Hver er þín guðsmynd?

Hver er þín guðsmynd?

Í Gamla testamentinu segir einmitt frá því að alltaf þegar maðurinn lætur sér detta í hug að hann hafi skilið að fullu Guðdóminn eða höndlað Guð, þá birtist Guð manninum á einhvern nýjan og fyllri máta. Kannski er það einnig reynsla þín, eins og mín.

Sl. 33:12-22, Kólossubréfið 1:24-29, Jh. 1:43-51

Biðjum:

Ó leið mig þá leið, svo legg ég af stað,

svo legg ég af stað með Guði.

Leið trúar, leið trausts, leið tryggðar hvern dag,

er treysti ég einum Guði. Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Biblían á tímum Jesú

Hvernig las Jesús Biblíuna?

Á tímum Jesú var Biblían lesin í hópi. Hún var ekki til á hverju heimili eins og í dag, hún var einungis til í helgidóminum og þá kannski bara einstaka rit úr helgiritasafninu. Helgiritið var því samfélagsleg eign. Svo var það einhver sem las textann fyrir hópinn, svona svolítið eins og við gerum enn í dag í helgihaldi kirkjunnar. Og svo var textinn ræddur.

Hvað þýðir þessi texti fyrir líf okkar í dag?

Talar textinn inn í okkar aðstæður? Og allir höfðu skoðun, kannski eins og í dag.

Á tímum Jesú var Biblían einungis Gamla testamentið, eins og þið þekkið.

Svo í kjölfar fæðingar Jesú urðu til heilmörg fleiri rit, sem mörg hver rötuðu í bókasafnið, sem stækkaði til muna, og til varð Nýja testamentið.

Helgihaldið okkar

Úr þessum ritum öllum lesum við í helgihaldi kirkjunnar. Fyrst er lesin lexía úr Gamla testamentinu, sem var skrifað áður en Jesú fæddist. Svo er lesinn pistill úr Nýja testamentinu, oft eftir Pál postula og síðan er lesinn texti úr einu af fjórum guðspjöllum, sem er þá gjarnan frásaga af Jesú sjálfum, eða texti sem tengist honum beint. (eins og við tókum eftir hér áðan)

Áður en ritum Nýja testamentisins var safnað saman í eina bók, Nýja testamentið, þá ferðuðust hinir fyrstu kristnu söfnuðir milli hinna markverðu staða, til að rifja upp lærdóma Jesú. Betlehem, Golgata, Emmaus og Kana, svo einhverjir staðir séu nefndir. Svo þegar kristnin breiddist út um heiminn voru það textarnir sem tóku við og færðu okkur atburðina til okkar heimahaga. Á jólum lesum við til dæmis um fæðingar-atburðina í Betlehem, og á páskum um atburði krossfestingarinnar á Golgata, og þannig mætti áfram telja. Ávallt erum við með nýja og nýja texta, nýjar og nýjar sviðsmynd á hverjum sunnudegi, hverjum helgidegi ársins, allt eftir því hvaða tímabil, lærdómar eða áherslur eru á dagskrá hverju sinni.

Guðsmyndir

Í kirkjunni tölum við um Guð, lesum um Guð, biðjum til Guðs, hlustum á Guð.

En hvaða mynd hefur þú af Guði í þínum huga? Hver er Guðsmynd þín?

Gamall karl, með hvítt skegg upp á fallegu skýi?

Kannski hefur sú Guðsmynd gengið kynslóð fram af kynslóð, vegna textans sem lesinn var hér áðan úr Davíðssálmum, en þar segir m.a.:

Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn. Frá hásæti sínu virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa, hann sem skapaði hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.“

Þetta er texti úr Davíðssálmi 33. Þetta er sem sagt sálmur, ljóð, ekki náttúrulýsing eða raunvísindatilraun. Textarnir í Biblíunni eru margskonar og birtingarmyndirnar af Guði eru ýmsar.  

Guð birtist Móse til dæmis í logandi runna, eins og segir í annarri Mósebók (2. Mós. 3:1-4):

Þá birtist honum engill Guðs í eldsloga sem stóð upp af þyrnirunna. Hann sá að runninn stóð í ljósum logum en brann ekki. Móse hugsaði: „Ég verð að ganga nær og virða fyrir mér þessa mikilfenglegu sýn. Hvers vegna brennur runninn ekki?“ Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“

Samhengi þessarar frásögu er það, að þjóðin, Ísraelsþjóðin, er þarna þrælar í Egyptalandi og Móse tekur við því hlutverki að leiða þjóðina úr þrældómi til frelsis.

Þarna er líka býsna ný hugmynd á ferðinni. Guð sem á í samskiptum við mannfólkið og Guð sem ber hag fólks fyrir brjósti.

Fyrir þennan tíma og kannski á öllum tímum er það reynsla manna að ógnirnar sem manneskjan reynir á eigin skinni, veikindi, dauði, náttúruhamfarir, kallar gjarnan fram þá spurningu, hvar er Guð? Er Guð til? Vill Guð eitthvað með heiminn hafa að gera, og hvað með mig og okkur? Hvað með líf okkar hvers og eins?

