðina manna á millum.

Þvertréð minnir líka á útbreiddar hendur, útbreiddan faðm, og minnir á að við erum í lífi og dauða umvafin Jesú Kristi og vernd hans.

Og vegna hins krossfesta er krossinn heilagt tákn sem kristið fólk vill umgangast með lotningu. Gamall trúaður maður vandaði einu sinni um við mig þegar ég notaði í hans áheyrn máltækið: „Svo bregðast krosstré sem önnur tré.“

Það var merkileg frétt hér á dögunum á mbl.is þar sem segir:

Krosslaga stálbiti, sem fannst í rústum Tvíburaturnanna, var tákn vonar í hugum margra sem unnu að björgun úr rústunum og hreinsunarstarfi. Bitinn er nú orðinn að helgigrip og er búið að koma honum fyrir þar sem turnarnir stóðu.

Verkamaðurinn sem sá bitann í brakinu taldi sig hafa reynt kraftaverk. „Ég sá Golgata mitt í allri eyðileggingunni og hörmungunum,“ sagði Frank Silecchia. „Þetta var tákn um að Guð hefði ekki yfirgefið okkur.“ (mbl.is 27.07.11)

Þegar ég las þetta varð mér hugsað til Coventry á Englandi. Eftir að dómkirkjan þar hafði verið brennd til grunna í loftárás þýska flughersins árið 1940 rakst steinsmiður dómkirkjunnar á tvo bjálka í rústunum sem mynduðu kross. Hann batt bjálkana saman og ásamt einum presti dómkirkjunnar fann hann bjálkakrossinum stað á rústum altarisins. Presturinn lét rita á kórvegginn orðin: Faðir, fyrirgef. Presturinn útbjó líka kross úr nöglum úr þaki kirkjunnar. Eftir stríð urðu til alþjóðleg og samkirkjuleg samtök um frið og sáttargjörð sem hafa naglakrossinn að merki.

Íslenskar þjóðsögur geyma sögur af fólki sem tröll seiddu til sín. Það breyttist í flögð en ósnertur var krossinn á enni þess frá því í skírninni. Tákn krossins á enni og brjóst okkar við skírnina merkir að við eigum að heyra til Kristi Jesú og að hugir okkar og hjörtu eigi að helgast fyrir trúna á hann. Krossmarkið er tákn um að í skírninni erum við innsigluð Drottni Jesú Kristi.

Eina sögu af krafti signingarinnar eða krossmarksins sagði gömul kona konu minni fyrir nokkrum árum. Gamla konan hafði átt mörg börn og þegar yngsta barnið var í vöggu dreymdi hana að hinn vondi sjálfur kæmi til sín og segði: „Ég ætlaði að taka drenginn þinn en gat ekki náð honum. Þú varst búin að signa hann.“

III

Ef kross er sýndur með líkama Krists á, nefnist hann róðukross. Ásgeir Blöndal Magnússon segir í Orðsifjabók að orðið róða merki stöng eða staf og sé skylt enska orðinu rod. Persónulega hef ég velt fyrir mér hvort róða þýði ekki mynd og sé myndað af eða skylt sögninni að rjóða.

Róðukrossar eru til í tveimur gerðum. Annars vegar er hin s.k. rómanska róða þar sem Kristur hangir uppréttur og án þess að bera merki þjáningar. Mynd Krists er mynd sigurvegarans, sigrarans dauðans sanna. Róðan frá Upsum er þess konar róða. Rómönsk róða var algengust frá því í fornöld og fram á 13. öld eða fram á daga Guðmundar góða. Hún tjáir þann sigur sem dauði Krists er. Oft var rómanska róðan máluð og skreytt ýmsum táknum til þess að skýra merkingu krossdauða Jesú. Stundum var Kristur málaður í konungsskrúða eða prestsskrúða til að tákna embætti hans sem æðsta prests og konungs.

Á 13. öld – sumir kenna það við Frans frá Assisi – var hér á Vesturlöndum farið að láta róðukrossinn ítreka þjáningu Krists og er sú róða nefnd gotnesk róða. Stóra róðan hér í Hóladómkirkju er gotnesk róða.

Nafngiftirnar rómönsk og gotnesk um róðukrossa taka mið af byggingarstílunum annars vegar hins rómanska og hins vegar hins gotneska.

