Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig“
Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“ Jóh 21.15-19
Nú eru kosningarnar afstaðnar, þær mikilvægustu um langt árabil. Hér hefur orðið mikil vinstrisveifla og svo virðist sem fram hafi komið sterk krafa um að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Við lifum á óvenjumiklum örlagatímum og sú ríkisstjórn sem hér verður mynduð fær það vandasama verk að leiða þjóðina í gegnum miklar breytingar og efnahagslega endurreisn. Kosningarnar eru líka uppgjör við óhefta frjálshyggju sem hér hefur ríkt síðustu ár og skýr skilaboð um að þjóðin vilji að stjórnmálamenn hafi heiðarleika, gegnsæi og jöfnuð að leiðarljósi. Við skulum hafa komandi ríkisstjórn í bænum okkar.
Stjórnmálaforinginn
Jóhanna Sigurðardóttir er sá stjórnmálaleiðtogi sem kemur einna sterkust út úr kosningunum. Hennar tími er kominn. Hún var ekki í tísku á góðæristímanum en er það núna þegar kreppir að í þjóðfélaginu. Nú lítur fólk til hennar og þeirra gilda sem hún hefur staðið fyrir árum saman, sem eru jöfnuður og stuðningur við þá sem minna mega sín. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með hve mikilvægu hlutverki formenn stjórnmálaflokkanna hafa gegnt í kosningabaráttunni. Þeir hafa gefið flokkum sínum andlit og ímynd. Samfylking og Vinstri grænir eru mjög ungir flokkar þó að þeir standi á gömlum merg. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með sögu þeirra og þróun. Ávallt hafa foringjar þeirra leikið mjög mikilvægt hlutverk
Mig langar að ræða aðeins um mikilvægi persónu foringja því að guðspjallið í dag fjallar m.a. um það.
Forstjórinn
Hlustaði eitt sinn á mann sem hafði þann starfa að gera úttekt á sprotafyrirtækjum til að meta hvort þau væru fýsilegir fjárfestingarkostir fyrir fjárfesta og hvort skynsamlegt væri að verða við beiðni stjórnenda þeirra um fjármagn til að breyta snilldarhugmyndum þeirra í verðmætar markaðsvörur. Þótt stjórnendurnir legðu fram góðar viðskiptaáætlanir þar sem gengið var út frá góðum rekstri og miklum hagnaði lofað var það ekki nóg. Mikilvægasti þátturinn í rannsóknarferlinu var að meta hvort stjórnendur sprotafyrirtækjanna væru traustir og heilsteyptir einstaklingar og hvort líklegt væri að þeir væru líklegir til að láta áætlanir sínar verða að veruleika. Maðurinn og þeir sem störfuðu með honum við rannsókn fyrirtækjanna höfðu samband við skattayfirvöld, endurskoðendur og fleiri aðila sem hafa eftirlit með rekstri fyrirtækja. Talað var við fyrrum samstarfsfólk forstjórans og það spurt um samstarfið, hvernig starfsmaður hann hefði verið, um persónleika hans, hvort hann hefði verið heiðarlegur og áreiðanlegur. Saga hans og persónuhagir voru kannaðir, saga hans í viðskiptum, hvort áætlanir hans hefðu staðist áður og hvort ætla mætti í ljósi fortíðarinnar að viðskiptaáætlun hans stæðist í þetta skipti. Rannsókninni var sem sagt beint að persónu forstórans, hversu heilsteyptur hann væri og hvort hann væri heiðarlegur.
