Krakkarnir í Hagaskóla gengu á undan með góðu fordæmi. Nú á föstudaginn tóku þeir sér frí í fyrstu skólastundum og marséruðu að húsnæði Kærunefndar útlendingamála á Skúlagötu. Þaðan lá leiðin í dómsmálaráðuneytið. Erindið var að sýna skólasystur þeirra, henni Zainab Safari stuðning og fjölskyldu hennar en til stendur að flytja þau af landi brott. Þau afhentu alls 6000 undirskriftir sem þau höfðu safnað í mótmælaskyni. Við sem fylgdumst með þessari athöfn, þessari stórbrotnu yfirlýsingu, hlutum að hrífast með. Já, þarna gengu þau á undan með góðu fordæmi
Raddir framtíðar
Við höfum líka fylgst grannt með því þegar börnin
skrópa í skólanum og mótmæla sinnuleysi stjórnvalda og almennings í loftslagsmálum.
Greta Tungberg, sænska stúlkan er frumkvöðullinn að þeim aðgerðum og hún hefur
vakið athygli á þessum vanda. Það var þá kominn tími til að æskufólk taki
frumkvæðið í þessum málaflokki. Ekki höfum við staðið okkur. Við getum gert ráð
fyrir því, að óbreyttu að börnin úr Hagaskóla og jafnaldrar þeirra verði uppi allt til loka 21. aldarinnar. Mikið þarf að breytast til að
heimurinn verði jafn vænlegur staður til búsetu á þeim tíma. Ég hef oft velt því
fyrir mér hvort stöðugur niður í afþreyingu og auglýsingu hafi þann tilgang að
yfirgnæfa þá rödd samviskunnar sem segir okkur að bregðast við og breyta háttum
okkar. Nú sjáum við að það er eitthvað að gerast: „Við erum bara börn, framtíð
okkar skiptir máli“ hrópa þau í suddanum á Austurvelli. Og við megum alveg líta
okkur nær, við sem skilum þessum heimi til þeirra.
Undanfarnir áratugir hafa reyndar verið þeir bestu
í sögu mannkyns. Þrátt fyrir allt, þá höfum við líklega aldrei verið meira til friðs
svona ef horft er til styrjalda og átaka. Okkur hefur fjölgað gríðarlega á þeim
tíma. Skuggarnir eru samt aldrei langt undan. Við höfum mjög sennilega náð
þessum árangri með ægilegri ofbeit og valdníðslu á móður jörð sem sendir okkur
nú viðvaranir úr öllum áttum um að tími er kominn til að breyta lífsháttu
okkar. Við gægjumst einmitt inn í framtíðina, þessa dagana. Og það
eru börnin okkar sem hjálpa okkur til þess.
Við fyllumst von, þegar börnin stíga fram eins og stór fylking af leiðtogum sem berjast fyrir bættum heimi og ákveðnum réttindum sem öllum á að standa til boða. Já, það er skelfilegt að horfa upp á að barn úr íslenskum grunnskóla þurfi að taka sig upp og setjast að í yfirfullum flóttamannabúðum.
Sú var tíðin að fátækt fólk á Íslandi var flutt hreppafutningum á milli bæja. Fólkið var boðið niður – eins og það var kallað en þeir húsbændur sem sættu sig við lægstu fjárhæðina með hverri fátæklingi frá hreppnum tóku viðkomandi inn á heimili sitt. Fyrir vikið voru börn tekin frá foreldrum sínum og sjálft hafði fólkið ekkert um það að segja hvert það lenti. Þetta fyrirkomulag er svartur blettur á Íslandssögunni. Kannske þó ennfremur á kirkjusögunni. Jú, af hverju átti kirkjan að beita sér gegn þessu? Vegna þess að eitt af því sem kirkjan átti að standa vörð um, voru grundvallarréttindi manneskjunnar og auðvitað helgi fjölskyldunnar, sem þarna var fótum troðin.
Réttindi
Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar við hugleiðum
einhverjar þekktustu reglur sem skráðar hefur verið, einmitt þær sem hér voru
lesnar upp: Boðorðin tíu. Það hefur ekki verið lítið ólag á þessum hópi sem fékk
að heyra þau í fyrstu og greinilega hefur verið þörf að skerpa á málunum. „Þú
skalt ekki“ hljómar í sífellu næstum eins og vandarhögg á óþekkri
mannsálinni. Það er eins og þarna hafi fólk einmitt gengið um myrðandi og
stelandi. Sagan segir að Móse hafi opinberað þessar reglur Ísraelslýð sem var á
eyðimerkurgöngu sinni í leið til fyrirheitna landsins. Hefð er fyrir því að túlka
líf þeirrar þjóðar sem úrtak af sjálfu mannkyni.
