147. Árdegisljóminn lýsir skær ♥
1 Árdegisljóminn lýsir skær,
lofsöngur himins ómar tær,
ljóssins veröld í heiði hlær,
helmyrkvinn banasárið fær.
2 Krossfestur lífsins kóngur hár,
Kristur, sigraði dauðans fár,
brotinn er nú hans broddur flár,
brostnar hans grimmu klær og slár.
3 Hann sem í steinþró liðinn lá
– lið hermanna þar vakti hjá –
sigrandi lífsins brandi brá,
bjartari en sól reis dauðum frá.
4 Braut hann og eyddi heljar hlið,
hrökk þá á flótta vítislið
en allir hlutu hjálp og frið
sem heilagt nafn hans kannast við.
5 Harmanna myrkur horfið er,
himininn opinn trúin sér,
Drottinn lífsins með ljóssins her
leiftrandi sigurmerkið ber.
6 Dýrð og vegsemd þér votti nú
vakin, fagnandi páskatrú.
Heilaga þrenning, huga snú
heim til lífsins sem gefur þú.
T Aurelius Ambrosius? – Sb. 1589 – Sigurbjörn Einarsson, 2010 – Vb. 2013
Aurora lucis
L Frá fornkirkjunni – Sb. 1589
Aurora lucis
Eldra númer 930
Eldra númer útskýring T