Kirkjuleiðtoginn
Jesús gerir þetta líka í guðspjallinu í dag. Hann er að byggja upp eins konar fyrirtæki, kirkju sína. Hann birtist lærisveinum sínum í þriðja sinn eftir upprisuna. þeir voru vonsviknir og niðurbrotnir því að vonir þeirra um nýja ríkisstjórn og endurreisn ríkisins, nýs Ísraels, sem þeir vildu byggja með Jesú voru orðnar að engu. Þeir höfðu lagt allt í sölurnar og yfirgefið útgerðarfyrirtæki sín og önnur áhugamál til að vinna að því að gera drauminn að veruleika. Við lesum í guðspjöllunum að lærisveinarnir földu sig í loftherbergjum eftir krossfestingu Jesú af ótta við að verða teknir fastir og teknir af lífi eins og hann. Þetta voru óskapleg vonbrigði. Lífið hafði tekið óvænta stefnu. Nú voru þeir aftur komnir í sömu stöðu og þegar þeir kynntust Jesú í upphafi, voru aftur farnir að stunda fiskveiðar. Að hætti fiskimanna á þessum slóðum veiddu þeir á nóttunni þegar fiskurinn leitaði upp á yfirborðið er vatnið kólnaði en þessa nótt var engin veiði. Ókunnur maður á ströndinni sagði þeim að kasta netinu hinum meginn við bátinn, eins og það skipti máli. En það undur gerðist að netið fylltist svo mjög að þeir gátu ekki dregið það inn. Pétur hafði áður orðið fyrir sams konar lífsreynslu. Jesús sagði honum þá að leggja netið hinum meginn við bátinn eins og nú og kallaði hann síðan á stönd þessa sama vatns til að fylgja sér og veiða menn í stað fisks. Sá atburður var ljóslifandi í huga hans og sumum lærisveinanna. Þess vegna áttuðu þeir sig á því að maðurinn á ströndinni var Jesús sjálfur. Það var þá satt sem sumir sögðu að hann væri upprisinn. Þarna kom hann til þeirra og kveikti von mitt í sorg og vonleysi. Hér var hinn heilagi Guð nálægur þótt erfitt væri að skilja samhengi hlutanna. Hinn örgeðja Pétur gat ekki beðið eftir að báturinn næði landi heldur stökk hann því frá borði og óð í land til að geta hitt Jesú sem fyrst. Jesús útbjó máltíð fyrir fiskimennina, útdeildi brauði og fiski eins og hann hafði gert svo oft áður í samfélagi þeirra. Nærvera hans var kunn og góð. Hann var hjá þeim sem maður sem mataðist með þeim en ekki sem óhlutstæð vofa. Svo virðist sem Jesús hafi ætlað að fara ofan í saumana á Pétri þennan dag, persónuleika hans og hollustu. Pétur var einn þriggja lærisveinanna sem Jesús hafði undirbúið markvisst til að verða aðalleiðtogar kirkjunnar þegar hans nyti ekki lengur við. Þessir þrír, Pétur, Jakob og Jóhannes, voru oft einir með honum og urðu vitni að mörgu merkilegu, bæði í samtölum og hvernig hann bar sig að í samskiptum við fólk. Þrátt fyrir miklar játningar Péturs um að hann teldi Jesú vera messías og yfirlýsingar um að hann væri reiðubúinn að deyja fyrir hann gugnaði hann frammi fyrir þernu og neitað því þrisvar að hafa nokkurt tíma heyrt minnst á meistara sinn. Þess vegna er athyglisvert að Jesús spyr Pétur einmitt þrisvar sinnum hér: „Elskar þú mig?“ Og hann fær sama svarið í öll þrjú skiptin: „Þú veist að ég elska þig.“ Það er eins og Jesús segi við hann: Þú afneitaðir mér viltu samt vera vinur minn? Jesús er mjög ágengur, fer inn í kviku á Pétri. Í lok samtalsins tekur Jesús hann algjörlega í sátt og setur hann inn í embætti sem leiðtogi lærisveinanna og segir honum að gæta sauða sinna. Pétur varð héðan í frá heilsteyptur leiðtogi. Hann reyndist heilshugar og sannur og afneitaði meistara sínum ekki framar. Sú þjónusta varð honum dýrkeypt, kostaði hann lífið en talið er að Pétur hafi verið krossfestur hvolfi af því að honum fannst hann ekki verður þess að vera krossfestur á sama hátt og Jesús.
