391. Sjá, nú rennur dagur af djúpi skær ♥
1 Sjá, nú rennur dagur af djúpi skær,
dýrðarleiftrum sólin á jörðu slær.
Heyr, hve gleðin ómar þótt allt sé hljótt:
Undur ljóssins birtist og hverfur nótt.
2 Sæll ég teyga morgunsins blíða blæ,
blessa allt sem þigg ég og notið fæ.
Guði syng ég lof fyrir ljóssins gjöf,
lífs og náðar orð yfir synd og gröf.
3 Lofa vil ég hann þegar ljós mér skín,
leita hans í trausti þá birtan dvín,
lúta björtum vilja og valdi hans,
vona minna sól, föður kærleikans.
4 Ó, að mega faðma þig, fagra stund,
fagna nýrri sól eftir næturblund.
Allt sem mér er kærast í heimi hér
heilög kveðja morguns frá Guði er.
5 Ljómi ber af ljóma við himins hlið,
himnesk dögun kemur með náð og frið,
andvara þess morguns sem aldrei fer,
upprisunnar birtu, minn Guð, frá þér.
6 Þótt mig reki stormar um húmguð höf,
hinst þó bíði nóttin við kalda gröf,
lífsins Guð mér skýlir og heljar hjarn
hlær sem dögg við sól því ég er hans barn.
7 Sjá, þá rennur dagur af djúpi nýr,
dauðans nótt að eilífu burtu flýr.
Ó, þann gleðisöng þegar sér vor önd
sól Guðs standa kyrra við lífsins strönd.