Sálmabók

129. Ó, höfuð dreyra drifið

1 Ó, höfuð dreyra drifið
er drúpir smáð og pínt,
af höndum þræla þrifið
og þyrnum sárum krýnt,
ó, heilagt höfuð fríða
er himnesk lotning ber
en háðung hlaust að líða,
mitt hjarta lýtur þér.

2 Þú auglit allra skærast,
í upphæð vegsamað,
þú yndið engla kærast,
hví ertu hrækt og spjað?
Hví ertu þannig þjakað
að þekkjast mátt ei nú?
Hví svo af böðlum blakað
að blikna hlýtur þú?

3 Af blygð og harmi hrelldur
ég, Herra, játa má:
Mín syndasekt því veldur,
hún sárt þig lagðist á.
Sjá, hér ég er sem hefi
þig hrakið, pínt og smáð.
Þín miskunn mér þó gefi
að megi' eg öðlast náð.

4 Æ, virstu við mig kannast
svo vondur sem ég er,
og sauð þinn auman annast
sem einatt villur fer.
Mér virstu særðum svala
í sálar þungri neyð,
æ, virstu við mig tala
og vísa' á rétta leið.

5 Ég vil þar vera hjá þér
er veit ég píndan þig
og eigi fara frá þér.
Æ, fyrirlít ei mig.
Er dauðans svefn fær sigið
á signað auga þitt
ég vil þitt höfuð hnigið
við hjartað leggja mitt.

6 Af hjarta þér ég þakka
að þyngstan kvaladeyð
þú ljúft þér lést að smakka
svo leystir mig úr neyð.
Lát, Kristur kærleiksríkur,
ei kulna trú hjá mér
en loks er ævi lýkur
mig lát þú deyja' í þér.

T Arnulf frá Louvain fyrir 1250 – Paul Gerhardt 1656 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
O Haupt voll Blut und Wunden
L Hans Leo Hassler, 1601 – Sb. 1871
O Haupt voll Blut und Wunden
Eldra númer 145
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Jes. 53.4–5

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is