Jesús kom til lærisveinanna þegar lífið var myrkri hulið og virtirst vonlaust. Hann kom með nærveru og merkingu þótt þeir skildu hana ekki fyllilega fyrr en síðar. Þannig vill hann koma inn í aðstæður okkar hverjar sem þær eru, erfitt hjónaband, erfiðleika á vinnustað, atvinnuleysi, brostna drauma, sjúkdóma, eiturlyfjaböl og sorg vegna missis. Hann kemur í kærleika, og segir: Ég er hjá þér, þú ert það dýrmætasta sem ég á, mér er annt um þig. Segðu mér frá aðstæðum þínum og líðan. Oft gerum við okkur ekki grein fyrir nærveru hans og handleiðslu fyrr en síðar. En við megum biðja hann og ákalla um hjálp, styrk, úrlausn og meiri trú. Við þurfum líka að styrkja hér samfélag trúaðra þannig að við getum verið hvert öðru meiri styrkur og líkamleg nærvera Jesú Krists.
Pistillinn okkar styrkir þessa trú á nærveru Jesú:
Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.… Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.… þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
Návist foringjans
Ég las eitt sinn bók eftir erlendan prest sem sagði frá því að hann heimsótti hjúkrunarheimili í sókn sinni einu sinni í viku. Reksturinn var slæmur, starfsfólkið allt of fátt og þarna var margt fólk illa á sig komið, hjálparvana og afskipt og beið dauðans. Illan daun lagði á móti þeim sem lögðu leið sína inn á þennan stað og presturinn sagðist hafa farið þangað af eintómri skyldurækni. Á einni af verstu deildunum þar sem flestir voru út úr heiminum var gömul kona sem hafði dvalið þar í 25 ár. Hún var óluð niður í hjólastól og var illa farin til heilsunnar. Andlit hennar var afskræmt af krabbameini og hún hafði stórt sár á hálsinum. Hún var blind og hafði mjög skerta heyrn. Útlit hennar var svo slæmt að nýliðar voru látnir byrja á að hugsa um hana til að vita hvort þeir hefðu nægan innri styrk til að geta unnið á deildinni. Dag einn heilsaði presturinn konunni af tilviljun eftir að hafa leitað árangurslaust að fólki með ráði og rænu og gaf henni rós. Hann átti ekki von á að hún tæki undir kveðju hans en hún lyfti blóminu upp að andliti sínu til að finna ilminn. Síðan spurði hún með sínum bjagaða talanda hvort hún mætti ekki gefa hana einhverjum öðrum því að hún væri blind. Presturinn var hissa á því að konan virtist vera með skýra hugsun. Síðan ýtti hann henni í hjólastólnum til manneskju sem hún vildi gleðja með blómi og fallegum orðum. Eftir þetta heimsótti hann konuna vikulega í þrjú ár og las oft fyrir hana úr Biblíunni og söng sálma með henni og komst að því að hún kunni heilu kaflana í ritningunni utan að og einnig sálmabókina. Oft nam hún staðar í söngnum eða gerði athugasemd þegar hann las og talaði um hvernig ákveðið vers talaði inn í aðstæður hennar. Aldrei minntist hún á einmanaleika eða þjáningu sína. Eftir því sem tímar liðu gerði presturinn sér grein fyrir að hann fékk meira út úr samskiptum sínum við þessa konu en hún við hann. Eitt sinn spurði hann hana um hvað hún hugsaði þar þegar hún lægi ein í rúminu sínu langtímum saman. Hún sagðist hugsa um Jesú og hve góður hann væri við sig, hve honum þætti vænt um sig. Þannig náði hún að hefja sig upp yfir veikindin og ömurleikann í kringum sig og nærast á trúnni og vitundinni um nærveru Jesú Krists. Þessi saga er sönn og vitnisburður um mátt kristinnar íhugunar og bænar, hvernig hægt er að rækta með sér meðvitund um nærveru Jesú og styrkjast í trúnni á óbifanlegan kærleika hans mitt í erfiðum aðstæðum. Jesús er nálægur lærisveinum sínum líka núna. Hann býr í þeim í heilögum anda.
Foringinn og ég
Jesús var nærgöngull við Pétur því að hann vildi gera hann að fylgjanda sem væri heils hugar við hann. Hann á einnig sama erindi við okkur. Hann spyr okkur hvort við elskum hann séum fús til að fylgja honum án skilyrða. Elskar þú mig? Hann vill gera okkur að heilsteyptum lærisveinum.