Það var Þorlákur Skúlason sem útvegaði stóra róðukrossinn til dómkirkjunnar sem Halldóra Guðbrandsdóttir lét reisa hér heima á Hólum eftir að stóra miðaldadómkirkjan hafði fokið í fárviðri 1624. Að líkindum hefur þessi róðukross staðið yfir dyrunum á milligerðinni milli kórs og kirkjuskips og þá sjáum við hversu hátt hefur verið til lofts í Halldórukirkju miðað við núverandi kirkju. Í miðaldakirkjum var algengt að kross stæði yfir kórdyrum. Milligerðin táknaði skilin milli himins og jarðar og krossinn yfir kórdyrum táknaði að það er hinn krossfesti Jesús sem greiðir okkur veg inn í himininn. Það er mjög líklegt að þess konar róðukross hafi verið yfir kórdyrum í miðaldakirkjunni hér en eyðilagst þegar dómkirkjan fauk 1624. Þá þurfti að útvega nýjan kross því að Íslendingar voru mjög fastheldnir á hefðir í húsagerðalist kirkna og héldu milligerðinni milli kórs og framkirkju lengur en nágrannaþjóðirnar. Það sést einna best á því að á teikningunum af núverandi Hóladómkirkju er gert ráð fyrir annars konar innréttingu kirkjunnar en er í kirkjunni og var sú innrétting í samræmi við tískustefnur sem þá voru uppi í Danmörku. Það samþykktu Íslendingar ekki og fengu því ráðið að kirkjan var innréttuð nánast eins og hin fyrri dómkirkja hafði verið.

Þó að Hóladómkirkja sé ekki krosskirkja þá er hún hugsuð út frá krossinum og þannig er yfirleitt með gamlar kirkjur á Íslandi. Kórinn tekur yfir 1/3 hluta hússins og merkir efsta hluta krossins. Núverandi dómkirkja er ekki krosskirkja en miðaldadómkirkjan hafði krossstúkur eða hliðarskip, kapellur, út frá kirkjuskipinu sem samsvara þvertré krossins. Slíkar stúkur sjáum við í miðaldadómkirkjum í nágrannalöndunum. Síðan tekur kirkjuskipið við sem samsvarar neðri hluta krossins.

Á myndum af krossfestingunni frá miðöldum og eins á íkónum sjást stundum persónur sem standa við krossinn og eru það einkum María móðir Jesú og Jóhannes postuli, sem skv. píslarsögunni í Jóhannesarguðspjalli stóðu við krossinn. María er máluð vinstra megin á myndinni en Jóhannes hægra megin. Að María sést vinstra megin merkir að hún er við hægri hönd sonar síns. Vegna þessarar stöðu Maríu við hægri hönd Jesú voru Maríuölturu eða Maríukapellur norðanvert við altarið en norðurhlið kirkju samsvarar hægri hlið Krists..

Minningartaflan um Einar biskup Þorsteinsson hér úti í kirkju byggist á þessu táknmáli. Þar er kona hans í hlutverk Maríu, Kristi til hægri handar, en sjálfur hann í hlutverki Jóhannesar.

Hinn iðrandi ræningi var einnig talinn hafa verið Kristi til hægri handar. Á gotneskum róðukrossum hallar höfuð hins deyjandi Krists til hægri og þar með í áttina að móður sinni og hinum iðrandi ræningja. Síðusárið er líka sett á hægri Jesú.

Þess má geta að þessi mynd af Maríu við krossins skýrir af hverju konur sátu norðanmegin í kirkjum. Þær sátu m.ö.o. Jesú á hægri hönd, Maríumegin, konumegin eða frúarmegin og frúin var ekki prestsfrúin, jafnvel ekki biskupsfrúin, heldur vor frú, María Guðs móðir.

Persónu Jóhannesar postula var stundum í táknmálinu skipt út fyrir Jóhannes skírara sem þá var látinn tákna spámenn og fyrirheit hins gamla sáttmála. María táknaði uppfyllingu fyrirheitanna, fagnaðarerindið, og merkti kirkjuna, kristna menn eins og Hallgrímur segir í 37. Passíusálmi þar sem hann yrkir um Maríu við krossinn og segir hana merkja kirkju Krists. Þess vegna var lesið úr Gamla testamentinu og úr pistlum Nýja testamentisins sunnanmegin í kirkjunni en norðanmegin var lesið guðspjallið. Stóll biskupsins í dómkirkjum var líka norðanmegin og prédikunarstóllinn átti að vera þeim megin.

Suðuráttin í kirkju merkir samkvæmt því fyrirheitin og lögmálið en norðuráttin merkir fagnaðarerindið, að fyrirheitin hafi ræst, lögmálið sé uppfyllt.

