Það eru komin jól. Þú hefur beðið lengi og undirbúið margt og nú er orðið heilagt. Þú hefur hlakkað til jóla, þig hefur kviðið fyrir þeim. Kannski hreyfa jólin ekki svo mikið við þér lengur. En tíminn hefur liðið og jólin gengið í garð. Jól að myndast í hjarta þér. Segðu því velkomin við jólagestinn, afmælisbarnið og haltu því hátíð með sjálfum þér og þeim sem eru í kringum þig.
Hin fyrstu jól. Faðir og móðir, barnið lagt í jötu. Jólakortin sýna okkur fegurð og helgi atburðarins. Listamenn hafa gert honum skil, málarar og sálmaskáld. Flestir hafa leitast við að draga fram kyrrð og frið augnabliksins. Ég sá á árinu gamalt stórfrægt listaverk Vegsömun vitringanna eftir Rubens, einn af frægustu málurum sögunnar. Hún lýsti vel þeim fádæmun sem jólaguðspjallið greinir, og ég sá líka á dögunum kvikmyndina um fæðingu frelsarans sem endaði á yfirnáttúrulega fallegri mynd af hinni helgu fjölskyldu og þeim sem umkringdu hana á þessari fyrstu ævistund Jesú.
En hvaða móðir vill ala barn sitt í gripahúsi? Hvaða faðir sér fegurð í þeim aðstæðum? Þau voru þarna komin eftir langa or örðuga ferð og höfð á undan lifað erfiðasta tíma lífs síns. Angist og efi höfðu nagað þau innan og samfélagið að utan með fyrirlitningu sinni. Yfirvöldin búin að gera þau að félagslegu vandamáli með ákvæðum sínum og á næstunni yrðu þau flóttafólk. Skelfilegar kringumstæður satt að segja.
Fegurðin liggur í hinu manneskjulega, jarðneska, og fyrir augum trúarinnar í hinu yfirnáttúrulega, himneska. Það er fegurð í því fólgin að dóttir jarðar opni skaut sitt fyrir nýju lífi. Það er fegurð í því að mega taka barn sitt sér í faðm og hlúa að því. Það er fegurð í því að vera tvö um barnið og sjá gleðina og hamingjuna hvort í annars augum yfir þeirri himnesku gjöf sem lítið nýfætt barn þeirra er. Að vita sig hafa uppfyllt þennan mikilvæga tilgang lísins og sjá sig sem verkfæri í hendi Skaparans sem endurnýjar lífið. Vera á hans vegum í veröldinni.
Það er hins vegar margt sem ógnar þessari fögru mynd lífsins nú sem þá, og ekki allir heldur sem upplifa það með gleði, eða eiga því hlutskipti að fagna að verða foreldri. Gleðin getur snúist undrafljótt í sorg. Þá umfram allt er okkur það mikilvægt að vita okkur í gæslu Guðs, vita hann næstan okkur. Þá er okkur trúin mikilvægari en nokkru sinni.
Jólin boða okkur trú. Trú á að allt sé í hendi Guðs, stórt og smátt. Litla jólabarnið óx úr grasi sjálfu sér og öðrum til gleði, gaf tilverunni allt sitt fegursta en var líflátinn af vonskunni og endaði dag sinn einn og yfirgefinn á krossinum. En svo reis hann upp frá dauðum og leiddi í ljós líf og ódauðleika. Guð yfirgaf hann ekki og hann yfirgefur okkur ekki heldur.
Veðrabrigði lífins eru mörg en framundan er himinn Guðs, eilífiðin í ljósinu hans. Það er okkur hulið hvað verður á morgun en jólin boða okkur að himininn sé stiginn niður til okkar með frið sinn og fögnuð sem allt um allt verður hlutskipti okkar að lyktum.
Mitt fley er svo lítið en lögurinn stór. Mitt líf er í frelsarans hönd. En hann stýrir bátnum þó bylgjan sé há beint upp að himinsins strönd.
