Sálmabók

451. Ljúft er að finna ást af þínum anda

Sólarsálmur Frans frá Assisi

1 Ljúft er að finna ást af þínum anda,
ylinn sem gefur snerting þinna handa,
lifa og vera þegn í sköpun þinni,
þakklátur eiga stað í veröldinni.
Örlátt er lífið og allt í kringum mig
elskunnar gjafir sem vilja birta þig.

2 Vakinn til dagsins sé ég mína systur,
sólina björtu, geislum hennar kysstur.
Bróðir minn, máninn, vögguljósið lætur
líknandi vefja þreyttum kyrrar nætur.
Örlátt er lífið og allt í kringum mig
elskunnar gjafir sem vilja birta þig.

3 Ást þína vil ég jarðarbörnum bera,
bróðir og systir sköpuninni vera.
Blómin og grösin verndarfaðmi fel ég,
fagnandi undir himni þínum dvel ég.
Örlátt er lífið og allt í kringum mig
elskunnar gjafir sem vilja birta þig.

T Svavar A. Jónsson 2010
Canticle of the Sun (Laudes Creaturarum) / Fratello sole, sorella luna - Brother Sun, Sister Moon
L Riz Ortolani 1972
Fratello sole, sorella luna - Brother Sun, Sister Moon / Dolce sentire

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is