Mikið höfum
við að þakka íslendingar. Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda virðast lágmarka þann
skaða sem cóvidfaraldurinn veldur. Þar á
bæ er unnið eftir faglegum aðferðum og heilbrigðri skynsemi. Hvergi reynt að fegra aðstæður; varnaðarorðin
eru ströng en líka framsett af virðingu og tillitssemi.
Framganga
þeirra sem miðla upplýsingum og standa í brúnni vekur traust og tiltrú.
Vitaskuld er óvissa yfir; hvað verður nákvæmlega veit enginn fyrir víst og
uggur og ótti naga. Hvernig verður morgundagurinn? Hvernig líður okkur á páskadag, eða
sumardaginn fyrsta?
Í
Bandaríkjunum stefnir í þjóðarharmleik vegna faraldursins. Guð gefi að verstu
spár um mannfall gangi ekki eftir. En strúturinn
stakk hausnum í sandinn. Engin bönd
virðast á sjúkdómnum og fát og fum einkenna viðbrögð þeirra sem ábyrgð bera.
Alríkisstjórnin
ber mikla ábyrgð á þeim dökku horfum sem nú blasa við. Það ríki sem eyðir mestum fjármunum allra í
hergögn, ævintýralegum upphæðum, er vanbúið til að mæta farsótt – allt vantar
til alls - og setur þegna sína út á gaddinn.
Þetta ætti
svo sem ekki að koma á óvart. Peningaöflin sem ráða bandarísku samfélagi hafa
sett mennsku sína á ruslahauginn. Þeir ofurríku kæra sig kollótta um afdrif
þeirra sem lítið hafa. Gróðaglampinn
blindar sýn á réttlæti og mannúð.
Sjúkratryggingar, velferðarkerfi í rúst. Hinir efnaminni og fátæku hafa
ekki efni á læknisþjónustu. Veikur máttu
ekki verða; það þýðir tekjutap eða atvinnumissi því almannatryggingar eru
bágar.
Viðbrögð
stjórnvalda voru lengst af fálmkennd, einkennd af afneitun og að kenna öðrum um;
viðvaranir hundsaðar. Viðspyrna kom of seint. Kínverska pestin segir forsetinn, það
sjálfhverfa furðutól sem er gjörsamlega vanhæfur til alls nema skara eld að
eigin köku, svívirða fólk og einkum konur.
Honum fannst
að þetta væri bara ómerkilegt kvef sem hyrfi fljótt. Og fyrst honum fannst það þá var það rétt.
Hvernig er hægt að vera svona vitlaus, spyrja margir. Og hvernig má það vera að
svo margir séu fúsir í heimskudans hans?
Í lofsöng
Maríu segir: „ Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug
og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp
hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér
fara.“ ( Lúkas 1.51 – 53 )
Það er
leiðtogakreppa í Bandaríkjunum. Ekki er
þó rétt að alhæfa um bandarísk stjórnvöld.
Ríkisstjórarnir margir, til að mynda Andrew Cuomo í New York tala og
starfa eins og leiðtogum ber, skilja þörfina og lýsa áhyggjum yfir þeim
hamförum sem við blasa; gera allt sem unnt er til að bjarga því sem bjargað
verður.
Þegar upp
verður staðið og staðreyndir liggja fyrir um afleiðingar faraldursins í Bandaríkjunum
er víst er að það verður slegist um rétta útgáfu af sannleikanum. Sannleikann má hanna, framleiða, selja og
kaupa. Hvað er sannleikur?
En við á
okkar litla landi getum að lyktum vonandi þakkað og sagt að yfirvöld hafi
brugðist rétt við í ótrúlega flóknum og snúnum aðstæðum. Vonandi getum við líka
sagt að heilbrigðisþjónusta og velferðarkerfi hafi reynst vel og staðist þungt
próf. Styðjum okkar góða fólk sem leggur
sig að veði svo við fáum að líta nýja dagsbrún vonglöð og styrk.