Þetta kenndi hann sr. Jón Ísfeld okkur börnunum á Bíldudal og þessar línur hafa fylgt okkur flestum síðan. Sagt okkur að við ferðumst ekki um tímans haf án verndar. Það hefur styrkt okkur í erfiðleikum og verið okkur áskorun í stórræðum. Mitt líf er í frelsarans hönd.
* * *
Jólin eru sneiðmynd af lífi þínu. Sýna þér hvernig lífið er þessa stundina og þú gleðst yfir því sem þér hefur fallið í skaut síðan um seinustu jól og tregar það sem þú hefur tapað. Þessi jól sýna þér líf þitt í augnablikinu en ekki hvernig það verður, né hvernig það var. Minningar og vonir dansa saman í kringum jólatréð þitt og leiða sitthvað í ljós sem þú getur þakkað og í öllu falli lagt í hönd Guðs.
Við þig sem ert full trega við ég segja þetta: Þitt líf er heilt líf þegar því hefur verið lifað öllu, heil mannsævi. Þá túlkar engin einn dagur þess líf þitt öðrum dögum fremur. Dagurinn í dag verður þá í röð margra annara daga sem byggja upp líf þitt til þessa. Miklaðu hann því ekki fyrir augum þínum. Hvort þessi dagur kunni að vera dapur eða glaður mótar hann einn ekki líf þitt.
Þannig skoðað tilheyrir þér allt hið liðna jafnt og það sem þú átt í dag. Þau sem frá þér eru farin eru hluti lífs þíns og það sem þú varst ertu í þeim skilningi enn. Þó þú sért núna einn ert þú fjölskyldumaður, eignmaður, eiginkona, foreldri, alltént barn, eitthvað af þessu, eitt eða fleira. Aðrir tilheyra þér á sama hátt, og þau sem næst þér hafa staðið og standa eru fjölskylda þín. Þannig aldrei einn, þú tilheyrir öðrum ævinlega, og þú tilheyrir himninum.
Þú sem ert svo gæfusamur að hafa börn þín og maka hjá þér ert kallaður á þessum jólum til að gefa þeim það besta sem þú átt. Það er jólagjöfin sem þú hefur verið að leita að alla aðventuna og hún býr í þér sjálfum, sjálfri. Leyfðu augum þínum að fyllast elsku og þakklæti þegar þú horfir á þau í hlýju skini jólaljóssins og þú munt gera þitt besta að jólamyndin verði enn glaðlegri og fegurri þessi jólin en í fyrra.
* * *
Um jólin höfum við látið flestar þær varnir falla sem við höfum uppi endranær. Við erum því í senn mótækilegri fyrir elsku og illsku. Förum því varlega.
Höfum aðgát í nærveru sálar. Komum skýrum skilaboðum á framfæri. Segjum: Ég elska þig. Jólin eru sá tími þegar Guð segir þetta: Svo elska ég heiminn, þig, að ég gef þér sjálfan mig að þú ættir mig að nú og ævinlega, þér til frelsis. Hann veri ávallt styrkur þinn og upprövun, huggun og hjálp. Við skulum að dæmi hans taka hvert annað að okkur og gera hvert öðru lífið auðveldara og hamingjuríkara. Byrjum heima. Leggjum árherslu á framkomu okkar gagnvart þeim sem standa okkur næst, fjölskyldu okkar. Byrjum núna.
Fjölskyldumyndin þín er prentuð á pappír. Fjölskyldan sjálf er þrykkt í lófa Guðs. Hann gleymir engu barna sinna. Varðveiti hann þig og þína og gefi gleðileg jól. Í Jesú nafni. Amen.
Héðan úr Dómkirkjunni berast kveðjur um allt land og landa milli, til þeirra sem eru bundin við sjúkrabeð og þeirra sem störfum gegna á hatíðinni, óskir um heill og gleði, frið og farsæld.
Gleðileg jól.