Þetta tal um áttirnar er hugsað út frá Jerúsalem. Þangað barst lögmálið sunnan frá Sínaí. Í Jerúsalem var Jesús deyddur og þar reis hann upp frá dauðum. Þaðan sendi hann postula sína að þeir bæru boðskapinn út til Júdeu, Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar, hugsað í norður frá Jerúsalem (sbr. Post 1.8). Austur er átt sólarupprisunnar, átt hins upprisna Krists. Vestur er átt sólsetursins og dómsins. Í hinni stóru miðaldadómkirkju hér á Hólum var að líkindum mynd af dómsdegi á vesturgafli til að minna fólk á að þegar það gengi út úr kirkjunni gengi það í átt til forgengileikans. Að hafa fengið að horfa til hins krossfesta og upprisna Jesú og þegið líkama hans og blóð í heilögu sakramenti gaf fólki djörfung til að takast á við verkefni lífsins í veröldinni fyrir utan.

En af hverju er prédkunarstóllinn oftar sunnanmegin í íslenskum kirkjum en norðanmegin? Það er vegna þess að suðurhliðin er hér á landi birtuhliðin. Menn komu prédikunarstólinn því fyrir við suðurvegg og settu gjarnan glugga yfir stólinn til þess að presturinn gæti notið birtunnar til að lesa prédikun sína og sést það t.d. skýrt í Víðimýrarkirkju.

Í Austurkirkjunni eru helgimyndir – íkón – af krossum oft fagurlega skreyttar ýmsum táknum. Kristur er þar ógjarnan táknaður sem líðandi eða þjáður heldur frekar sem sigurvegari.

IV

Það eru til mismunandi gerðir krossa.

Sá kross sem er algengastur hér um Vesturlönd er s.k. rómverskur kross eða latneskur kross (crux immissa). Hann er gullinsnið og efsti hluti langtrésins á að vera jafnlangur hvorum helmingi þvertrésins. Hlutföllin í Hóladómkirkju og gömlu íslensku sveitakirkjunum eru nánast þau sömu. Gríski krossinn er jafnarma. Á Vesturlöndum er jafnarma krossinn kenndur við heilagan Georg og nefndur St. Georgskross. Hann er t.d. í enska fánanum, sem er rauður jafnarma kross, Georgskross, á hvítum feldi, en heilagur Georg er verndardýrlingur Englands. Georgskross er líka í svissneska fánanum og í fána Rauða krossins.

Péturskross er öfugur kross en sagan segir að þegar þeir postularnir Pétur og Páll voru dæmdir til dauða í Róm hafi Pétur verið dæmdur til krossfestingar. Pétur vildi hins vegar ekki láta krossfesta sig eins og meistari hans og Drottinn var krossfestur heldur á hvolfi. Páll var rómverskur ríkisborgari og var því ekki dæmdur til krossfestingar heldur var hann hálshöggvinn.

Andrésarkrossinn er X laga en Andrés postuli vildi láta krossfesta sig þannig. Andrésarkrossinn er í skoska fánanum sem er blár með hvítum Andrésarkrossi, en Andrés postuli er verndardýrlingur Skotlands. Á 18. öld settu Bretar Írum fána sem var hvítur með rauðum Andrésarkrossi og kenndu við heilagan Patrek, verndardýrling Íra. Írar sjálfir hafa ekki viljað viðurkenna þetta merki en breski sambandsfáninn, Union Jack, er samsettur úr þremur þjóðfánum.

Keltneski krossinn er sérstakt tákn, rómverskur kross með hring á mörkum langtrés og þvertrés. Merking táknsins er sú að hringur krossins tákni alheiminn sem krossinn sker og þannig er boðað að krossinn miðli heiminum fórnandi elsku Krists sem sigrar öll eyðingaröfl, dauða, synd og djöful. Hringurinn getur líka táknað sólina sem lýsir upp jörðina en það er kross Krists sem lýsir mannlífið með kærleika sínum og vekur mönnum von og traust í lífi og dauða. Og minna má á að Kristur er himnasmiðurinn – sbr. sálm Kolbeins Tumasonar – og því skapari sólarinnar.

T kross, crux commissa – samsettur kross. Hann er oft nefndur Antóníusarkross en Antóníus var einsetumaður á Egyptalandi, uppi um aldamótin 300 (c. 251–356).

Svokallaður lykkjukross, crux ansata, ankh kross er fornt tákn. Ankh er egypsk fleygrún sem merkir ódauðleika, jafnvægi.

Fangamarkskross (crux monogrammatica) er myndaður þannig að fangamarki Krists XP snúið þannig að X-ið myndi kross.

Y-kross, gaffalkross er gríski stafurinn Ypsilon, stundum nefndur hökulkross, Y-kross var notað sem dularmerki kristinna manna á ofsóknartímum. Hann er oft nefndur hökulkross því að höklar eru stundum skreyttir slíkum krossum.

Til viðbótar eru ýmsar stílfærðar útgáfur á krossum.