Í því sambandi draga þessi skilaboð upp þá mynd af
okkur mönnunum að við hættum okkur iðulega út fyrir öll eðlileg mörk í
samskiptum okkar hvert við annað. Stöðugt þarf að slá á fingur, stíga á tær,
setja skorður. Ekki stela, ekki myrða, ekki ljúga einhverju upp á fólk, ekki
girnast, ekki girnast – já það er tvítekið og fylgir næsta merkileg upptalning
í kjölfarið.
Þegar við ræðum við fermingarbörnin um boðorðin þá reynum við að skoða þau ekki bara frá sjónarhóli þeirra sem mögulega kunna að brjóta gegn þeim. Við spyrjum okkur hver hafi mest gagn af því að slíkar reglur séu til staðar. Við reynum líka finna hvaða verðmæti það eru sem hvert boðorðanna fjallar um. Þarna getum við rennt í gegnum þennan lista og sitthvað blasir við okkur í samtalinu. „Þú skalt ekki mann deyða“ já, lífið er dýrmætt. „Þú skalt ekki stela“ eignarrétturinn er friðhelgur. „Heiðra skaltu föður þinn og móður“ fjölskyldan skiptir máli og svona getum við haldið áfram. Orðsporið má ekki sverta, ekki saurga líkama okkar eða annarra.
Þetta er í rauninni mannréttindayfirlýsing sem við eigum að taka alvarlega. Og það sem meira er, þau hafa mest gagn af slíkum reglum sem geta ekki staðið á eigin rétti með aflsmunum eða öðrum yfirburðum. Skýrasta dæmið um slíka hópa eru einmitt börnin.
Þegar Hagaskólakrakkarnir gengu fylktu liði með undirskriftalista þá vöktu þau athygli á réttindum stúlkunnar Zainab Safiru og fjölskyldu hennar. Með sama hætti þegar efnt er til loftslagsverkfalls, vilja börnin standa vörð um þau verðmæti sem lífið er, náttúran og umhverfið. Og kirkja 21. aldarinnar hefur í þessum efnum staðið sig talsvert betur en oft áður í gegnum tíðina. Ekki bara á Íslandi heldur víðsvegar á Vesturlöndum. Hún hefur tekið sér stöðu með þeim sem öfgahópar ráðast gegn og hún hefur markað skýra stefnu í umhverfismálum.
Boðorðin tíu eiga erindi
inn í brotinn heim þar sem jafnvægi á það til að raskast eða jafnvel hverfa
veg allrar veraldar. Þau eru sett fram með afgerandi hætti. Forsendurnar sem
þau byggja á eru einmitt þær að fólki hættir til þess að gera mistök, sýna ranga
hegðun, leita ekki þeirra leiða sem bestar eru. Það er þetta sem guðspjallið
fjallar í rauninni um. Þetta er ein af þessum samræðum sem Jesús átti við harðlínumenn í því samfélagi sem hann var hluti af. Hér
er tekist á um stór hugtök – sannleika og lygi, heiðarleika og fals. Rétt eins
og í allri umræðu færist sjónarhornið frá sjálfu málefninu og yfir á brautir
sem okkur eru gamalkunnar: „Er það ekki rétt að þú sért samverji og hafir illan
anda?“ segja þeir við hann. Með öðrum orðum – ert þú ekki útlendingur – af hverju
eigum við að hlýða á orð þín? Samverjar voru jú einkar óvinsæll minnihlutahópur
þarna í Ísrael.
Sjálfur dró Jesús saman
efni boðorðanna tíu í texta sem kallaður er tvöfalda kærleiksboðorðið. Það er
svohljóðandi:
Elska skaltu Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.
Við hvetjum fermingarbörnin til að læra þessi orð því
þarna þau eru hafin yfir öll þau landamæri sem þrengja að
hugsun okkar og gjörðum. Það eru alls óháð strikunum sem við drögum á kortin og
skipta þeim í lönd og ríki. Þau láta sig að sama skapi litlu varða mörk tímans –
náungar okkar eru líka þau sem taka við þeim heimi sem við skilum af okkur.
Og svo þegar Jesús var beðinn um að skýra betur
hvað það hann átti við með því að við ættum að elska náunga okkar, þá sagði
hann einmitt hina kunnu dæmisögu um Miskunnsama Samverjann, útlendinginn sem
vann kærleiksverkið og stóð svo miklu framar prestinum og levítanum. Nú þurfum
við að axla þá ábyrgð að lifa í anda þessa boðskapar. Börnin okkar hafa sannarlega
gert sitt til að brýna okkur áfram.