Einn af rauðu þráðum Biblíunnar er einmitt sú Guðsmynd að hugsun sé að baki öllu lífi, kærleikans hugur. Að Guð sé sá kærleikskraftur, sem að baki öllu lífi býr og einnig þér.

Eins og segir svo ágætlega í ljóði Steingríms Thorsteinssonar:

Guð í alheims geimi,
Guð í sjálfum þér.

Guð er þannig allt í öllu, í innsta kjarna frumunnar og í fjarlægustu stjörnuþokunni. Þetta er nú eitt meginstefið í Biblíunni, það er s.s. sá boðskapur að Guð geti leitt manninn til frelsis, sjálfstæðis og heilbrigðis.

Við eigum sjálfsagt flest vini og/eða fjölskyldumeðlimi sem glíma við neyslu, áfengis eða vímuefna, sem glíma við að hætta að drekka, vilja hætta neyslu, slík dæmi eru víða, kannski þekkjum við slíkt á eigin skinni. Þá virðist ein farsælasta leiðin til þess að hætta, vera sú að játa trú á æðri mátt. Játa trú á Guð. Það eru fyrstu þrjú skrefin, fyrstu sporin af sporunum tólf, til betra lífs. Og í öðru sporinu er einmitt talað um andlegt heilbrigði, það er að trú á að máttur okkur æðri geti gert okkur andlega heil að nýju.  

Þessi máttur sem segir þarna frá í Gamla testamentinu, í þessum fornu frásögum, er því enn að verki, hefur því enn þá úrslitaþýðingu í lífi margra í okkar samfélagi.

Hver er þín Guðsmynd?

Í Gamla testamentinu segir einmitt frá því að alltaf þegar maðurinn lætur sér detta í hug að hann hafi skilið að fullu Guðdóminn eða höndlað Guð, þá birtist Guð manninum á einhvern nýjan og fyllri máta. Kannski er það einnig reynsla þín, eins og mín.

Þetta eru auðvitað miklir leyndardómar sem við erum hér að fjalla um. Lífið er fullt af leyndardómum og endanleg svör við þeim öllum eru ekki endilega handan hornsins.

Jesús Kristur er birtingarmynd Guðs í heiminum

Frásögurnar af Jesú Kristi eru birtingarmyndir Guðs í heiminum. Jesús er hin skýra Guðsmynd hér í heimi. Textarnir í Nýja testamentinu, sem eru tæplega 2000 ára gamlir, miðla einmitt þeirri trú þeirra, sem kynntust honum sjálfum, en þar segir Páll postuli til dæmis í pistli dagsins: „Kirkjunnar þjónn er ég orðinn og hef það hlutverk að boða Guðs orð óskorað, leyndardóminn sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða en hefur nú verið opinberaður. Guð vildi opinbera hvílíkan dýrðarríkdóm sem Kristur er meðal okkar, von dýrðarinnar.“

Guðsmyndin sem Jesús Kristur birtir er af Guði sem elskar. Skilyrðislaust.

Elskar fjölbreytileikann, og vill að maðurinn sé farvegur þeirrar elsku til annarra og heimsins alls.

Áföll og missir geta raskað þeirri mynd í huga okkar. Stóru spurningarnar um tilgang og hugsun að baki lífi og tilveru vakna þegar sjúkdómar herja á okkur, eða áföll dynja yfir.

Getur Guð verið kærleiksríkur þegar við göngum gegnum slíkt?

Getur Guð verið til, þegar vondir hlutir henda gott fólk?

Fylg þú mér

Það er jú kannski einmitt þar sem við finnum einnig hvað mest fyrir því að æðri máttur er að baki tilverunni, þegar við göngum í gegnum dimman dal.

Þá er það kannski tilboð Jesú til þín og okkar allra, að fylgja honum, sem getur verið okkur haldreipi, sem getur veitt líkn við þraut, sem getur veitt styrk þegar hvergi annarsstaðar er styrk að finna.

Í Jóhannesarguðspjalli er skemmtileg lýsing á því er Jesús kallar til sín lærisveina sína, sem lesin var hér áðan. Jesús valdi nefnilega lærisveinana sína og sagði: „fylg þú mér“. Það voru ekki endilega þeir sem létu sér detta í hug að verða lærisveinar hans, það var hann sem hafði og hefur frumkvæði að því að kalla lærisveina til fylgdar við sig, og í textanum svöruðu þeir boði hans játandi.

Að fylgja Jesú er að fara að fordæmi hans, hafa kannski þá spurningu í huga í aðstæðum lífsins og frammi fyrir verkefnunum: Hvað myndi Jesú gera?

Hann masteraði jú það að vera manneskja, með því að sýna fórnfýsi, lækna sjúka, rjúfa einangrun þeirra sem eru á jaðri samfélagsins, hjálpa þurfandi, segja sannleikann, vera náungi náunga okkar, biðja fyrir sjúkum, bera hvert annað á bænarörmum, lifa í friði, vera hógvær, sýna kærleika til allra sem á vegi hans urðu.

Um þetta og fleira lærum við í fermingarfræðslunni, þetta eru auðvitað verkefni allra þeirra sem vilja feta í fótspor meistarans.

Guð gefi okkur náð sína til þess.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun í Bústaðakirkju 10. október 2021 kl. 13