V

Áðan minntist ég á breska sambandsfánann þar sem krosstákn eru uppistaðan. Fánar sem einkenni þjóða urðu ekki algeng fyrr en í lok 18. aldar og á hinni 19. Áður fyrr voru fánar eða veifur tákn mikilsvirtra ætta eða landsvæða og notuðu herir, flotar slík merki. Á miðöldum fóru kristnir konungar að nota krosstáknið í merkjum sínum, líka þeim sem fóru fyrir herjum þeirra. Þannig notaði Konstantínus mikli krosstáknið í merki herja sinna eftir að hann sá sýnina árið 312. Krossfarar notuðu krossa bæði á búninga sína og hersveitir og mátti af gerð krossins sjá hvaða riddarareglu væri um að ræða.

Á helgimyndum er lambið oft tákn Krists og hið sigrandi lamb er gjarnan sýnt með fána, ýmist hvítum með rauðum krossi eða rauðum með hvítum krossi.

Norðurlandaþjóðirnar hafa allar kross í þjóðfánum sínum.

Hinn elsti þeirra er fáni Dana, Dannebrog, hvítur kross á rauðum feldi. Sagan um uppruna hans er sú að árið 1219 hafi Valdemar konungur átt í stríði austur í núverandi Eistlandi, í nágrenni Tallinn. Her hans gekk illa en þá gerðist það að fáninn kom svífandi af himnum ofan og gangur stríðsins breyttist, danska hernum óx ásmegin en óvinirnir hörfuðu. Hvað sem þessari sögu líður þá er öruggt að rauðhvíti krossfáninn var orðinn merki Danakonungs á 13. öld. Á 17. öld skrifaði annálaritari að upphaflegi Dannebrog hefði verið varðveittur í Dómkirkjunni í Slésvík þar til hann nýverið, þ.e. um miðja 17. öld hefði allur fallið sundur vegna fúa og elli.

Svíar fengu sinn fána um 1520. Hann er mótaður eftir sömu lögmálum og danski fáninn en litirnir eru blár og gulur, gulur kross á bláum feldi. Þessir litir voru einkennislitir helstu aðalsættar Svía á miðöldum, Fólkungaættarinnar.

Norski fáninn er næstur. Norðmenn lýstu yfir sjálfstæði 1814 en höfðu lotið Dönum frá því í lok 14. aldar. Sjálfstæði þeirra varð ekki langvinnt í þetta sinn því að þeim var strax skipað undir konung Svía og urðu að una við það konungssamband til ársins 1905. Norðmenn sættu sig ekki við að þurfa að nota sænska fánann og óskuðu sér eigin fána og eftir allangar umræður var árið 1820 sæst á að fáni Norðmanna skyldi vera bláhvítur kross á rauðum feldi. Norski fáninn er í raun samsettur úr fána Dana, hvítur kross á rauðum feldi, en inn í hvíta krossinn er felldur blái liturinn úr fána Svía. En með því fengu Norðmenn fána í litum hinna frönsku byltingarmanna sem voru blár, hvítur og rauður, sbr. bæði franska fánann og þann bandaríska, en stjórnarskrá Norðmanna frá 1814 þótti mjög frjálslynd og róttæk.

Síðan kom röðin að Íslendingum. Einar Benediktsson lagði til að fáninn yrði blár með hvítum krossi, hvítbláinn, og mundu Íslendingar þá geta eignast einkennisliti, bláan og hvítan, líkt og Danir eiga rauðan og hvítan og Svíar bláan og gulan. Hvítbláinn hlaut ekki náð fyrir augum Dana þar eð þeim þótti hann um of líkjast gríska konungsfánanum sem var hvítur jafnarma kross á bláum feldi. Það var Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, sem árið 1906 átti hugmyndina að þeim fána sem síðan var löggiltur þjóðfáni okkar árið 1915. Litir hans, sagði Matthías, táknuðu bláma fjallanna, eldinn í iðrum jarðar og hvítu jöklatindana.

Séra Friðrik Friðriksson túlkaði liti fánans þannig: Rauði liturinn merkir blóð Jesú Krists, hvíti liturinn táknar sakleysið og fyrirgefningu syndanna og blái liturinn merkir himininn – eða með öðrum orðum: Blóð Jesú Krists hreinsar okkur af allri synd og leiðir okkur til sætis hjá sér á himinhæðum.

Yngsti þjóðfáni Norðurlanda er fáni Finnlands frá því 1919. Hann er hvítur með bláum krossi og eignuðust Finnar þá einkennislitina sem Einar Benediktsson hafði ætlað Íslendingum á sínum tíma. Sjálfstjórnarhéröðin norrænu, Færeyjar, Álandseyjar og Grænland, hafa einnig sína fána og er grænlenski fáninn sá yngsti. Grænlendingar vildu hins vegar ekki hafa kross í sínum fána.